05.02.1945
Efri deild: 118. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (2558)

119. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. meiri hl. (Eiríkur Einarsson):

Herra forseti. Það er í rauninni óþarft fyrir mig að taka til máls, því að umr. hníga að því einu að verða margþættari um þýðingarlaus atriði. Það, sem mestu máli skiptir, er, hvort dagskrártill. eða frv. hentar betur. En það, sem á milli ber, er svo lítið, að ekki tekur því að ræða um það. Það er ekki hægt að véfengja það, að ef málið er í höndum ríkisstjórnarinnar, er því bezt borgið og hún mun láta undirbúa það, eftir því sem hún telur réttast og affarasælast.

Ég álít, að skrifl. brtt. hafi mjög litla þýðingu, því að ég er viss um, að stjórnin muni hraða undirbúningi málsins eins og verða má, það verður að undirbúa það á sem ýtarlegastan hátt. Ég tel, að í stað lagasetningar um málið hefði átt að liggja fyrir till. til þál. um, að ríkisstjórnin undirbyggi málið sem allra bezt og léti sem fullkomnasta rannsókn um þetta efni fram fara.

Það er aðalatriðið, að málið sé í höndum ríkisstjórnarinnar. Ef það er þar, vitum við, að treysta má, að því sé vel borgið.