13.12.1944
Neðri deild: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í C-deild Alþingistíðinda. (2759)

129. mál, jarðræktarlög

Pétur Ottesen:

Ég vil aðeins segja örfá orð í sambandi við þetta mál og þá sérstaklega um þá brtt., sem hér er fram komin á þskj. 630 frá tveimur nm., hv. þm. A-Húnv. og hv. 1. landsk.

Ég verð að taka undir það með hv. þm. Mýr., að ég sé ekki, að þessi brtt. hafi neina kosti fram yfir það, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., þar sem byggt er á jarðræktarl., sem gilt hafa síðan 1923, þar sem gert er ráð fyrir, að styrkur verði veittur til þessara framkvæmda eftir þeim reglum, sem settar eru um slíkar styrkveitingar. Mér finnst munurinn eingöngu sá, að eftir þessum brtt. á ríkið að vinna vissan hluta af þessum framkvæmdum í stað þess að ríkið leggur nú fram ákveðna upphæð til heildarframkvæmdarinnar, en það er ekki nema hluti af verkinu að brjóta landið og ræsa fram. Eftir er þá að græða landið og gera það arðbært með þeim hætti. Ég sé ekki, hvað í því felst að kljúfa þetta í tvennt, það, sem bændur eiga sjálfir að gera, og það, sem ríkið á að framkvæma. Ég get ekki séð, að því fylgi neinn kostur, en setur aftur á móti leiðinlegan blæ á þennan stuðning ríkisins, a. m. k. verkar það þannig á mig. Ég verð að segja, að eftir að farið væri að veita styrkinn í þessu formi, þá finnst mér erfiðari sókn sú, sem yfir hefur staðið lengi um að nema úr l. þá kvöð, sem lögð er á þá, sem njóta þessa stuðnings, og felst í 17. gr. jarðræktarl., þegar er beinlínis komið inn í þessi ákvæði, að ríkið eigi að standa fyrir að vinna vissan hluta af þessum framkvæmdum. Ég sé sem sagt ekki, að þetta sé neinn kostur, og ég skil ekki þau rök hæstv. ráðh., að hann vilji. frekar hallast að þessu fyrirkomulagi en því, sem gilt hefur í þessu efni um áratugi og hefur orðið til að hrinda mjög áfram ræktunarframkvæmdum í þessu landi og er vafalaust mjög ríkur þáttur í, að landbúnaðurinn hefur ekki þurft að gefast upp í þeirri hörðu samkeppni, sem hefur átt sér stað, sérstaklega á síðustu árum. Þess vegna finnst mér, að þetta hafi enga kosti fram yfir það, sem lagt er til í frv., en sé hins vegar mjög óviðkunnanlegt frá sjónarmiði þess hugsunarháttar, sem íslenzkir bændur ala með sér. Ég get ekki heldur séð, að þetta verði til að ýta á neinn hátt undir framkvæmdir, því að eftir því sem fram kom hjá hv. þm. Mýr. og einnig í framsöguræðu hv. þm. A-Húnv., þá eru það eftir sem áður bændurnir, sem eiga að hafa þessar framkvæmdir, það er engin breyting á því, frá því sem verið hefur. Þeir eiga að gera framkvæmdirnar, þó að það heiti svo, að ríkið geri þetta. Ég held líka, að þetta gefi ekkert aukið öryggi fyrir því, að þessar framkvæmdir séu ekki gerðar á þeim jörðum, sem síðar meir væri hætt við að fara í eyði. Það er að vísu tekið fram í 1. lið þessarar till., að það skilyrði sé sett fyrir styrkveitingunni, að jörðin verði að hafa framleiðsluskilyrði og annað þess háttar, en í jarðræktarl. er sá varnagli sleginn, að ríkið sé ekki að leggja stórfé í jarðir, sem hætta vofir yfir af náttúrunnar völdum, sem geti gert það að verkum, að ekki verði búandi á jörðinni.

Um það, að framkvæmdirnar verði stórtækari með þessum hætti, þá sé ég ekki heldur neinn möguleika til þess, því að við vitum, að allar slíkar framkvæmdir eru ýmsum takmörkunum háðar. Jarðvinnslan ein er ekki nóg, það verður líka að vera áburður fyrir hendi í þessa nýrækt, en við þekkjum það, sem höfum fengizt við búskap og höfum staðið í allstórtækum jarðræktarframkvæmdum, hvað það er mikill hemill á slíkar framkvæmdir, þegar áburð skortir. Og þó að ýmsir hafi notað útlendan áburð í brotið land, þá er það ekki jafnraunhæf framkvæmd eins og að nota húsdýraáburð í flögin. Það eru því ýmsir erfiðleikar á þessum framkvæmdum, sem þarf ekki að lýsa.

Það má taka fram, að þessar framkvæmdir eru í nánu sambandi við og í raun og veru einn þáttur af öðru frv., þar sem gert er ráð fyrir, að stofnaður sé félagsskapur um ræktunarframkvæmdir, og sennilega verður meginið af þeim framkvæmdum, sem kynnu að njóta styrks samkvæmt þessum á kvæðum, framkvæmt á þeim grundvelli, sem lagður er í því frv., að koma ræktunarframkvæmdunum í það horf, að með þeim skapist betri aðstaða til að koma við vélavinnu en nú er. Það þarf því ekki að taka neitt slíkt upp í þetta frv., af því að það er hugsað sem liður í framkvæmdum í þessu máli, sem lagður er grundvöllur að í því frv., sem væntanlega verður að l. á þessu þingi.

Við, sem stöndum að flutningi þessa frv., töldum af þessum sökum enga ástæðu til að taka neitt slíkt inn í þetta frv., af því að eins og tekið er fram í grg. frv., er þetta mál eingöngu um stuðning af hálfu ríkisins við þær væntanlegu jarðræktarframkvæmdir, sem gerðar verða með þeim hætti, sem ráð er fyrir gert í þessu frv., sem nú er komið til Ed.

Ég vil aðeins taka þetta fram, að ég kann miklu verr við blæinn, sem settur er á styrkinn með því orðalagi, sem felst í brtt., heldur en er hjá okkur, því að við byggjum á þeim grundvelli, sem lagður er í jarðræktarl. um þetta efni og við höfum búið við um langt árabil. Þetta er mín skoðun, og ég vil láta hana koma fram, áður en gengið er til atkv. um þessar brtt. Ég býst við, að það sé svipaður stuðningur, sem fram kemur af hálfu ríkisins til jarðræktarinnar, hvor þessi leið sem farin er, þegar tekið er tillit til þeirra takmarkana, sem eru á því, að hægt sé að framkvæma í mjög stórum stíl hjá hverjum bónda, eins og ég hef áður minnzt á, og mér skildist einnig á hæstv. fjmrh., að hann gerði ekki mikinn mun á styrknum, hvort sem farið yrði eftir ákvæðum brtt. eða eftir ákvæðum frv. Ég verð að segja, að þótt svo kynni að vera, að eitthvað meiri stuðningur kynni að fást samkvæmt brtt., þá vil ég ekki vinna það til og skapa þar með þann stimpil, sem settur er með þessum brtt. á þessar fjárveitingar til landbúnaðarins, ég vildi ekki skapa hann fyrir þann mismun, ef hann kynni þá að vera nokkur. Þetta er nú mín skoðun, og ég hygg, að það séu fleiri bændur, sem líta þannig á þetta. Það má segja, að þetta sé ekki nema orðhengilsháttur, en það er svona, að menn eru dálítið viðkvæmir líka fyrir þeim ytri formum, sem eru á hlutunum, og því er ekki vert að vera gersamlega að óþörfu að leggja neinar slíkar snörur fyrir menn.

Ég held líka, að það ákvæði, að viðkomandi búnaðarfélag eigi að taka á sig nokkurs konar ábyrgð á því, að hlutaðeigandi bóndi komi landinu í ræktun innan ákveðins tíma, svo að tilgangi frv. verði náð, þá beri þar að sama brunni, að markið er sett þar, en það eru svo ýmsar takmarkanir á þessu, svo að ég býst við, að sú ábyrgð, sem hér er um að ræða og gert er ráð fyrir í þessum till., sé nokkuð hæpin og vafasamt, að hún verði nokkurn tíma raunhæf í þessu efni. Nú ber ekki svo að skilja, að ég ali ekki þá von í brjósti, að þessu marki verði náð, sem hér er sett, að hægt sé að koma hver ju býli á landinu í það ástand, að þar sé hægt að heyja 600 hesta á véltæku landi. En það verður að líta á þær kringumstæður, sem við nú búum við, og ekki gera sér neinar gyllivonir. Við getum gert okkur vonir um, að allt breytist til batnaðar með aukinni tækni. En það er ýmislegt annað við þessar framkvæmdir, sem gerir það að verkum, að þeim hljóta að verða nokkur takmörk sett.

Mér skilst á hæstv. fjmrh., hvernig sem á því stendur, að þessu máli verði síðar vísað til stj. til frekari undirbúnings. Það má segja, að þá sé sama, hvort þessar brtt. eru samþ. eða frv. látið fara til 3. umr. í því formi, sem það er flutt, ef það eru forlög þess á þessu þingi, að því verði vísað frá eða til stjórnarinnar.