27.11.1944
Neðri deild: 82. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í C-deild Alþingistíðinda. (2678)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Ég ætla aðeins að gera örstutta athugasemd. Það, sem var meginatriðið í þessu máli við upphaf þessarar umr., var, að menntmn. fengi út af fyrir sig tóm til að athuga þessar till., áður en atkvgr. færi fram um þær. Það var vitaskuld ekki merkilegt atriði, hvort það tóm væri veitt á þann hátt að fresta þessum umr. ellegar till. væru teknar aftur til 3. umr. Kom að vísu til orða á fyrra stigi þessa máls, að till. væru teknar aftur til 3. umr. og ljúka umr. á fyrra fundi, en forseti ákvað að lokum að fresta þessari umr. Með þeirri ákvörðun hv. forseta veittist menntmn. þetta tóm, sem hún hafði óskað að fá til að athuga till.

Annað atriði, en ekkert höfuðatriði, er, hvort till. koma til atkvæða nú eða síðar. Það legg ég undir dóm hæstv. forseta.