22.01.1945
Efri deild: 108. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1205 í B-deild Alþingistíðinda. (2659)

253. mál, innheimta ýmissa gjalda 1945 með viðauka

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. þetta kom frá Nd. og er eins og menn vita um það að heimila ríkisstj. að innheimta nokkra skatta með 100 % viðauka árið 1945. En þeir skattar, sem um er að ræða, eru aukatekjur ríkissjóðs samkv. L—VI. kafla l. nr. 27 27. júní 1921, og samkv. l., sem hafa ákvæði um stimpilgjöld, leyfisbréfagjöld og lestagjald. Ætlazt er til þess, að þessi gjöld verði innheimt með 100% víðauka í stað 40%, eins og nú er heimilt samkv. l. Enn fremur, að ríkisstj. sé heimilað að innheimta með 50 % viðauka gjöld af innlendri framleiðslu tollskyldri og eignarskatt samkv. eignarskattsl. N. hefur orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt, þó þannig, að 1. þm. Reykv. skrifaði undir með fyrirvara. N. er sammála um það, að það séu full rök til þess, eins og nú standa sakir, að framlengja öll þessi gjöld, nema ef helzt skyldi vera sum atriði stimpilgjaldsins. Það má segja, að stimpilgjald geti verkað að nokkru leyti eins og verðtollur, þannig að hækkunin sé komin. En þar sem ekki er ætlazt til þess, að þetta gildi nema eitt ár, a.m.k. fyrst um sinn, er hægt að endurskoða það nánar, og sá n. því ekki ástæðu til að gera brtt. við þetta atriði. Ég ætla svo ekki að hafa fleiri orð um þetta, en leyfi mér að leggja til við þessa hv. d., að hún samþ. frv.