17.11.1944
Neðri deild: 76. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í C-deild Alþingistíðinda. (2642)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. — Eins og hv. þm. hafa séð, fjallar breyt. í 1. gr. frv., sem hér liggur fyrir, um það eitt að bæta enn einum stað í l., þar sem húsmæðraskóli skuli vera, þ. e. a. s. slíkur húsmæðraskóli sem viðurkenndur er af ríkisvaldinu og styrks nýtur.

Nú er þessi löggjöf heimildarlöggjöf, eins og um aðra slíka skóla, þannig að hún ákveður, að heimilt sé að stofna skóla með fullum réttindum á þeim stöðum, sem tilteknir eru. Og þeir verða því aðeins stofnaðir og starfræktir, að viss skilyrði séu uppfyllt, þ. e., að aðilar í héruðum séu tilbúnir að kosta þá og reka þá með þeim tilstyrk, sem lagaákvæði ella áskilja frá hálfu ríkisins.

Nú hafði mig að vísu ekki órað fyrir því, að í aðsigi væri breyt. sérstök á l. um húsmæðrafræðslu í sveitum. Ég hafði talið líklegt, að við það mætti hlíta, sem ákvæði eru um í 3. gr. l., sem sé, að skólar væru ákvarðaðir og þá starfandi um landið meira og minna, nokkuð dreift, má segja, í landsfjórðungunum aðallega og þá bundnir við þá staði, þar sem annaðhvort skólar hafa verið reknir á slíkir eða héraðsskólar eru settir, og þar sem ætlazt er til, að þeir verði útvíkkaðir nokkuð í sínu starfi, svo að reglulegur húsmæðraskóli megi kallast þar. Þetta sýna staðir þeir, sem tilteknir eru í áminnztri lagagr. — Það má segja, að þessi dreifing um landsfjórðungana á húsmæðraskólunum, þannig að í hverjum landsfjórðungi er húsmæðraskóli — og þó betur nokkuð, í Norðurlandi einkum, — tryggi, að allvel sé fyrir þessum málum séð. Og eins og lagagr. er prentuð upp í 1. gr. þessa frv., má sjá, að á Norðurlandi er allt í lagi í þessu efni samanborið við hina landsfjórðungana. Og sérstaklega má benda á, að nú er húsmæðraskóli ákveðinn á Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu, og nú er hér ætlazt til, að einnig verði í Norður-Þingeyjarsýslu, hinni sýslunni, settur á fót annar húsmæðraskóli.

Það er langt frá því, að það sé ámælisvert, að áhugi manna vakni fyrir því að koma á fót slíkum skólum, ef ástæður mæla með því og héruðin eru til þess búin. — En nú eru tvær hliðar á þessu máli, ekki aðeins sú hliðin, að héruðin geti gert sig þess umkomin að taka þátt í þessu starfi, heldur er talsvert þungur baggi ætlaður ríkinu að bera við stofnun slíkra skóla, sem er sú almenna hlið á málinu.

En úr því að þessi till. er fram komin, þá töldum við, sem eigum sæti á þingi héðan af Suðurlandi og vitum vel grein á þessum hlutum þar, hvernig ástatt er, bæði um stað og undirbúning að formi og efni, — við töldum ekki stætt á því að láta orðalaust bæta við slíkum skóla á Norðurlandi, þar sem fullvel er skipað þessum málum fyrir, þannig að ekki verði samþ. heimild um slíka stofnun einnig á Suðurlandi. Hljóðar brtt. okkar á þskj. 454 á þá lund, að einnig verði stofnað til húsmæðraskóla að Ytri-Skógum í Rangárvallasýslu og Kirkjubæjarklaustri í Vestur-Skaftafellssýslu. Á Suðurlandi er einn húsmæðraskóli fyrir áætlaður í áminnztri lagagr., að Laugarvatni í Árnessýslu. Hann er á enda Suðurlands, sem við köllum, hér fyrir austan fjall. Og það er langt af Suðurlandi austar að sækja hann. Auk þess fer nú að verða nokkuð jafnræði á milli fleiri staða, og nefni ég þar til Ytri-Skóga í Rangárvallasýslu, því að þar er ákveðið að stofna héraðsskóla. Hann á að vera fyrir Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu, og mætti segja, að Austur-Skaftafellssýsla gæti verið með, ef svo sýndist. En við það, að þetta er ákvarðað og á næstu árum væntanlega kemur til framkvæmda með þeim ráðstöfunum, sem þegar hafa verið gerðar, þá vaknar sú spurning, hvort ekki sé hæfilegt að gefa heimild til þess, úr því farið er að hrófla við þessum l. um húsmæðrafræðslu, að stofnaður sé þar og rekinn húsmæðraskóli. — Við teljum það óhjákvæmilegt, að þessar heimildir verði settar. Hins vegar mundi það ekki hafa neina þýðingu, hvort þær verða settar á þessu ári eða næsta ári. En heimildir þessar verða að koma. Og við getum ekki setið hjá undir þeim atvikum, sem hér er um að ræða, að lagt er til, að bætt verði við húsmæðraskóla með fullum réttindum annars staðar á landinu, þar sem áreiðanlega að sumu leyti virðist minni þörf á því, án þess að vekja athygli og bera fram till. um þörf Suðurlands í þessu efni. Og skal ég þó ekki efa áhuga manna og nokkurn undirbúning þar norður frá viðkomandi skólasetri á Akri.

Auk Ytri-Skóga, þar sem héraðsskóli verður væntanlega búinn að ná fullri framkvæmd á næsta ári, þá er í Vestur-Skaftafellssýslu staður, sem við höfum talið rétt að láta fylgja með, sem sé Kirkjubæjarklaustur. Eins og kunnugt er, er Kirkjubæjarklaustur og hefur verið nokkurs konar miðstöð sveitanna á milli Skeiðarársands og Mýrdalssands, sem er meginhluti Vestur-Skaftafellssýslu, og hefur ávallt verið mjög ákjósanlegt af ýmsum ástæðum að hafa þar nokkurs konar aðalstöð, sem sækja skuli til úr næstu sveitum. Þar eru líka, eins og á fleiri stöðum í Skaftafellssýslum, ýmsir aðrir staðhættir hinir ákjósanlegustu. Rafmagn má fá yfrið. Þar er nú sem stendur prestsetur og ýmiss konar framkvæmdir reknar. Virðist þar vera sveitaþorp að myndast. Ef setja skal upp skóla einhvers staðar „milli sanda“, er þessi staður kjörinn til þess fyrir allra hluta sakir. Má að því leyti telja þessum skólastað fullt eins mikið til gildis og Akri er með réttu talið í sínu héraði.

Í héraðinu hefur farið fram undirbúningur að stofnun húsmæðraskóla undanfarin tvö ár og fé verið safnað. Stofnaður hefur verið sjóður til minningar um Lárus Helgason, sem var alþm. og er öllum mönnum kunnur, til þess að kosta stofnun húsmæðraskóla á Kirkjubæjarklaustri, og hefur féð verið lagt í Söfnunarsjóð til að byrja með. Nú þykir rétt að fara að ýta á eftir, að fastákveðinn sé þessi staður og ráðin framkvæmd verksins, þegar ástæður þykja til þess. Það er mjög mikilsvert fyrir undirbúningsstarfið að tryggja rétt skólans með því að taka bann nú með, ef samþ. verður frv. það, sem fyrir liggur.

Nú sé ég, að fleiri hafa farið sömu leið og flutt brtt. um skóla, sem styðjast eflaust við sams konar rök og brtt. mín. Þm. Skagf. flytja till. um húsmæðraskóla þar í héraði og þm. Snæf. till. um húsmæðraskóla að Helgafelli. Það mun verða erfitt að gera upp á milli allra þessara skóla og skólans á Akri. Ég vil ógjarnan greiða atkv. með frv., nema ég viti fyrir, að hv. menntmn. muni taka brtt. til athugunar, en sé tryggt, að hún athugi málin fyrir 3. umr., gæti ég fallizt á að taka brtt. aftur þangað til.