05.02.1945
Efri deild: 118. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í C-deild Alþingistíðinda. (2559)

119. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. minni hl. (Páll Hermannsson):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. taldi, að innlendur áburður mundi verða heldur dýrari en erlendur. Um þetta liggur fyrir flókin og torlesin skýrsla. Við erum þar á öndverðum meiði, því að ég taldi, að innlendur áburður mundi verða ódýrari.

Það er að vísu heimild í fjárlögum þessa árs til að láta reisa áburðarverksmiðju, en ég geri ekki ráð fyrir, að sú heimild verði notuð á þessu ári.

Ég er sammála hv. þm. S.-Þ. um, að þetta málefni er mjög þýðingarmikið fyrir landbúnaðinn og þjóðarheildina. Þetta er eins konar sjálfstæðismál, eins og allt sem miðar að því, að við verðum sjálfum okkur nægir og getum framleitt sem mest í landinu, í stað þess að sækja til annarra landa.