29.01.1945
Neðri deild: 114. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í C-deild Alþingistíðinda. (2616)

216. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Bjarni Ásgeirsson:

Mér er sagt, að hv. frsm. hafi véfengt fyrirvara minn með nál., og vil ég skýra, í hverju hann var fólginn. Ég óskaði eftir öðru orðalagi á dagskránni en varð. Ég vildi orða þannig, að lagt væri fyrir ríkisstj. að leggja fram frv. til breyt. á mjólkursölul. að fengnum till. mþn. í mjólkurmálum. Ég fékk þessu ekki framgengt. Því sagði ég frsm., að ég skrifaði undir með fyrirvara, og sagði hann þá ekkert við því.

Hv. frsm. beindi að mér þeirri ásökun, að ég hefði reynt að koma í veg fyrir afgreiðslu máls, sem hann flutti. Það er ekki rétt, það hef ég ekki reynt og sízt með því móti, sem hann hugsaði sér. Ástæðan til þess, að frv. hefur beðið, er sú, að eftir því sem forseti skildi þm., var honum ekkert kappsmál að fá málið tekið fyrir, eftir að atkv. höfðu fallið þannig um það í n. fyrir jól, að allir sögðu nei nema flm. Hann hefur síðan aldrei á það minnzt við mig, að ég gæfi út nál., en nú er sjálfsagt að gera það og þá heldur í dag en á morgun.