01.02.1945
Efri deild: 116. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í C-deild Alþingistíðinda. (2589)

152. mál, nýbyggðir og nýbyggðasjóður

Frsm. (Kristinn Andrésson):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um nýbyggðir og nýbyggðasjóð kom til landbn., og sendi hún það til umsagnar Búnaðarfélagi Íslands, Búnaðarbanka Íslands og nýbýlastjórn ríkisins. Það leið alllangur tími frá því n. sendi frá sér frv. og þar til svar barst frá Búnaðarfélaginu. Var það þess efnis, að starfandi væri mþn. búnaðarþings, sem hefði með höndum rannsóknir varðandi þetta mál, og hefði hún aflað sér allmikilla gagna um það og teldi stjórn félagsins því réttara að bíða eftir áliti þessarar n. og kvaðst hafa vísað frv. til hennar. Landbn. hefur beðið eftir þessu svari og ekki tekið frv. til nánari athugunar. Er svarið barst, höfðu allmiklar breytingar átt sér stað; ný ríkisstj. var setzt að völdum, er hafði aðallega á stefnuskrá sinni nýskipun atvinnumálanna, og búið var að stofna nýbyggingarráð, sem einmitt hafði verið falin umsjá með þessari nýskipun. Landbn. taldi því, — þar sem svona var komið og svo langt liðið á þ., — að henni mundi ekki vinnast tími til þess að taka þetta frv. til nægilega rækilegrar athugunar nú, og mundi því vera rétt að afgr. málið á þann hátt að fela nýbyggingarráði og Búnaðarfélaginu að undirbúa málið betur, þó að mér sem flm. þessa frv. hefði þótt betra, að landþn. hefði nú á þessu þ. getað tekið málið til rækilegrar athugunar og afgr. það á annan hátt. Ég tel, að hér sé um mjög aðkallandi mál að ræða, stofnun byggingahverfa, sem er aðalefni þessa frv., og sem ekki megi dragast. Þessi nýsköpun, stofnun byggðahverfa og ræktun landsins í því sambandi, hlýtur alltaf að taka langan tíma, og því lengur sem dregst að undirbúa þetta mál, því verr álít ég farið. Hins vegar var ég n. sammála um það, þar eð nýbyggingarráð hefur verið stofnað og búnaðarmálastjóri á þar sæti, sem hefur látið sér mjög annt um þessi landbúnaðarmál, — að málinu mundi vera vel komið í höndum þessa ráðs, og væri því æskilegt, að það fengi málið til undirbúnings í trausti þess, að það taki málið alvarlega fyrir og láti ekki undirbúning dragast. — Viðvíkjandi því áliti, sem kom frá Búnaðarfélagi Íslands, vildi ég þó taka það fram, að mér finnst kenna allmikils seinlætis hjá því í þessu máli, þrátt fyrir margyfirlýstan góðan vilja til þess að hrinda því af stað. Mþn. frá Búnaðarfélaginu hefur verið starfandi í þessu máli, og segir Búnaðarfélagið, að hún hafi ekki skilað fullnaðaráliti enn þá. Hins vegar hafði hún þá strax á s.l. vori birt till. um stofnun ákveðinna byggðahverfa, og einmitt eftir þeim auglýstu till. var farið í þessu frv., og tilgangur okkar flm. með því að koma með frv. fram með eins góðum undirbúningi og okkur var unnt, var einmitt sá að flýta sem mest fyrir því, að þetta mál yrði nú tekið alvarlega fyrir. Mér finnst því, að Búnaðarfélagið ætti að láta meira að sér kveða í þessu máli.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál; eins og komið er, sætti ég mig við þá meðferð málsins, sem landbn. hefur orðið sammála um, sem sé að afgr. frv. héðan með svohljóðandi rökst. dagskrá:

„Í trausti þess, að ríkisstjórnin feli nýbyggingarráði að taka þetta mál til vandlegrar athugunar og vinna að undirbúningi þess með framgang málsins fyrir augum, eftir því sem bezt þykir henta fyrir íslenzkan landbúnað, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég vil aðeins bæta því við, að ég treysti því, þótt þessi afgr. sé viðhöfð í málinu, að nýbyggingarráð og Búnaðarfélagið láti málið til sín taka og undirbúningi þess hraðað sem mest, svo að unnt verði að leggja málið fyrir næsta hv. Alþ. og að þá geti það fengið fullnaðarafgreiðslu, svo að hægt verði að hefjast handa um stofnun byggðahverfa, a. m. k. þar, sem það er mest aðkallandi á landinu.