13.12.1944
Neðri deild: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í C-deild Alþingistíðinda. (2756)

129. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Jón Pálmason):

Í framsöguræðu minni gerði ég í aðalatriðum grein fyrir afstöðu landbn, til þessa máls og þeim ágreiningi, sem þar hefur verið um það, hvernig framkvæmdin skyldi vera. Út af þeim ræðum, sem hér hafa verið fluttar, þarf ég ekki að segja mjög margt, en ég vildi þó víkja að örfáum atriðum.

Frsm. minni hl., sem er formaður landbn., hv. þm. Mýr., fór, eins og menn hafa heyrt, mjög hóflega í sakirnar að því leyti, að hann virtist ekki leggja mjög mikið upp úr því, hvor þessara leiða yrði farin, þótt hann óskaði fremur, að frv. yrði samþ. óbreytt eða því sem næst. Hv. þm. Mýr. taldi, að það ætti annaðhvort að gera að hækka styrkinn, eins og lagt er til í frv., eða þá að ríkið annaðist sjálft framkvæmdirnar, en ekki að séð væri um það af Búnaðarfélaginu og ríkisvaldinu. Nú er það svo, að það er alls ekki aðalatriðið að fá okkar hóla sem flesta burtu, hvort sem þetta verður 200 kr. dýrara eða ódýrara á ha. eftir því hvor leiðin verður farin, heldur miklu fremur hitt, að með okkar till. álít ég, að það sé miklu tryggara, að það sé framkvæmt á þann hátt, að það komi að gagni, og það, sem sérstaklega gerir það að verkum, er, að við erum sannfærðir um það, að ef sú leið yrði farin, þá verði ómögulegt að komast fram hjá því að rannsaka aðstöðuna á hverri einustu jörð á landinu, en ef aðeins ætti að hækka styrkinn eins og gert er ráð fyrir í frv., þá er hægt að halda áfram á sömu braut og undanfarið, borga styrki á land, sem rifið hefur verið niður og er framræst til hálfs og gefur ekki nema hálfa uppskeru, miðað við það, sem hægt er að fá af fullræktuðu landi, og má í því sambandi benda á þær skýrslur, sem hæstv. landbrh. lýsti hér, að nú væri meðaltöðufengur af ha ekki nema 30 hestburðir, eða 10 hestburðir af dagsláttu. Við álítum, að með till. okkar verði ekki hægt að komast hjá því að koma þessu starfi í fullkomið kerfi á þann hátt, að það verði framkvæmt með eins heppilegum aðferðum og kostur er á, og eftir því sem verkfæri fást fullkomnust til.

Hv. þm. Mýr. sagði, að hann gæti sætt sig við það að fella inn í okkar till., ef hann fengi fyrir því tryggingu fyrir fram, að þær væru líklegri til þess að ná framgangi í þinginu en frv. sjálft. Út af þessu vil ég taka það fram, sem ég reyndar gerði í landbn., að við, sem flytjum þessar till., höfum ekki neina flokkssamþykkt á bak við okkur um þetta mál, og þetta er það mikið stórmál, að ég álít, að á þessu stigi þess sé ekki hægt að ætlast til slíkrar tryggingar. Við flytjum þessar brtt. sem okkar sannfæringarmál og álítum, að þetta sé rétta leiðin.

Nú hafa menn og heyrt álit hæstv. landbrh., að hann telur aðgengilegri þá leið, sem okkar brtt. fjalla um. Við munum, flm. brtt., reyna að beita okkur fyrir því, að okkar till. nái samþykki.

Þá tel ég, að ég hafi, að svo miklu leyti sem ég get á þessu stigi málsins, svarað þeirri óbeinu fyrirspurn hv. þm., og að öðru leyti skal ég ekki fara langt út í að tala um þann ágreining, sem frá hans hálfu kom fram, en ég verð þó að víkja aðeins að tveim atriðum enn. Annað er það, sem hann tók fram, að það gæti átt sér stað, að tvenns konar ræktun yrði framkvæmd á sömu jörðinni, annars vegar túnasléttur með styrk og hins vegar ræktun, sem ríkið kostaði framræslu og vinnslu á. Það er alveg rétt, og það er atriði, sem þarf að setja nákvæm ákvæði um í þá reglugerð, sem samkvæmt okkar till. er ætlazt til, að sett verði til þess að ákveða nákvæmlega, hvernig þetta skuli allt framkvæmt. Og ég held, að hægt sé að koma þeim ákvæðum þannig fyrir, að þetta þurfi ekki að rekast á. — Hins vegar má svo líka bæta því við, að það eru auðvitað mjög margir menn í landinu, sem hafa náð því takmarki að hafa 600 hesta véltækt land, en mundu vilja rækta meir hjá sér, og ættu þeir að geta fengið vélarnar til vinnslu hjá sér þegar þær eru á ferðinni.

Viðvíkjandi 17. grein skal það aðeins sagt, að það er búið að ganga svo í mörg ár, að það er alltaf verið að flækja þessu máli á milli sín, og þeir, sem ekki vilja breyt. á því, bera alltaf fyrir sig búnaðarþingið, að það sé ekki búið að taka sína afstöðu, og nú er það milliþn. búnaðarþings, sem á eftir að láta álit sitt í ljós. Slíkar afsakanir eru varla frambærilegar fyrir aðra en þá, sem hafa enga sannfæringu í þessu máli sjálfir.

Í tilefni af ræðu hæstv. ráðh. vil ég segja það, en ég ætla ekki að fara ia í það að ræða þá galla, sem hann talaði um viðvíkjandi útreikningi á þeim kostnaði, sem hér um ræðir, að öðru leyti en því, sem snýr að heildarupphæðinni, að sannleikurinn er sá, að þótt það sé mikið rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að þetta mál væri allt of lítið undirbúið, þá er hins vegar þess að gæta, að málið er þannig vaxið, að það er ómögulegt að undirbúa það, áður en löggjöf er sett, svo fullnægjandi sé. Það er ómögulegt að fá um það fulla vissu áður en l. eru sett, hve mikið þetta mundi kosta, og ekki einu sinni það, hvað það er mikið, sem þarf að rækta, vegna þess að til þess að sá undirbúningur liggi fyrir þarf að mæla upp mikið af landi á öllum jörðum í landinu, og það eru þær undirbúningsráðstafanir, sem ég vil ekki geyma löggjöfina eftir, en um leið og svona löggjöf er sett er það afar nauðsynlegt, að þessum undirbúningi verði hraðað, og mundi jafnframt slík löggjöf ýta mjög á eftir því að útvega sem fullkomnastar vélar til þessa starfs. Hins vegar er það svo, eins og hæstv. ráðh. tók fram, að skiptir í sjálfu sér ekki svo miklu kostnaðurinn, hvort þetta frv. gengur fram nú á þessu þingi, sem er senn lokið, eða það gengur fram á næsta þingi seinna í vetur eða á næsta ári, því að þótt það yrði ekki samþ. fyrr, þá mætti byrja engu að síður á þeim undirbúningi, sem er mjög mikið verk, að annast mælingar o. s. frv. En ég vil leggja áherzlu á það, að það verður að skera úr um það, hvort verður gengið inn á þá braut að samþ. frv. eins og það liggur fyrir eða með brtt.

Þótt sú ágizkun eða áætlun standist, sem kom fram í ræðu hæstv. ráðh., að kostnaðurinn mundi verða um 35 millj. kr., sem ég hygg, að sé nú kannske það lægsta, sem hægt er að miða við, ef maður gengur út frá ræktunarkostnaði eins og hann er nú, þá er það að athuga, að allt að því helmingur kostnaðarins í heild yrði borgaður samkvæmt jarðræktarl. eins og nú, svo að hækkunin, sem um er að ræða, er helmingi hærri en það, sem umfram kann að vera samkvæmt okkar till. Auk þess er þess að geta, að með þeirri aðferð, sem við ætlumst til samkvæmt okkar till., er það víst, að það verða mjög margar jarðir, sem alveg verður gengið frá, vegna þess að þær hafa ekki skilyrði til þess að framkvæma þetta á þeim, sem til er ætlazt. Hitt gæti þó verið, að þær kæmu undir ákvæði, sem eru í frv., sem þyrfti þá að kosta helmingi hærri jarðræktarstyrk til, og þá er það sú stóra spurning, — hvar á að taka þetta fé? Það er ákaflega skiljanlegt, að hver og einn og þá ekki sízt hæstv. ráðh., sem annast hag ríkissjóðs, hugsi slíkt með sér, og þetta er spurning, sem menn verða eðlilega að velta fyrir sér. En ég vil nú taka svo djúpt í árinni, að ég tel, að hér sé um svo þýðingarmikla framkvæmd að ræða og beinlínis grundvöll fyrir því, að þessi okkar annar aðalatvinnuvegur geti þrifizt, en hann getur það áreiðanlega ekki til langframa, ef landið cr þýft og óræktað, og þær mundu gefa svo góðan arð á komandi árum, að það mundi borga sig, þótt við þyrftum að taka allt fé til þeirra að láni og ríkissjóður yrði að borga af því vextí og afborganir á hverju árabili. Nú er líka þess að gæta, að í okkar till. er ekkert um það, á hve löngum tíma eða stuttum þetta skuli framkvæmt. En náttúrlega ætlumst við til þess, að þetta sé framkvæmt á eins stuttum tíma og mögulegt er. Og það fer mjög eftir því, hvernig skipulagið er og hvernig undirbúningnum miðar áfram og hve vel er unnið að því að útvega vélar til vinnslu.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleirí orðum, en ég er alveg sannfærður um það, að það er réttari leiðin til þess að ná takmarkinu og árangrinum sem fyllstum að samþ. okkar till. Og það, sem gerir það að verkum, að ég stakk upp á þessu í landbn., var sú reynsla, sem ég er búinn að fá, ekki einungis í mínu héraði, heldur víðsvegar um landið, þar sem ég þekki til. Og þrátt fyrir þennan háa styrk, sem við verðum að greiða og er nokkuð hár, þá hefur hann ekki verið eins hér nú síðustu árin, vegna þess að ekki hefur verið hægt að vinna að jarðyrkju. En það er ekki vilji manna, sem strandar á, heldur skortur á vinnukrafti í sveitunum, sem veldur því, og það er alls ekki hægt að framkvæma hin nauðsynlegustu verk nema með aðfengnum vinnukrafti, og þess vegna verðum við að geta treyst á vélar. Og um leið og væri farið inn á þá braut að láta ríkið kosta þetta stóra átak að eins miklu leyti eins og hér er farið fram á, þá verður ekki fram hjá því komizt, að það verði einhver stofnun, sem ríkið sér um, sem annast um vélavinnu og það, sem henni er samfara, flutning vélanna, geymslu þeirra og margt fleira. Þetta þarf allt að skipuleggja á sem hagkvæmastan hátt og menn geti snúið sér til sérstakrar stofnunar þessu viðvíkjandi.