13.12.1944
Neðri deild: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (2765)

129. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Jón Pálmason):

Ég held, að sá ótti, sem skotið hefur upp hjá hv. þm. Borgf. og hv. þm: V-Húnv., sé ástæðulaus. Það er ekki ætlazt til, að neinn sé útilokaður eða neinn sviptur þeim möguleikum, sem hann hefur nú til jarðræktarstyrks. Hér er um það eitt að ræða, hvernig eigi að skipuleggja þær sérstöku framkvæmdir, sem eiga að fá aukinn stuðning. Sú aukning hlýtur að koma misjafnt niður. Í sumum sveitum er lítið af jörðum, sem til þess henta, í öðrum sveitum flestar jarðirnar. Framkvæmdir verða samningsatriði ríkis og ræktunarfélags, eins og ég hef lýst, og hlutur hvorugs aðila fyrir borð borinn með því. Það var sagt út í hött af hv. þm: Borgf., að ég hefði breytt skoðun á þessu við það að hlusta á fjmrh. Ég hafði áður þessa skoðun. Einnig talaði þm. um að „sortéra“ jarðir, og vissulega er hér verið að gera það. En valdið til þess er algerlega fengið búnaðarfélögum héraðanna. Þau ráða, hvaða jarðir þáu treysta sér ekki að ganga í ábyrgð fyrir.