29.01.1945
Neðri deild: 114. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í C-deild Alþingistíðinda. (2618)

216. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Ég get lýst ánægju minni og okkar Reykvíkinga yfir því, að hv. frsm. hefur viðurkennt, að vöntun er á mjólkurafurðum í borginni, einkum vissa árstíma, en á sumum þeirra stöðugt, og þetta sé hlutur, sem allir eigi að vera samtaka um að kippa í lag. Það er viðurkennt, að kvartanir neytenda eiga við rök að styðjast. En hingað til hafa svörin við öllum aðfinnslum þeirra verið á eina bókina lærð og ekkert á þeim að græða nema ýfingar. Þetta vona ég boði góðar úrlausnir.

Ég skildi þetta frv. svo hjá flm., að hann vildi koma í veg fyrir, að hlutur framleiðenda utan verðjöfnunarsvæða væri fyrir borð borinn, og það virðist hann vera, alveg að óþörfu. Þetta vildi hv. þm. V.-Sk. alls ekki skilja, og hitt, sem hann talaði um, að afnema ætti mjólkurbú eða sama sem og eftirláta þeim markaðinn, sem gætu ekki tryggt vöruvöndun, var aðeins útúrsnúningur. Mér finnst n. hafa skilið frv. að þessu leyti, en ekki meir en minnst var komizt af með að öðru leyti. Ég verð að benda hv. þm. V.-Sk. á, að hér eru nefnd skýrum stöfum „mjólkurbú, sem kunna að verða stofnuð utan verðjöfnunarsvæða,“ og þetta hlýtur hann að hafa lesið. Hvaða ástæða er til að halda, að þau mjólkurbú færu verr með mjólkina en búin, sem fyrir eru?

Þegar rætt hefur verið um afurðasölumálin, hefur það oftast orðið deila milli neytenda og framleiðenda, en nú er annað aðalatriðið það, hvernig rétt sé að skipta framleiðslu milli framleiðenda og sporna þar við óheillaþróun. Alltaf er eitthvað bogið við það, þegar framleiðandi hefur ekki leyfi til að selja framleiðslu sína, og það þá helzt, þegar tilfinnanlegur skortur er á henni á markaðnum. Það er fullkomin þörf að endurskoða öll afurðasölulögin og kippa því í lag, að menn séu ekki með sölubanni neyddir til kjötframleiðslu, sem er mjög torseljanleg og bæta þarf upp með millj. króna, en aðrar neyzluvörur, unnar úr mjólk, þurfi að sækja til útlanda. Ég er hissa á að menn, sem lengi hafa átt aðkasti að venjast, skuli alltaf vera eins og komið sé við kviku, þegar rökrætt er um þessi mál og á það bent, sem til bóta mætti horfa, en því verður ekki móti mælt, að árangur l. er allt annar en vonazt var eftir. Það veldur líka alltaf tortryggni, þegar menn rjúka upp og flytja jafnósannar ræður og snúa eins út úr og hv. þm. V.-Sk. gerði, það getur ekki orðið til bóta í málum.

Hv. þm. V.-Húnv. vil ég aðeins benda á, að þetta frv. og rökst. dagskráin miða að nýju og bættu skipulagi afurðasölunnar eins og þál., sem hann gat um, og er þar samræmi, en ekki ósamræmi í stefnu þeirra, sem að báðum málunum standa.