29.01.1945
Neðri deild: 114. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í C-deild Alþingistíðinda. (2619)

216. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Frsm. (Jón Pálmason):

Hv. þm. V.-Sk. kom hér inn í umr. með mjög einkennilega ræðu. Hún var að vísu mest um annað mál en fyrir liggur, þál. um skipulagning kjötframleiðslunnar, og það var bara athugunarefni, sem fólst í þeirri þál. Engin mótsögn er milli þess að samþykkja þá athugun og að samþykkja dagskrána um að undirbúa breytingar á mjólkursölul., heldur fyllsta samræmi. Þó að breyt. frv. gangi fram, hafa bændur verðjöfnunarsvæðisins einkarétt til sölu á nýmjólk, og það er aðalatriðið.

Ég vildi svara hv. þm. Mýr. örfáum orðum. Hans verk var það, að frv. okkar þm. Snæf. lá í n. frá því rétt eftir miðjan sept. fram yfir miðjan desembermánuð. Það var hans verk, að nál. er ekki enn komið fram. Hitt er rétt, að eftir undirtektir í n. gerði ég mér ekki vonir um fullan framgang málsins á þessu þingi og lagði því ekki kapp á við forseta, að hann heimti það úr n., ætlaði að vita, hvað form. n. drægi það lengi. En ekki var það af því, að mér væri þetta ekki áhugamál og vildi fá frumvarpið rætt.

Örlítið verð ég að minnast á ræðu hv. þm. V.-Sk., þótt hann kæmi ekki með ný rök. Það er svo með hann, að aldrei má nefna svo mjólk, að hann fari ekki úr jafnvægi. Það, sem hann hefur að bjóða, er ekki skyr og rjómi, það er ekki til á orðamarkaði hans, heldur bláköld undanrenna og ekki óskemmd, heldur súr og gömul. Hann þykist einn allt vita um mjólkurmál og segir bara: Þið þekkið þetta ekkert, og þið eruð heimskingjar, þið farið með lygi — o. s. frv. Núna var það ég, sem hann þurfti að ausa mjólkinni á. Ásakanirnar voru þessar: Það er ósatt, að nokkur aðili hafi einkarétt á mjólkursölumálum hér á landi. — Nú vita þó allir, hvað lögin segja í þeim efnum: Þau banna viðskipti. Þeir, sem þannig eru sviptir aðstöðu til afurðasölu, geta ekki unað við svo búið, og neytendur geta ekki heldur unað við svo búið, þeir þurfa að fá það, sem hinum er ekki leyft að selja, og þarf ekki langra skýringa til að sjá, hve þörfin á endurskoðun þessara l. er brýn. Þessi hófsamlega orðaða dagskrá n. hefði ekki átt að þurfa að vekja styr.

Hv. þm. V.-Sk. taldi, ef hún yrði samþykkt, að þá mætti eins koma á aftur gamla laginu og leggja niður mjólkurbúin, en hver flytti sjálfur sínar mjólkurafurðir í kaupstaðinn. Þetta er ekki svaravert. Engum dettur þetta í hug, heldur nýtt og betra söluskipulag. Mér þætti undarlegt, ef ekki yrði meiri hl. þm. með því, að málið verði lagt fyrir næsta þing.