30.01.1945
Efri deild: 114. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (2714)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Frsm. (Jónas Jónsson):

Ég þarf fyrst að víkja fáeinum orðum að því, hvort ástæða sé til að senda þetta mál frá þessari hv. d. til þeirrar n., sem hefur verið vikið að. Ég efast um, að hv. 6. þm. Reykv. sé kunnugt um það, — og það skiptir náttúrlega miklu máli viðvíkjandi möguleikum n. til þess að ráða fram úr málum, — að hve miklu leyti hún stendur í sambandi við landsfólkið um að afla sér reynsluþekkingar um þá hluti, sem hún gerir till. um. Ég hef enga ástæðu til að kasta hnútum að þeirri utanþingsstj., sem sat að völdum um tveggja ára skeið fyrir skemmstu. En hins vegar hefur það verið gert af blaði, sem hv. 6. þm. Reykv. fylgir. Það hefur talið, að störf þeirrar ríkisstj. hafi verið mjög í lausu lofti. En af öllu því, sem sú stj. kann að hafa lauslega gert, þá hefur sennilega ekkert verið lausara á lofti en þessi nefndarskipun mþn. í skólamálum. Sú ríkisstj. gróf upp þál., sem allir voru búnir að gleyma, þangað til þáv. menntmrh. gróf hana upp. Svo velur hann fólk í n., sem — að undanteknum einum manni — var ekki í sambandi við félagslega strauma í landinu. Það var aðeins einn maður í n., sem hafði nokkra reynslu af þeim erfiðleikum, sem á því eru að setja skóla á stofn. Það var maður, sem hv. 6. þm. Reykv. þekkir og er forstöðumaður eins af stærstu skólum landsins, Ingimar Jónsson, sem yfir 14 ár hefur beðið eftir því, að okkar ágæta höfuðborg og æðsta menningarsetur á landinu hefði auraráð til þess að láta þann skóla fá þak yfir höfuðið. Þessi maður, sem hafði þessa sorglegu reynslu, er eini maðurinn í n., sem nokkuð þekkti til baráttu fólksins í því víðsvegar um landið að koma slíkum skólum á stofn.

Svo er annað, sem hv. 6. þm. Reykv. sér, að ekki verður við unað í sambandi við þessa nefndarskipun og till. hennar, og það er, að bak við þetta stóðu engar umr. Fyrrverandi hæstv. ráðh. tekur menn af tilviljun í n. Sex þeirra fara austur að Laugarvatni og eru þar í nokkrar vikur eða mánuði að kokka eitthvað, alveg laust við þjóðlífið í landinu. Og það hefur ekki verið skrifuð ein blaðagrein né samþykkt nein fundarályktun um það, sem þessi n. hefur starfað. Hún er meira af tilviljun sett en nokkur önnur n. hefur verið, sem starfað hefur hér hjá okkur. Og ef menn t. d. athuga skipun og starf þeirrar n., sem hefur haft undirbúning launamálsins til meðferðar, þá er ólíku saman að jafna. Og ef nokkuð kemur út af starfi þessarar mþn. í skólamálum, sem er gripin alveg úr lausu lofti, þá verður það til óláns fyrir landið. Mér er kunnugt um, að enginn maður, sem í þessari n. hefur starfað, hefur áhuga á því máli, sem hér liggur fyrir til umr. Og ég skoðaði það ekki sem neina alvarlega tilraun, þó að senda ætti þessari mþn. þetta frv., sem hér liggur fyrir, til athugunar. Ég get aðeins glatt hv. borgarstjórann með því að sýna honum dæmi um það, hve erfitt yrði að uppfylla áform þessarar n., ef einhverjum dytti það í hug, — því að Reykjavík, sem hefði átt að reisa íhalds- og bolsaskóla, svo að maður noti mál Reykvíkinga, hefur ekki getað það. Nú á að byggja hér yfir annan skóla. En þessi „plön“ eru svo stórfelld, sem þessi n. ungaði út á Laugarvatni, að Reykjavík á eftir till. hennar þann bagga fram undan, sem má marka, hver er, af því, að eftir „plönum“ þeirra á skólaskylda allra unglinga að framlengjast svo, að það yrði að stækka Laugarvatnsskólann um 25% til þess að geta tekið á móti þeim unglingum úr Árnessýslu einni saman, sem eftir „plönum“ n. yrðu framhaldsskólaskyldir. Þess vegna verð ég að láta í ljós efa minn um það, að hægt verði í náinni framtíð að byggja framhaldsskólahús yfir þau á sjötta þúsund börn, sem eru í barnaskóla Reykjavíkur, ef dæma má eftir því, hvernig gengið hefur fyrir skóla að fá þak yfir höfuðið fram að þessu. Og ég býst við, að hv. borgarstjórinn hér muni, áður en hann er búinn að verða við óskum þessarar n. bara heima hjá sjálfum sér, komast að þeirri niðurstöðu, að betra hefði verið að svelta þetta fólk uppi við Hvítárvatn en láta það vera austur á Laugarvatni til að gera einhverja vitleysu. Og ef gera ætti meira grín að þessu fólki en búið er að gera, þá vonandi hrynja ekki þessi höfuðból, þó að þau séu látin leika sér að þessu eitt eða tvö ár.

Ég held, að það sé miklu heppilegri skoðun, sem kom fram annað veifið hjá hv. 6. þm. Reykv., að það eigi að reyna að uppfylla þarfir fólksins fremur en að vera að reyna að demba yfir það löggjöf, sem það ekki skilur. Ég mundi ekki vera með því að setja alla unglinga í Reykjavík á gagnfræðaskóla, þó að till. um það kæmi fram. Hvar væri húsnæði og kennarar til þess? En aftur á móti mundi ég vera mjög fýsandi þess, sem hv. 6. þm. Reykv. vék að, — og vil ég lofa honum því, ef ég verð á þingi, þegar hann kemur með óskir um það, að fylgja honum í því, ef þess er nokkur kostur, — að landið styrki húsmæðraskóla hér í Reykjavík. Hér er húsmæðraskóli, góður, en lítill og þarf að stækka mjög mikið. En það er ekki sannað, að það verði að öllu leyti gert með því af héraðsins hálfu, sem bærinn sem slíkur getur lagt til þess, vegna þess að fólkið er búið að sýna, að það kann að meta þetta. En hins vegar eru till. mþn. í skólamálum alveg eins og dottnar niður úr tunglinu, þar sem m. a. er ætlað að skylda Reykvíkinga, sem hafa á sjötta þúsund börn í skóla, til þess að láta þau fara öll í gagnfræðaskóla. Þess vegna held ég, að það væri velgerningur af þeim, sem eiga kunningja í þessari n., að draga hana ekki inn í umr., því að hún er búin að sýna, að hún hefði betur aldrei verið skipuð. Líklega verða Reykvíkingar og okkar ágæti borgarstjóri þar með talinn farnir að sjá grá hár á sínu höfði, löngu áður en búið er að reisa gagnfræðaskóla hér í Reykjavík, sem fullnægi þeirri skólaskyldu um gagnfræðanám, sem þessi n. hefur látið sig dreyma um. Það hygg ég, að taki nokkuð langan tíma.

Ef menn vilja vísa þessu máli, sem hér liggur fyrir, frá með rökst. dagskrá nú, þá þarf ekki að fara með það í neina launkofa, að það verður til þess að drepa þetta mál nú. En það mundi koma aftur, sennilega á næsta þingi. Hvort það væri betra eða ekki, skal ég ekki segja um. En þetta er eitt af þeim málum, sem stendur föstum fótum í hugum og tilfinningum fólksins. — Í Borgarfirði er kvenfólk um allar sveitir í Borgarfjarðar- og Mýrasýslu búið að safna stórfé til þess að koma þessum málum í framkvæmd hjá sér, ég held hundruðum þús. kr., ef með er talið það, sem borgfirzkir menn hér í Reykjavík hafa lagt fram til þessara mála. Ég fullyrði, að ef ekki hefði verið búið að gera þessa áætlun um, að koma ætti húsmæðraskóli í Borgarfirði, þá hefði sama sem engu verið búið til hans að safna af fé. Alveg á sama hátt er kvenfólk á Suðurlandi búið að safna saman tugum þúsunda í sama skyni fyrir sitt hérað. Í Skaftafellssýslu er búið að safna 10 þús. kr. í ekki ríkri sveit til húsmæðraskólabyggingar. Það er ekkert sambærilegt, hvað fólk leggur meira á sig í þessu skyni, þegar búið er að lögfesta skólastað fyrir húsmæðraskóla í sveitinni eða héraðinu heima hjá því, en á meðan slík lögfesting hefur ekki átt sér stað. Þegar búið er að ákveða staðina með l., þá leggur fólkið á sig miklar byrðar til þess að hrinda þessum málum áfram. Og þá er rétt stefnt. Það má segja, að það ýti á eftir um ríkissjóðsframlag, en um það fer eftir getu ríkissjóðs.

Til huggunar hv. þm. Dal. vil ég segja það, að fyrir nokkrum árum, þegar talsvert meiri kreppa var en nú, þá var í þrjú ár veitt fé úr ríkissjóði til tveggja skóla, gagnfræðaskólans í Flensborg og húsmæðraskólans á Laugarvatni, ég hygg, að það hafi verið frá 20 þús. kr. og upp í 35 þús. kr. á ári. En fjárhagur eða gjaldgeta landsins var ekki meiri en svo, að þm. eins og hv. þm. Dal. og ég treystum okkur ekki til að gera meira. En ég hygg, að á öllum árum muni menn gera slíkt.

En kosturinn við að samþykkja þetta frv. nú, sem hér liggur fyrir, er sá, að það knýr fram krafta, sem þurfa og eiga að njóta sín, en koma ekki fram á annan hátt, ef málið er ekki sett í þá umgerð, að sá áhugi komi fram, sem sprettur upp í hugum almennings.