13.12.1944
Neðri deild: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (2763)

129. mál, jarðræktarlög

Pétur Ottesen:

Mér var ómögulegt annað að heyra í fyrstu á hv. frsm. en framkvæmdirnar yrðu á líkum grundvelli og verið hefur, grundvelli búnaðarsambandanna í hverju héraði, en ekki ríkisrekstur. Það var ekki fyrr en hæstvirtur fjármálaráðherra (PM) var farinn að tala um framkvæmdir ríkisins, að nokkurt hop kom á frsm., og síðan fór hann líka að tala um þetta sem framkvæmdir ríkisins. Eins og málið kom fram í hans framsöguræðu, gat ekki komið til mála, að ríkið hefði þessa framkvæmd. Ég veit ekki, að hverju leyti verkið yrði betur skipulagt með því móti, að ríkið léti vinna það. Ráðunautar búnaðarfélaganna mæla fyrir því. Kannske það þætti þá betra að senda jafnframt aðra ráðunauta ríkisins til að vinna hið sama? Eða þætti betra, að ríkið ynni verk með sínum vinnuflokkum en búnaðarfélögin? Ég skil ekki, í hverju það væri betra. Tvískipting þessara framkvæmda milli ríkis og búnaðarfélaga brýtur í bág við allar skynsamlegar till. í þessu máli. Hitt er svo annað mál, sem mér virtist koma fram hjá hæstv. fjmrh., að með því að ríkið annaðist framkvæmdir, væri hægt að miða þær við það fé, sem mönnum þætti þénugt, að ríkið legði fram. Þarna er þá strax komið að því, að hafa þurfi hemil á framkvæmdunum, láta menn ekki vera of duglega á kostnað ríkissjóðs í ræktuninni. Ef það er vegna þessa, sem lagt er til, að ríkið standi að ræktuninni, er málið orðið allt annað en í fyrstu var.

Ég get vel skilið, að með brtt. skapist aðstaða til að sortéra jarðir. Við þekkjum þær stefnur í þjóðfélaginu, að sortéra eigi jarðir, breyta eigi sumum byggðarlögum í auðn og draga fólkið í þéttbýli. En eigum við að ganga til móts við þessa stefnu? Eigum við að taka þá stefnu að láta engan eyri til stuðnings þeim jörðum, sem liggja nokkuð úr alfaraleið? Ég segi nei, og ég álít m. a. af þessu till. með öllu óaðgengilegar.

Hæstv. fjmrh. furðaði sig á því, að ég skyldi ekki geta verið jábróðir hv. þm. Mýr., er hann sætti sig við till. En það hefur engin áhrif á mig, hverja skoðun aðrir hafa í þessu efni.