10.01.1945
Neðri deild: 101. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í C-deild Alþingistíðinda. (2573)

125. mál, alþýðutryggingar

Skúli Guðmundsson:

Ég get hreint ekki þakkað heilbr.- og félmn. fyrir afgreiðslu þessa máls. Hún hefur haft það til meðferðar í 4 mánuði, og þegar hún loks skilar áliti, þá er það mjög óviðunandi.

Eins og getið er í frv., þá eru starfsmenn tveggja banka, sem hafa sérstaka lífeyrissjóði, undanþegnir tryggingarskyldu hjá Lífeyrissjóði Íslands. Fleiri stofnanir hafa stofnað eftirlaunasjóði fyrir starfsfólk sitt, en það er ekki undanþegið gjaldskyldu til hins almenna lífeyrissjóðs. Hér er um misrétti að ræða, sem alls óverjandi er að hafa í löggjöf.

Ég flutti frv. um þetta fyrir 2 árum og fékk þá hið sama svar, að þetta væri til athugunar í mþn. Ég tel, að það sé nauðsynlegt og sjálfsagt að gera þessa breytingu strax. Mþn. getur þrátt fyrir það gert sínar athuganir og tillögur.

Ég vænti þess, að allir sjái, að hér er um misrétti að ræða, sem sjálfsagt er að lagfæra, og greiði atkv. á móti hinni rökst. dagskrá, en samþ. frv.