04.12.1944
Neðri deild: 86. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í C-deild Alþingistíðinda. (2687)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Að gefnu tilefni vildi ég svara hv. þm. V.-Sk. nokkrum orðum. Ég hafði ætlað, að þetta mál hefði verið svo ýtarlega rætt og rakið við fyrri umr. hér í d., að engum hv. þm., sem hér á sæti, kæmi það ókunnuglega fyrir nú, en svo virðist vera um hv. þm. V.-Sk., og má vera, að það stafi af því, að hann hafi verið fjarstaddur við afgreiðslu málsins eða eitthvað annars hugar. Hann kemur nú fram með fyrirspurn um það, hvers vegna menntmn. mæli með frv. eins og það liggur fyrir á þskj. 296. Það er rétt eins og engin grein hafi verið gerð fyrir því hér í hv. d.

Ég legg ekki í vana minn að endurtaka æ ofan í æ það, sem frv. fara fram á, en ég sé mig til knúðan að rifja upp sögu þessa máls hér í þessari hv. d. Ég held, að við þetta mál hafi blandazt dálítill misskilningur um formsatriði í sambandi við afgreiðslu þess. Þegar þetta mál kom fyrst til 2. umr., hafði n. ekki haft tækifæri til að athuga fyllilega allar þær brtt., sem fram komu og áttu að fylgja þessu. frv. En í þeim brtt. var lagt til, hvorki meira né minna en bæta við fjórum nýjum húsmæðraskólum í landinu, í stað þess, að upphaflega í frv. var ætlazt til þess, að stofnaður yrði einn skóli.

Þegar málið kom til 2. umr., óskaði ég fyrir hönd menntmn. þess eins, að n. fengi tóm til að ræða þessar brtt. á fundi sínum, og benti á, að því mætti fullnægja eftir tveim leiðum, og lagði á vald hæstv. forseta, hvorri leiðinni skyldi framfylgt; í annan stað mætti fresta 2. umr. málsins eða þá á hinn bóginn, að hv. flm. brtt. sættu sig við að taka till. aftur til 3. umr., því að á þann hátt gæfist n. tóm til umr.

Þetta lagði ég eða n. algerlega á vald hæstv. forseta. Úrskurður hans var á þá lund, að hann gerði í raun og veru hvort tveggja. Hv. flm. brtt. tóku þær aftur, en hæstv. forseti frestaði 2. umr. engu að síður. Svo þegar framhald 2. umr. fór fram hér í d., þá hafði n. gefizt þetta tóm til að ræða till. sín á milli, sem hún upphaflega óskaði eftir, og þá var vitanlega því náð, sem n. hafði farið fram á. Það hefur aldrei verið gefin nein yfirlýsing um það, að n. ætli að gefa út skrifl. álit um þessar brtt. Þetta er aðeins formsatriði málsins, og gagnvart þeim misskilningi, sem kom fram hjá ýmsum í þessari hv. d., þá vík ég örlítið meir að efni málsins.

Viðvíkjandi ummælum hv. þm. V.-Sk. þá virðist hann vera mjög ókunnugur því, sem fram hefur farið áður. Hann spyr, hvers vegna menntmn. hafi talið rétt að mæla með frv. eins og það liggur fyrir á þskj. 296, mæla með því, að einum einasta húsmæðraskóla sé bætt við í viðbót við þá, sem eru lögfestir og starfandi. Ég verð að neyðast til að endurtaka það, sem ég hef sagt í þessari hv. d. við fyrri umr. Menntmn. leit á þetta sem sérstaka undantekningu, og var það að dómi n. eðlilegt og réttlátt, vegna þess að undirbúningi öllum heima fyrir var svo langt komið í þessu héraði, að það var aðeins beðið eftir samþykki Alþ. og stuðningi þeim, sem sú samþykkt veitti.

Eins og kunnugt er, eru skólamál þjóðfélagsins í athugun hjá mþn., húsmæðramálin eins og aðrir þættir skólamálanna, og þó að menntmn. teldi ástæðu til að gera þessa einu undantekningu, að mæla með frv. óbreyttu, þá er nokkuð komið inn á aðra braut að ákveða nú, meðan mþn. hefur á hendi þessa heildarathugun, að fjölga húsmæðraskólum um allt að helming. Þá er búið að færa það inn á svo víðtækt svið, að n. áleit rétt að doka við, þangað til niðurstöður mþn. lægju fyrir, sem vitanlega verður bráðlega, og þá hlýtur þetta í heild að koma til athugunar og ákvörðunar hér á Alþ. Afstaða menntmn. um að mæla með frv. byggist því algerlega á þeim forsendum. En það vakti ekki fyrir neinum þeim, sem sæti eiga í menntmn., að þeir sem þm. eða nm. vildu bregða fæti fyrir, að húsmæðrafræðsla í landinu verði aukin og efld. Það er öðru nær. Það er aðeins, að það, sem liggur fyrir, og heildarskipan þessara mála verður afgreitt á næstunni. Þess vegna taldi menntmn., a. m. k. meiri hl. n., að svo víðtæk afgreiðsla sem sú að fallast á allar brtt., sem fyrir liggja, skyldi bíða þess tíma.