26.01.1945
Efri deild: 111. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í C-deild Alþingistíðinda. (2700)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er rétt til getið hjá hv. þm. Dal., að ég muni ekki gera mig ánægðan með að fá ekki skóla í Barðastrandarsýslu. Ég sé mér ekki fært annað en bera fram brtt. þar að lútandi. — Ég sé, að tveir húsmæðraskólar eiga að vera í Þingeyjarsýslu, og vænti ég, að hv. þm. S.-Þ. skipti ekki svo misjafnt að láta Barðastrandarsýslu verða alveg út undan, þegar hún líka hefur upp á ágæt skilyrði að bjóða til skólabyggingar, þar sem jarðhiti er þar nægur til sundlaugar handa þeim fríðu konum, sem kynnu að stunda nám.

Mér er kunnugt um, að ekki hafa allar þær stúlkur, sem sótt hafa um skólavist á Staðarfelli, fengið hana, og er því full þörf á, að skóli verði reistur á Reykhólum. Ég vænti þess, að hv. menntmn. greiði atkv. með þessari brtt. minni, og er það rétt, að Alþ. hafi allt í hendi sér um þessi mál.

Það hefur þegar verið ákveðið að gera Reykhóla að menntasetri, og hefur Alþ. lýst yfir, að það mundi gera það, strax og fé væri fyrir hendi til þess á fjárl.

Vil ég svo leyfa mér að afhenda hæstv. forseta svo hljóðandi brtt.:

„Við 1. gr. Á eftir orðunum „Blönduósi í Húnavatnssýslu“ í 1. meginmálsgr. komi: Reykhólum í Austur-Barðastrandarsýslu.“