07.03.1944
Efri deild: 23. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

27. mál, skipun læknishéraða

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. — Það virðist að vísu ekki mitt hlutverk að ræða hér um ástæður fyrir því, að þetta frv., sem er stjórnarfrv., er fram komið, en mér finnst nauðsynlegt að minnast rétt aðeins á tildrög málsins, vegna þess hvernig meðferð þess er háttað hjá hinu háa Alþ.

Ég þykist viss um, að þetta stjórnarfrv. sé fram komið af tveim aðalástæðum, vegna læknisskipunarmála og læknisbústaða í tveim byggðarlögum á landinu, á Fljótsdalshéraði og í Árnessýslu. Að því er snertir Héraðið, er ekki um neinar deilur að ræða hér, og get ég alveg leitt hjá mér þann lið málsins.

Um hitt atriðið, læknaskipunarmál á Eyrarbakka, stendur einkennilega líkt á og þar eystra. Umdæmið er nú orðið stærra en svo, að einn maður geti annað því — og það þótt á Eyrarbakka sé duglegur og ágætur læknir, sem búinn er að vera þar lengi. Hins vegar eru, eins og menn vita, aðalvegamótin í læknishéraðinu nú komin þar, sem Selfoss er, og hefur því meiri hl. hreppa í læknishéraðinu gert kröfu til að fá læknissetur þangað. Á það hafa heilbrigðismálastjórnin, landlæknir og forsrh. fallizt. Héraðsbúar almennt — og ekki sízt héraðslæknir — sækja það mjög fast, að málið fái greiða afgreiðslu, bæði vegna þess, að nauðsynlegt er að fá lækni þangað, sem umferðin er mest, og eins af hinu, að héraðið vantar bæði sjúkraskýli og læknisbústað. Þarna hefur ekkert brunnið, — hefur bara aldrei verið til, — og fyrir svo mannmargt hérað, með íbúatölu á 4. þús., er skortur á þessu mjög tilfinnanlegur, enda er málið fólkinu, sem við á að búa, svo ríkt í huga, að það hlerar með mikilli eftirvæntingu, hvað skeður hér á Alþ. Mundi það því valda miklum vonbrigðum, ef málið væri svæft hér nú, því að ætlunin er að hefjast handa um byggingar þegar í sumar.

Eitt atriði í þessu máli, sem valdið hefur miklum ágreiningi hér — og að mínu viti meiri en ástæða er til —, er það, hvort læknirinn á Eyrarbakka eigi að flytjast til Selfoss eða koma eigi tveir læknar í hérað. Í Nd. var samþ. till. um, að læknarnir yrðu tveir, svo að þegar rætt er um, að hörgull sé á læknum til að gegna embættum í hinum rýrari og strjálbýlli héruðum landsins, kemur það ekki til greina í sambandi við þetta mál, þar sem búið er að ákveða, að læknarnir verði tveir.

Annað ágreiningsatriði er það, hvort í héraðinu skuli vera einn héraðslæknir og aðstoðarlæknir hans eða embættið skuli klofið í tvö og einn læknir skipaður í hvort. Í þessu héraði er íbúatala, eins og ég sagði áðan, á 4. þús., og er það eindregin ósk íbúanna, að héraðinu verði skipt í tvennt, Selfosslæknishérað og Eyrarbakkalæknishérað. Ef það yrði samþ., væri hvort þeirra ekki fámennara en svo, að í Selfosslæknishéraði yrðu um 2000 íbúar, en um 1300 í hinu. Þeir, sem búa í námunda við Selfoss, hafa allan áhuga á að fá héraðslækni þangað, m.a. til þess að geta reist læknisbústað og sjúkraskýli. En hvort þeir hafa aðstoðarlækni eða sérstakan lækni á .Eyrarbakka, það er þeim áhugalaust. Aftur á móti er það svo á Eyrarbakka og Stokkseyri, að íbúarnir geta ekki sætt sig við að vera sviptir héraðslækninum. þótt ekki sé nema upp að Selfossi. Þessi kauptún, sem oft og einatt telja sig eitt kauptún, eru nú búin að hafa héraðslækni í nál. 50 ár, staðfast, og eiga því þennan rétt. — Fjöldi áskorunarbréfa viðvíkjandi þessu máli hefur borizt til hins háa Alþ. Rétt áðan barst mér t.d. eitt, sem ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp:

„Fundur, haldinn í Verkamannafélaginu Báran á Eyrarbakka þann 3. marz 1944, mótmælir framkomnu frv. á Alþ. um, að héraðslæknisbústaðurinn verði fluttur frá Eyrarbakka að Selfossi. — Hins vegar telur fundurinn eðlilegt og sjálfsagt, að Eyrarbakkalæknishéraði yrði skipt í tvennt. Öll rök hníga að því, að þorpin tvö, Eyrarbakki og Stokkseyri, hafi lækni, sem hafi búsetu hér, bæði vegna fjölmennis þorpanna og eins vegna sjávarútvegsins, sem rekinn er úr báðum þorpunum, sem eru við hina hafnlausu strönd og því mikil slysahætta við þann atvinnuveg. — Þess má og vænta, að eftir stríðið eins og fyrir það verði hér innflutningshöfn fyrir tvær sýslur, og allir, sem hér til þekkja, vita um slysahættu við uppskipun hér á Eyrarbakka. — Í þriðja lagi má segja það, að það mun alveg einsdæmi, að héraðslæknirinn sé fluttur úr mesta fjölmenninu yfir í fámennari stað. —Fundurinn væntir þess, að þm. Árnesinga vinni að því að fá héraðinu skipt í tvennt og fylgi því máli fram til sigurs.

Fyrir hönd Verkalýðsfélagsins Báran, Eyrarbakka.

Sigurjón Valdimarsson,

formaður.“

Ég veit, að hæstv. ríkisstj. hefur góðan og réttan skilning á þessu máli og að hún vill stuðla að því að fá annan lækni í héraðið. Ég er þakklátur fyrir, að sá vilji er fyrir hendi, en ég veit hins vegar, að þeir, sem við eiga að búa, gera sig ekki ánægða með að fá aðstoðarlækni, sem er eins konar hjú á vegum aðallæknisins. — Mér finnst óþarfi að tala um fjáreyðslu í sambandi við þetta, því að aðstoðarlæknirinn mundi fá sín laun úr ríkissjóði ekki síður en héraðslæknir, og mundu grunnlaun vera um 400 kr. á mánuði. Héraðslæknir fengi eitthvað lítils háttar meira að vísu, en það yrði aldrei stór munur.

Fyrir fáum missirum var rætt hér um að fækka prestaköllum í landinu. Ég man ekki, hvort n. voru starfandi í því. En það hljóðnaði niður fyrir ákveðnum vilja fólksins, sem mótmælti því, að prestum yrði, fækkað. Og hæstv. Alþ. virti þann vilja fólksins, sem laut að því, að það fengi að halda prestum sínum. — Nú kemur hér einnig fram vilji fjölda fólks um að fá læknishéraðaskipunina í þetta horf, sem nú er lagt til. Og þó að ég geri ekki lítið úr starfi prestanna, þá álít ég, þegar fólkið lætur í ljós ákveðnar óskir um skipun læknishéraða í þá átt, sem hér er um að ræða, að taka beri ekki síður tillit til þess en þegar um það var að ræða, hvort fækka ætti prestum. Ég álít, að þar þurfi að taka jafnt tillit til vilja fólksins og þarfanna, sem á bak við liggja.

Þegar um það er að ræða, hvort Eyrarbakki og Stokkseyri megi vera sérstakt læknishérað, má geta þess, að þarna í nánd eru tvö hæli, bæði hæli sekra manna og drykkjumannahælið í Kumbaravogi, þar sem lögmælt er, að skuli vera læknishjálp, og er þess vegna einnig eðlilegt, að læknir sé á Eyrarbakka engu síður en að hann sé þar ekki.

Ég vil alveg leiða hest minn hjá því að vera að tala um önnur atriði, sem komin eru inn í þetta mál. En ég vil leggja áherzlu á það, sem ég gat um fyrst, og ég hygg, að ég fari með rétt mál, þegar ég held því fram, að það sé einmitt þörfin á að bæta um læknaskipun í Eyrarbakkalæknishéraði, sem öðrum þræði hefur kvatt fram það stjfrv., sem hér er til umr. Ég veit, að landlæknir hefur orðið fyrir nokkru ámæli jafnvel vegna meðferðar þessa máls. Ég hef ekki verið á sama máli og hann, en um það er ekkert að fást. En hann hefur gagnvart almenningi í þessu héraði átt nokkuð örðugt. Það er oft erfitt fyrir hann — að sínu leyti eins og vegamálastjóra — að gera svo, að öllum líki.

Ég hefði nú sætt mig við það, þó að það hefði verið á móti vilja fólksins, að fylgja málinu þegjandi eftir hér í hv. d. eins og það kom frá hv. Nd., hefðu ekki sérstök atriði orðið að aflvaka til þeirrar sveiflu, sem meðferð þessa máls hefur nú tekið, með tilliti til brtt. við frv. En mér finnst óþolandi, ef sá réttmeiri á að víkja fyrir hinum réttminni. Og það er hlerað fast og ákveðið eftir því af því fólki, sem að þessu á að búa, hvernig hæstv. Alþ. afgreiðir þetta mál. Og ég vænti þess fastlega, að hv. þdm. líti á málsástæður eins og þeim er kunnugt um, að þær eru, og taki nokkurt tillit til vilja og þarfa fólksins um heilbrigðismálefnin, sem skipta meiru en flest annað, þegar veikindi og slys ber að höndum.

Ég skal svo láta máli mínu lokið og treysti því, að brtt. mín, sem hér liggur fyrir til umr., nái samþykki hv. d.