04.12.1944
Neðri deild: 86. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í C-deild Alþingistíðinda. (2686)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Sveinbjörn Högnason:

Varðandi afgreiðslu menntmn. á brtt., sem hér liggja fyrir, þá vil ég spyrja menntmn. eða frsm. hennar, hvers vegna n. mæli með frv. um stofnun eins húsmæðraskóla í því héraði, sem bezt er séð fyrir húsmæðrafræðslu, en mælir gegn stofnun húsmæðraskóla á fjórum stöðum öðrum. Eru a. m. k. þrír þeirra staða á svæðum, sem verst er fyrir þessu séð. Og ég vil enn fremur spyrja menntmn., hvað hún telji vera verkefni sitt varðandi húsmæðrafræðslu landsmanna. Telur hún það hlutverk sitt að sjá einstaka héruðum fyrir þessum þörfum án tillits til þarfa þjóðarinnar í heild?

Það er vitað, að ekki er meiri skortur á neinum skólum en húsmæðraskólum. Til þess að fá inntöku í slíka skóla þarf að sækja um skólavist tveim til þrem árum fyrir fram. Það er mér kunnugt um. Þeir skólar, sem þegar eru til, eru allt of litlir og eru í raun og veru eingöngu ætlaðir þeim héruðum, sem að þeim liggja. Ég get ekki skilið það, hvers vegna menntmn. er að þessu, ef hún álítur, að sér beri að líta á hag allra landsmanna í þessu efni. Hvers vegna mega húsmæðraskólar ekki koma á þessum stöðum, þegar þeirra er fyllilega þörf og fólkið vill fá þá? Hvaða meining er að vera að standa gegn því? Ég álít það mjög áríðandi, að húsmæðrafræðslan komist í það horf, að allir fái þá menntun, sem óska þess. Að mínum dómi ætti beinlínis að skylda þær stúlkur, sem ætla að stofna heimili, til að sækja húsmæðraskóla. Hvaða vit er þá að útiloka þessi héruð frá húsmæðrafræðslu, þegar þau vilja samkv. l. leggja fram sinn skerf? Það væri ranglæti af hæstv. Alþ. að ganga þannig frá málinu. Mig furðar stórlega, hver afstaða menntmn. hefur orðið. Ég vildi gjarnan vita, hvernig hún liti á málið frá sjónarmiði þjóðfélagsins, en ekki einstakra héraða. Hún mælir með frv. um að stofna skóla í Norður-Þingeyjarsýslu, þó að húsmæðraskóli sé fyrir í Suður-Þingeyjarsýslu, en aftur á móti eru engir húsmæðraskólar í Rangárvallasýslu né Skaftafellssýslu, þar sem einnig er farið fram á að fá skóla. Það er heldur enginn slíkur skóli fyrir á Snæfellsnesi, að ég hygg, og ekki í Skagafirði. Það er því með öllu óskiljanleg heildarafstaðan, sem n. hefur í þessum málum, og vildi ég gjarnan fá frekari skýringar, áður en til atkvæða er gengið.