13.12.1944
Neðri deild: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (2760)

129. mál, jarðræktarlög

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Það er að sjálfsögðu eðlilegt, að hv. þm. Borgf. lýsi eftir því, á hvaða rökum ég hafi byggt það álit mitt, að brtt. á þskj. 630 mundu verða affarasælli en þær till., sem koma fram í frv. Það er eðlilegt, af því að ég gerði enga grein fyrir því, á hverju ég byggði þá skoðun, en það var af því, að hv. þm. A-Húnv. hafði þá talað fyrir till. sínum og fært fyrir þeim þau rök, sem ég tel rétt og get gert að mestu leyti að mínum orðum.

Hv. þm. gerði mikið úr því, að blærinn á brtt. hv. þm. A-Húnv. væri leiðinlegur fyrir bændastéttina. Það var helzt að skilja á orðum hans, þó að hann segði það ekki með berum orðum, að með því væri verið að gera bændur að einhvers konar ölmusumönnum. Ég er honum algerlega ósammála um þetta. Ég hef aldrei litið á jarðræktarstyrkinn sem styrk til bændanna sjálfra. Ég hef litið svo á, að ríkið borgaði jarðræktarstyrkinn, af því að það teldi það borga sig fyrir ríkisheildina sjálfa, hvað sem bændum liði. Þessi skoðun held ég, að hafi verið sú almenna skoðun, a. m. k. á fyrstu árum l. Það er fyrst eftir að breyt. er gerð 1936, sem hin skoðunin fer að skjóta upp höfðinu, að þetta sé styrkur til bænda, og það er í sjálfu sér eðlilegt, að sú skoðun fari þá að gera vart við sig, af því að þá voru gerðar breyt. á l., sem var hægt að leggja út á þann hátt, sem kemur fram í þessari skoðun. Þær breyt. lágu m. a. í því að hætta að styrkja jarðabætur, þegar búið væri að ná vissu hámarki á tilteknum jörðum og enn fremur, að jarðabæturnar ættu að skoðast sem nokkurs konar fylgifé jarðanna, en ekki skilyrðislaus eign ábúanda. Ég hef skilið jarðræktarstyrkinn þannig, í því formi sem hann var greiddur fram til 1936, að hann væri veittur jafnt ríkum sem fátækum, jafnt þeim, sem hefðu nauðsyn fyrir aukna ræktun vegna lífsafkomu fólksins, og eins þar, sem slík þörf væri ekki fyrir hendi, ég hef litið á hann sem nauðsyn vegna þjóðfélagsins, en ekki bændanna sérstaklega. Og ef litið er á þessar brtt. frá þessu sjónarmiði, þá sé ég ekki neinn leiðinlegri blæ á því fyrirkomulagi, sem þar er um að ræða, heldur en því, sem gert er ráð fyrir í frv., það kemur alveg út á eitt. Það er staðreynd, að ríkið tekur þennan þátt í ræktunarkostnaði landsins, og ég sé það ekki skipta neinu máli, hvort það kemur fram sem þátttaka ríkisins í ræktuninni eða það kemur sem fjárstyrkur eða fjárveiting til þess, sem ræktunina framkvæmir, niðurstaðan er sú sama. Mér finnst því, að þessi ástæða, sem hv. þm. Borgf. færir fram á móti till., sé ekki á rökum byggð.

Þá get ég ekki séð, að sú barátta, sem hann minntist á í sambandi við 17. gr., verði neitt erfiðari, þó að þessi leiðin sé farin, af því að niðurstaðan er nákvæmlega sú sama, hvor leiðin sem farin er.

Ég skal þá með örfáum orðum minnast á það, á hverju ég byggi þá skoðun, að þegar á allt er litið, muni aðferð hv. þm. A-Húnv. vera heppilegri en sú aðferð, sem stungið er upp á af hv. flm. frv. Ástæðan er fyrst og fremst sú, að ég álít, að vinnslan á landinu geti orðið skynsamlegar og heppilegar framkvæmd með því, að ríkið standi fyrir framkvæmdunum en að einstaklingarnir geri þær. Ef ræktunarsamþykkt er komið á, þá kemur út á eitt, hvort ríkið lætur framkvæma vinnuna eða félögin standa fyrir því, en með því móti, að ríkið sjái um vinnuna, er hægara að skipuleggja vinnubrögðin. Þá er hægt fyrir fram að gera áætlun og láta vélarnar fara yfir þessi landsvæði, sem ákveðið hefur verið að taka til vinnslu ár frá ári. Það gefur að mínu viti líka betri tryggingu fyrir, að vel sé unnið en ef einstaklingarnir eru látnir einráðir um, hvernig það er gert. Það verður að gera ráð fyrir, ef ríkið tekur þessa framkvæmd í sínar hendur, að þá séu færustu menn ekki eingöngu látnir velja landið, heldur líka sjá um vinnuna. — Loks er á það að líta, að með þessu er ríkið sjálfrátt, hvað mikið fé er borgað í þessu skyni, en eftir hinni till. er það nokkuð undir hendingu komið, hvað mikið fé verður að leggja árlega í þessar framkvæmdir.

Hv. þm. Borgf. benti á, að ef við ættum að taka ræktunina í stórum stökkum á þennan hátt, yrði áburðarvandamálið erfiðara en það er nú. En þar sem þurrka þarf landið vandlega, er því betra sem lengri tími líður frá þurrkun til fullnaðarræktunar, og verður þá nógur tími til að leysa áburðarvandamálið eigi verr en nú er unnt á smáblettunum. Ef tekið yrði mjög mikið land á hverjum stað í einu, má segja, að sú áhætta fylgi því, að sumt af landinu verði aldrei fullræktað, m. a. vegna áburðarleysis fyrstu árin. En þar ætti nokkur trygging að vera fólgin í ábyrgð ræktunarfélaganna á því, að landið ræktist. Þótt menn getí verið misvel trúaðir á þá ábyrgð, er hún meiri trygging en ef einstaklingur á að bera ábyrgðina.

Loks er á það að benda, að samkv. þessum till. á að vera hægt að ákveða fyrir fram, hvaða jarðir þyki ekki hæfar til að leggja í þær aukinn styrk, af því að ósýnt þyki, að þær haldist í byggð sakir sandfoks, vatnagangs, harðbýlis eða einangrunar. En með því skipulagi, sem nú er, virðist ákaflega lítil trygging fyrir, að styrknum sé ekki varið í framkvæmdir, sem brátt verði gagnslausar.