07.03.1944
Efri deild: 23. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

27. mál, skipun læknishéraða

Frsm. meiri hl. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. — Ég get orðið fáorður um sjálft efni málsins, það frv., sem hér liggur fyrir, vegna þess, að tveir hv. síðustu ræðumenn hafa í aðalatriðum mælt með frv., bæði hv. 2. þm. Árn. og hv. þm. S-Þ. Mér skildist aðeins, að það væri eitt atriði af mörgum í frv., sem sé um læknissetur í Grindavík, sem hv. þm. S.-Þ. væri ekki ánægður með, en að öðru leyti væri hann hlynntur frv.

En varðandi fyrirspurn hans, hverja afstöðu ég hefði til skipunar læknamálanna yfirleitt, þá get ég auðvitað, eins og ég veit, að hann getur skilið, ekki svarað því enn til neinnar hlítar né tekið til fulls afstöðu til þess einstaka atriðis, sem hann minntist nú á. En ég tel, eins og frv. liggur nú fyrir, að með því að samþ. það sé unnið að því að greiða fyrir, að héraðslæknar úti á landi fái eðlilega framavon, því að þá séu fleiri embætti, sem hægt sé að veita mönnum, eftir að þeir háfa verið í hinum erfiðu og afskekktu héruðum. Hitt tek ég svo fyllilega undir, að ég lít svo á, að rétt sé að fara lengra á þeirri braut, sem þegar mun hafa verið lögfest, að skylda megi — og ég vil segja skylda eigi alla þá, sem hér fá lækningaleyfi, að gegna störfum tiltekinn tíma úti á landi. Ég hef ekki athugað þetta sjálfur, en ég hygg, að þessi sex mánaða bið læknanema til þess að gegna lækningastörfum úti á landi sé lítið komin til framkvæmda. En mér sýnist rétt, að heilbrigðisstjórnin hafi um það forgöngu, að bæði yrði þessi tími lengdur og eins yrðu gerðar ráðstafanir til þess, að þessi skylda tæki til yngri lækna almennt, þeirra sem ekki eru búnir að koma sér fyrir þannig, að það væri allt of mikil truflun á lífsferli þeirra að skylda þá til þess að vera í héruðum úti um landið. En eftir að ríkið hefur kostað kennslu lækna 6–7 ár handa hverjum lækni, þá sýnist það hið minnsta endurgjald, að þessir menn fáist gegn góðu lífsuppeldi til þess að gegna lífsnauðsynlegum störfum fyrir þjóðfélagið. Og það er vafalaust einnig rétt, sem hv. þm. S.-Þ. sagði, að það megi að vissu leyti líta þannig á, að uppeldi lækna sé ekki til hlítar lokið, fyrr en þeir hafa gegnt störfum við venjuleg íslenzk skilyrði, þau skilyrði, sem mikill hluti landsfólksins á við að búa.

En varðandi málið sjálft, eins og það liggur fyrir, þá gat ég nú um það í gær, að hér hefðu borizt ýmsar áskoranir til Alþ. frá réttum aðilum um það, að þeir nytu lækna eins og í frv. er ráðgert. — Hv. 2. þm. Árn. (EE) gerði grein fyrir því, að sér hefði borizt ný áskorun frá Eyrarbakka. Ég hef í höndum skeyti, sem birtir áskorun hreppsfundar á Arnarstapa og hljóðar svo„ með leyfi hæstv. forseta:

„Almennur hreppsfundur, sem haldinn var á Arnarstapa, Snæfellsnesi, 5. þ.m., skorar eindregið á Alþingi að samþ. frv. Gunnars Thoroddsens um nýtt læknishérað að sunnanverðu Snæfellsnesi. Með núverandi fyrirkomulagi er oft ókleift að ná lækni, þar sem er fjallveg að fara. Ein læknisferð hefur kostað 3–400 kr. — Oddvitinn.“ Annað skeyti er frá oddvita Staðarsveitar, þar sem hann kveður sér vera kunnugt um eindreginn vilja þar í sveit með stofnun umrædds læknishéraðs.

Mér skildist á hv. 3. landsk., að það væri ekki mikið að marka slíkar yfirlýsingar, enda mundu það vera framsóknarmenn, sem stæðu að þeim og hugsuðu meir um annað en bjarga með þessu mannslífum. Það kann að vera, að hann hafi ekki meira álit en þetta á andstæðingaflokki sínum. En menn eru þeir sem aðrir og hafa hug á að njóta heilsu og lífs ekkert síður en við, svo að orð þeirra um það ætti að vera að marka, hvaða álit sem þm. kann að hafa á þeim að öðru leyti.

Röksemdir hæstv. forsrh. og hv. 3. landsk. fyrir því að gerbreyta frv. fyrst og fremst í því skyni, að það nái þá heldur fram að ganga í þinginu, virtust mér ærið undarlegar. Það er óvænlegt, eftir að Nd. hefur afgreitt málið, svo breytt sem henni líkaði, til Ed., að senda það aftur til Nd. gersamlega ummyndað og ætla henni að afgreiða það þannig í skyndi. Það er ákaflega hætt við, að þá væri úti um frv. Ég sé ekki betur en þeir séu með þessu að brugga því banaráð.

Ég verð einnig að láta í ljós undrun mína yfir ræðuhöldum hæstv. ráðh. og hv. 3. landsk. Hinn síðarnefndi hefur haft þá aðferð, sem ýmsir honum ótignari tíðka, þegar honum finnst ég tala ótilhlýðilega um landlækni, að snúa þeim orðum öllum upp á mig, ég muni vera því líkastur sem ég telji landlækni vera. Virðist mér þessi aðferð líkust því, sem sérstök tegund stráka viðhefur, þegar þeim þykir illa til sín talað, og svara þá því einu: „Éttu hann sjálfur“ — eða „Sjálfur ertu dóni“ — eða því um líkt. Það getur vel verið, að ég eigi þá eiginleika, sem embættisbréf landlæknis ber vitni um, að hann hafi. En eiginleikar mínir koma ekki máli víð, eiginleikar landlæknis ekki beinlínis heldur, aðeins að hann skuli láta þá koma svona fram í embættisbréfi til n. á Alþingi. Fram hjá því kemst þm. ekki með neinum útúrdúrum, fremur en ég gæti stutt mitt mál með því að ræða um alkunna hógværð hans og raddfegurð. Ég óskaði skýringar hæstv. forsrh. á því, hvernig stæði á mótsögnunum í grg. landlæknis, og sýndi með óyggjandi tilvitnunum og upplestri, hve gagnstæðar yfirlýsingar þarna væru. Hæstv. ráðh. svaraði með því að segja, að hann mundi sjá um, að landlæknir fengi vitneskju um, hvað hér hefði gerzt, og ögraði mér með málssókn, ég veit ekki hvort heldur einkamáls- eða sakamálsákæru. Það er náttúrlega þægilegt að skjóta sér undan svörum með hótunum um málshöfðun, ef fundið er að framferði slíku sem landlæknis. Sú þinghelgi, sem hæstv. forsrh. minntist á, er að nokkru leyti sett af þeim ástæðum, að nauðsynlegt þótti að veita löggjöfunum rétt til að gagnrýna athafnir embættismanna og annað slíkt án ótta við málshöfðun fyrir gagnrýnina, jafnvel þótt ekki væri beinlínis hægt að sanna á embættismanninn nein embættisafglöp. Nú hef ég sannað og hæstv. ráðh. ekki mótmælt, að meira en lítið er bogið við hin umræddu skrif landlæknis. Ég álít, að ekki stafi það af heimsku, því að landlæknir er viðurkenndur gáfumaður á sinn hátt á mörgum sviðum og mjög vei ritfær. Því meir undrar mann að sjá frá hendi hans svo gagnstæðar yfirlýsingar, og það er ekkert léttúðarmál, þótt einungis væri litið á viðhorf hans til málsins, sem fyrir liggur. Hann er embættismaður, sem vill láta taka tillit til sín og er tekið tillit til, a.m.k. mætti ætla það eftir gáfnafari hans, að svo yrði gert. Mér hefði fundizt embættisheiðri bæði hans og hæstv. forsrh. betur borgið með því að skýra, hvernig stendur á mótsögnunum, sem ég benti á, heldur en þó að mér sé ógnað með tugthúsdyrunum. Ég tel, að hæstv. ráðh. hafi mjög misfarið bæði með virðing sína og þá háttprýði, sem honum er lagin, með þeim hótunum, sem hann bar hér fram í gær.

Hitt kann að vera, að ég hafi farið ómjúkari orðum um landlækni en þurfti, því að oft nægir að segja hið sama með mildum orðum, sem í hörðu orðunum var fólgið. En ekki breytir það, hvernig orð mín féllu, aðalatriði málsins, og ekki voru þau orð ósæmilegri en svo, að forseti þessarar deildar, sem er fyllilega maður til að gæta hennar virðingar, sá ekki ástæðu til að víta mig, og ég held það sitji ekki á hæstv. ráðh., sem er hér utanþingsmaður, að fara að hóta þm. málssókn, ef þeir hafi sig ekki hæga. Hitt er annað mál, hvort bréf landlæknis gefi ekki tilefni til að verja Alþ. og þm. gegn ósæmilegu aðkasti og sleggjudómum.

Ef ég má, með leyfi hæstv. forseta, nefna nokkur atriði, eitt úr grg. landlæknis í upphaflega frv., því næst glefsur úr bréfi landlæknis til n., sem er prentað í nál. á þskj. 146, mun verða ljósara, hvað ég á við. Þar segir: „Þorpin tvö.... mæla hins vegar gegn henni (færslu læknis að Selfossi), Eyrbekkingar með gildum rökum að því er sjálfa þá snertir, því að þeir mundu óneitanlega missa mikils í, en Stokkseyringar virðast engan veginn hafa jafnmikið til síns máls. Mæla kunnugir, að á læknissókn Stokkseyringa til Eyrarbakka annars vegar og að Selfossi hins vegar sé bita munur, en ekki fjár.“

Þarna varðar landlækni ekki um, hvað Stokkseyringum finnst, hann veit sjálfur miklu betur, að þeim er ekkert verra að hafa lækninn fjær sér, á Selfossi, og þar vitnar hann í einhverja kunnuga menn. Hv. 3. landsk. var að tala um, að hann þyrði að bera saman staðþekkingu mína og landlæknis. Eflaust er staðþekking landlæknis meiri. En ég var að bera saman staðþekking hans og mannanna, sem á staðnum búa, og þar hallar fremur á landlækni, að ég hygg. Hér hefur verið gert mikið úr vanþekking Nd. á staðháttum Suðurnesja, þar sem Hafnamönnum hafi verið ætlað að fara gegnum Keflavík til að sækja lækni sinn í Grindavík. Nú er Eyrarbakki mun nær því að vera á leið Stokkseyringa að Selfossi en Keflavík því að vera á leið Hafnamanna til Grindavíkur, svo að ekki ferst hér öllum að tala um vanþekking Nd., hvað þá meta að engu till. Stokkseyringa sjálfra um það, sem þeir mega gerst um vita.

Þá segir á þskj. 146: „Á síðasta Alþingi lá við því slysi, að flaustrað yrði af stofnun nýs læknishéraðs úr þessum 5 hreppum, og leifði ekki af, að heilbrigðisstjórnin fengi því framgengt, að málinu yrði frestað í nokkra mánuði því til frekara undirbúnings, sem síðan leiddi til þessarar niðurstöðu ... fæ ég ekki nógsamlega varað við því óráði að rjúka nú í að stofna hér læknishérað ... Að minnsta kosti er ekki ástæða til að hrapa að slíku eftir það, sem á undan er gengið, og er furðuleg lítilsvirðing sýnd oddvitum á Snæfellsnesi að gera þá hispurslaust ómynduga talsmenn byggðarlaga sinna á sama tíma sem oddvitar austan fjalls og hvar annars staðar eru í engu véfengdir um samsvarandi efni.“

Ég hef getið skeyta, sem ég hef í höndum frá tveim þessara oddvita og sýna eindregið fylgi við málið. Þar með er sýnt, að fylgismenn málsins eru ekki sekir um það, sem landlæknir telur hræðilegra en flest annað, að hafa þar gagnstæða skoðun við oddvita eða gera þá „ómynduga talsmenn byggðarlaga sinna.“ Hitt er lítið að marka, þó að háttsettur embættismaður með greind og dugnað landlæknis hafi um sinn getað hrætt nokkra menn frá því að halda fram vilja sveitunga sinna.

Hv. 3. landsk. taldi, að ég hefði lýst landlækni sem væri hann slunginn misindismaður. Ef hv. þm. hefur í huga slíka lýsingu á þessum vini sínum, hefur hann ekki fengið hana frá mér. Hitt leyfði ég mér að tala um, embættishroka landlæknis. Sú tilfinning, sem lýsir sér úr hverri línu þessa bréfs landlæknis og lýsti sér í hótun hæstv. forsrh. í gær, var sú, að þeir einir hafi vit á málinu, og það kalla ég embættishroka. Landlæknir, sem að ýmsu leyti er góður og gegn embættismaður, leyfir sér slík ummæli, að það væri vanræksla af þm., sem hafa séð þau, að láta þeim ómótmælt. Á ég hér ekki aðeins við yfirlýsingar, sem stangast, heldur tón bréfs hans og aðferð alla og það, á hvern hátt hann leyfir sér að tala um Alþingi og til Alþingis. Hann segir enn fremur í bréfinu til n.:

„En ég er sannfærður um, að það er hættulegt þróun læknamála á báðum stöðunum að leysa vandann á þennan hátt, og læt ég í því sambandi liggja á milli hluta hina fráleitu skiptingu héraðs á Reykjanesi, sem stungið er upp á af þeim, sem ekki mun hafa átt þess nægan kost að kynnast staðháttum á nesinu.“ — Þessi till. er raunar komin frá héraðsbúum sjálfum, en hér á Alþ. flutt af þm. kjördæmisins, hv. þm. G.-K., og mun í ummælum landlæknis felast gamall brandari eftir Guðbrand Jónsson, dr. og prófessor, um þm. G.-K. og hefur notið nýskapaður allrar snilli þess snjalla mann, en lánast landlækni illa. Þessa skipting kallar landlæknir „glapræði“, sem rokið sé til að gera og „sundra“ og sé „slík sundrung óafsakanleg“. Þennan dóm fellir hann, ekki í blaðagrein eða þingræðu, heldur í embættisbréfi um það, sem Nd. hefur samþ. Og þetta þokkalega embættisbréf heldur svo áfram:

„Ég leyfi mér að dirfast að vona, að hv. n. geti fallizt á, að meðan svo illa gengur sem raun er á að skipa þessi héruð, sem kalla má, að eigi líf sitt undir því að fá lækni, sé ekki á þá erfiðleika bætandi með því að gera meiri eða minni leik að því að fjölga fámennum héruðum til að keppa um þá örfáu lækna, er gera þess nokkurn kost, að rætt sé við þá um að taka slík héruð að sér ... Að ég ekki tali um það banatilræði við hin fámennu og afskekktu héruð, ef sá háttur yrði upp tekinn að raða upp smáhéruðum í þéttbýlinu á næstu grösum við Reykjavík.“ Hér er að vísu talað um banatilræði við héruð, en ekki menn, en hugsun þó svipuð bak við, enda er berum orðum sagt, að hv. Nd. geri sér leik að því að auka á erfiðleika þá, sem þeim, er líf sitt eiga undir að ná til læknis, geri það.

Það er ekki furða, þótt þessi embættismaður þurfi að biðja um sérstakt leyfi til þess að mega nefna „heiður“ Alþingis, hrópi um, að nú ríði á „að gæta guðs, samvizku sinnar og — með leyfi heiðurs Alþingis og afstýra slíkum voða“. Áður en hann leyfir sér að minnast á svo fágætan eða vafasaman hlut, hlut, sem sé e.t.v. ekki til nema í ímyndun sumra þm., heiður Alþingis, biðst hann afsökunar á að gera það.

Þetta bréf lýsir sér sjálft. En ég hefði haldið réttlætistilfinning og skörungsskap hæstv. forsrh. meiri en svo, að hann vildi gera orð og anda þess að sínum með því að taka upp vörnina fyrir það. Ég hefði haldið, að hæstv. forsrh. hefði meiri virðingu og hug á sínu embætti en svo að bregðast þannig við réttmætri gagnrýni á miður góða embættisfærslu. Og þótt hann hótaði málssókn og talaði um, að ég hefði skotið mér undir skjöld þinghelginnar, þá er það eftirtektarvert, að einungis tveir af þeim þremur núv. og fyrrv. ráðh., sem töluðu, sáu sér fært að verja landlækni. Hinn þriðji, sem ber ábyrgð á skipun hans, hefur fengið þá reynslu af honum, að hann mælir honum ekki bót.