12.10.1944
Neðri deild: 64. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (2671)

153. mál, hafnarbótasjóður

Sigurður Bjarnason:

Það, sem ber á milli mín og hv. þm. Borgf. í þessu máli, er það, að hann telur þetta frv. vera í fullu samræmi við önnur l. um hafnarbótasjóð, en ég tel svo ekki vera. Ég tel það ekki vera, vegna þess að með þessu frv. er fé tekið úr hafnarbótasjóði til almennra framkvæmda, og það sést bezt á því frv., sem hér er næst á dagskrá, þar sem ætlazt er til, að tekið sé fé úr hafnarbótasjóði til hafnargerðar á Akranesi. Það er gert á grundvelli heildarframlagsins eða á svipuðum grundvelli og fleiri hafnarframkvæmdir á landinu.

Ég hygg, að þetta skeri úr um það, að hinum sérstaka tilgangi hafnarbótasjóðs sé ekki fylgt með þessu frv., en það, sem hv. þm. Borgf. drap á, að fé úr hafnarbótasjóði skyldi eingöngu veitt til hafnargerða á stórum stöðum eða til stórra hafna, er ekki að öllu leyti rétt skilið. Ég lít svo á, að tilgangur hafnarbótasjóðs sé tvíþættur, og það var þetta, sem vakti fyrir mér, þegar ég flutti frv. um hafnarbótasjóð, sem síðar varð að lögum: Að í fyrsta lagi væri veitt fé úr sjóðnum til að byggja stórar hafnir, svo kallaðar landshafnir. Þær hafnir eiga að vera fáar, og það ber fyrir fram að gera sér ljóst, í hvaða landshlutum slíkar hafnir eiga að verða og helzt hvar. Það verður að vera ákveðin skipulagning í þessum efnum.

Enn fremur og í öðru lagi var það tilgangur minn, eins og kemur fram í 1. gr. l., að úr sjóðnum yrði einnig veitt sérstök fjárveiting til hafnargerða og lendingarbóta á þeim stöðum, sem sérstaklega liggja vel við fiskimiðum, en hins vegar eiga erfitt um vik að snúast í slíkum framkvæmdum. Þessi framlög kæmu til viðbótar þeim almennu framlögum, sem veitt eru samkv. l. um hafnarbætur á fjárlögum hverju sinni. Þetta vakir að minnsta kosti fyrir mér, en alls ekki hitt, að fé sé tekið úr hafnarbótasjóði til þess að létta á fjárl. hverju sinni, eins og beinlínis er gert með frv. því, sem hér liggur fyrir frá hv. þm. Borgf. Þar er gert ráð fyrir, að 1 millj. kr., hvorki meira né minna en þriðji hluti sjóðsins, sé tekin í hafnargerð á Akranesi, án þess að nokkuð liggi fyrir um, að þar verði í framtíðinni svokölluð landshöfn, sem ríkissjóður styrki. Ég skal ekkert fullyrða um það, hvort Akranes verður ef til vill í framtíðinni ein af landshöfnunum. Ég skal ekki leggja neinn dóm á það, þótt sá staður liggi að vísu vel við miðum. Hins vegar er rétt að skjóta því fram, að þegar ég hef heyrt rætt um slíkar hafnir, þá hef ég oftar heyrt minnzt á höfn við sunnanverðan flóann en Akranes, en ég skal sem sagt engan dóm leggja á það.

Viðvíkjandi því, að hv. þm. Borgf. taldi ekki heppilegt að setja heildarlöggjöf um það, hvernig fé .úr þessum sjóði skuli varið, þá hygg ég, að ég hafi þegar svarað því. Ég hygg, að heppilegra sé að átta sig á því, áður en lagt er af stað, hvernig þessum málum skuli skipað í heild. Ég er fullviss um, að hafnarframkvæmdum í þessu landi má haga meir í samræmi við þarfir atvinnulífsins en gert hefur verið og útlit er fyrir, að verði. Þess vegna finnst mér æskilegt að setja víðtækari heildarlöggjöf um það, hvernig fé sé varið úr hafnarbótasjóði, heldur en lagt er til í því frv., sem hv. þm. Borgf. ber fram. Mér finnst mjög nauðsynlegt og tímabært, að snúizt verði að skipulagningu þessara mála og þau krufin betur til mergjar, áður en út á þessa braut er farið.