23.02.1945
Efri deild: 135. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (2778)

129. mál, jarðræktarlög

Frsm. 2. minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Ég get nú að langmestu leyti látið mér nægja að vísa til nál. á þskj. 1194, sem ég og hv. 6. landsk. stöndum að. N. þykir þó rétt að láta fylgja þessu örfá orð, og sérstaklega gefa ummæli hv. síðasta ræðumanns, hv. 2. þm. Árn., tilefni til þess.

Fyrst vildi ég mega segja það, að ég tel, að þær breyt. á fyrirkomulagi jarðræktarmálanna, sem gert er ráð fyrir í því frv., sem hérna liggur fyrir, horfi að minnsta kosti að vissu leyti í rétta átt. Ég hygg, að það hafi einmitt sýnt sig, að einn ágalli jarðræktarlaganna og fyrirkomulagsins í þessum efnum undanfarin án hafi verið sá, að framkvæmdirnar voru í svo margra manna höndum með svo mismunandi þekkingarskilyrðum og við svo mismunandi ástæður, að niðurstaðan hafi ekki orðið slík sem skyldi. Auk þess hefur að minni hyggju ekki verið tekið nægilegt tillit til þess, þegar ráðizt hefur verið í ræktun og hún styrkt af ríkissjóði, að sérstök áherzla væri lögð á að byrja ræktun á þeim stöðum, sem með tilliti til gæða landsins og aðstöðu til nytja á því voru líklegastir til að skila því fé aftur, sem til ræktunarinnar var lagt. Með því að taka upp þá aðferð í þessum efnum, sem lagt er til í frv., sem sé, að ríkissjóður sjái um og kosti ræktunina, þá hygg ég, að fram hjá þessum agnúum verði stýrt. En rétt er þó að taka fram, að að minni hyggju er í frv., eins og það er nú úr garði gert, ekki svo tryggilega frá þessu atriði gengið, að ég geti talið það fullnægjandi, og vísa ég um það efni til nál. á þskj. 1194.

Hv. 2. þm. Árn. taldi það í sjálfu sér engan ágalla, þó að það fé, sem ríkissjóður legði fram til jarðræktar, yrði til þess að auðga einstaka menn. Það, sem hann taldi aðalatriðið í þessu sambandi, væri að gera jarðirnar sem eigulegastar. Segja má, að nokkuð sé til í því, að það sé æskilegt, að jarðirnar séu eigulegar, ef það kemur ekki þannig fram, að þær verði að sama skapi dýrari. En það segir sig sjálft, að ef verð jarða hækkar fullkomlega til jafns við það, sem þær verða eigulegri, þá er spursmál, hvort sá, sem situr á eigulegri jörð, verður nokkuð betur settur en hinn, sem situr á óeigulegri jörð, og ef taka þarf lán fyrir mismuninum.

Það, sem að minni hyggju er megintilgangur jarðræktarlaganna nú og eins þessa frv., sem hér liggur fyrir, er það, að búa svo að þeim, sem við landbúnað fást, að þeim sé fært að framleiða landbúnaðarafurðir með sem allra lægstum tilkostnaði, þannig að hægt sé að selja þær fyrir sem allra lægst verð og sambærilegt við það, sem aðrar nauðsynjavörur kosta, og jafnframt sé þeim mönnum, sem vinna að þessu, tryggðar þær tekjur af vinnu sinni, að þeirra lífskjör geti staðizt samanburð við lífskjör annarra atvinnustétta í landinu. Menn eru sammála um, að þessu marki sé ekki unnt að ná nema með því að hverfa að verulegu leyti frá því, að vinnan sé öll unnin af handafli, og vélar notaðar til erfiðustu vinnunnar. Til þess að það sé hægt, verði að sjálfsögðu að fara á undan sú vinnsla á jörðunum, að vélum megi koma við. Þetta er vissulega rétt, en ef sá böggull fylgir þessu skammrifi, að jarðirnar hækki í verði sem því nemur, sem þær verða eigulegri, þá getur útkoman orðið sú, að vextirnir af þeim höfuðstól, sem bundinn er í jörðinni, og þær nauðsynlegu afborganir, sem á hverjum tíma verður að greiða, éti upp það, sem afrakstur jarðarinnar, vex fyrir þessar umbætur, sem á henni eru gerðar, og þá er sá, sem á henni býr, engu betur settur eftir en áður.

Ef það fé, sem það opinbera leggur fram til umbóta á jörðunum, verður þess vegna fullkomlega kvaðalaus eign þess manns, sem við því tekur, sem hann getur selt næsta manni fullu verði og kannske hærra en tilkostnaðurinn nam, hlýtur það að leiða til þess, að jarðirnar hækki í verði og meir og meir þurfi til að greiða vexti og afborganir og minna verði eftir til annarra þarfa bóndans, sem á jörðinni býr, og fólksins, sem vinnur hjá honum. Tilgangur 17. gr. jarðræktarlaganna er sá, eins og viðurkennt er, að fyrirbyggja, að svo fari. Það er viðurkennt af öllum, bæði þeim, sem eru meðmæltir eða samþykkir þessu ákvæði og telja það eðlilegt og réttmætt, og eins hinum, sem eru andvígir því, að þessi gr. hafi ekki undanfarin ár náð tilgangi sínum, að koma í veg fyrir óeðlilega hækkun á jarðveginum. Það er að sjálfsögðu rétt að geta þess í þessu sambandi, að þar hafa verið önnur öfl að verki en umbætur á jörðunum, öfl, sem hafa verið svo áhrifarík í því efni, að þess er ekki að vænta, að ákvæði l. um þetta efni gæti fyrirbyggt verðhækkun, eins og nú er ástatt.

Ef þetta frv. verður að l., annaðhvort í sinni núverandi mynd eða með einhverjum breyt. í þá átt að kveða nánar á um framkvæmdirnar en gert er í frv., virðist mega gera ráð fyrir því, að ríkissjóður tæki á sig að leggja fram til þessa máls um 60 millj. kr., og þeir, sem eru bjartsýnastir og mest stórhuga í þessum efnum, láta sér detta í hug,. að þessu verki, sem við er miðað í frv., mætti: verða lokið á hér um bil 10 árum eða kannske ekki fullkomlega þeim tíma.

Það liggur alveg í augum uppi, að það fer mjög mikið eftir því, hvernig þessu fé er varið og hvernig er um það atriði búið, hvort það kemur að þeim notum, sem til er ætlazt. Ef óþarfa umbætur verða gerðar á jörðunum og þær hækka í verði við hver eigendaskipti, þá er augljóst mál, að vextir og afborganir hljóta að taka til sín mjög verulegan hluta af afrakstri jarðanna. Ég legg því á það hina mestu áherzlu, að um leið og þessi breyt. verður gerð, verði einnig kveðið skýrar á um það efni, sem nú felst í 17. gr. jarðræktarlaganna, og tryggilegar frá því gengið en nú er, að því verði beitt í framkvæmdinni.

Fyrir skömmu afgreiddi þetta þing l. um byggingar- og ræktunarsamþykktir í sveitum. Þegar þau l. voru afgr., þá hygg ég, að ekki hafi verið búizt við því, að jafnstórfelldar breyt. yrðu gerðar á jarðræktarlögunum eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, því að mér virðist alveg auðsýnt, að þau l. séu miðuð við jarðræktarlögin í meginatriðum eins og þau nú eru. Ef þá hefði verið ráðið, að ríkið skyldi kosta að fullu alla framræslu og þurrkun landsins og alla vinnslu þess, þá væri að sjálfsögðu miklum mun eðlilegra, að ríkið beinlínis gerði ráðstafanir til þess að kaupa þær vélar, sem til þess þarf, heldur en að vera að styrkja samlög bænda víðsvegar um landið til þess að afla véla, nema þá í þessu frv. væri beinlínis gert ráð fyrir, að vélarnar væru tiltækar með ákveðnum kjörum til þessara framkvæmda, þó að þær ættu að vera í eign Búnaðarsambandsins, eins og gert er ráð fyrir í fyrrnefndum l. Yfirleitt má segja, að þar sem um svo stórkostlega grundvallarbreytingu er að ræða eins og lagt er til í þessu frv., þar sem í staðinn fyrir að veita einstaklingum styrk, sem miðaður er við það ákveðna verk, sem þeir inna af höndum, þá hefur ríkið tekið að sér að greiða allan kostnað við ræktunarframkvæmdirnar, að þá leiði af sjálfu sér, að jarðræktarlögunum í heild sinni verði að breyta í ýmsum atriðum, ef þau eiga að samrýmast því fyrirkomulagi, sem gert er ráð fyrir, að upp verði tekið.

Eitt atriði þykir mér rétt að nefna enn í þessu sambandi. Þar sem um svo stórar upphæðir er að ræða eins og ætla má, að gert sé ráð fyrir samkv. þessu frv., þá virðist mér augljóst mál, að sjálfsagt sé að haga þessum framkvæmdum þann veg yfirleitt, að fyrst sé snúið sér að framkvæmdum í þeim héruðum eða á þeim löndum, þar sem útlit er fyrir eða þar sem telja má víst, að peningarnir komi fyrst að gagni eða skili sér fljótt aftur. En þá er orðið erfitt, að ég ekki segi ókleift, að byggja á þeirri viðmiðun, sem gerð er í þessu frv. nú, þar sem kveðið er svo á, að allir þeir, sem hafa umráð yfir býlum, sem ekki fá 6 hundruð hesta heyskap af véltæku landi, skuli koma jafnt til greina til þess að láta ríkið annast þessar framkvæmdir fyrir sig. Ég hygg einmitt, að þetta atriði í frv. sé mikil ástæða til að athuga nánar áður en slík löggjöf sem þessi er sett.

Eins og í grg. segir, þá liggur engin heildaráætlun fyrir um það, hve mikill kostnaður lendir á ríkissjóði, ef frv. yrði samþykkt, og ég get ekki látið vera að segja, að mér finnst það mikill galli á málsmeðferð allri, að glöggar upplýsingar um þetta efni skuli ekki vera látnar fylgja. Landbúnaðarnefnd hefur átt þess kost að fá að sjá ýmislegt, sem þetta mál varðar og Búnaðarfélag Íslands hefur í sínum fórum, og á því eru byggðar þær tölur, sem teknar eru hér upp í grg. Það má engan veginn líta svo á þær, að ég telji, að megi treysta þeim og þetta séu endilega þær réttu tölur. Það er að minni hyggju nokkurn veginn jafnlíklegt, að upphæðin sé heldur um of eins og líka hitt, að hún sé heldur van. En að sjálfsögðu er einnig upphæðin að verulegu leyti undir því komin, hvaða reglum verður fylgt um það, hvaða land sé fyrst tekið til ræktunar, bæði með tilliti til þess, hvort það er gott ræktunarland og hver aðstaðan er með tilliti til samgangna, markaðs og annars slíks. Einnig hygg ég, að það sé engum efa undirorpið, að með því að taka samfelldar stórar landspildur með þessum stórvirku vélum, sem hér er gert ráð fyrir, muni ræktunin í heild sinni verða ódýrari en ef tekin eru smástykki á víð og dreif með þeim annmörkum og aukakostnaði, sem sjálfsagt hlýtur að fylgja slíku fyrirkomulagi. Allt þetta tel ég, að þurfi nánar að athuga, áður en sú mikla grundvallarbreyt. verður gerð á l., sem hér er lögð til. Því leggjum við til, þessi minni hl., að málið verði að þessu sinni afgreitt á þann hátt, að ríkisstjórnin undirbúi málið fyrir næsta reglulegt Alþ. og hafi um það samráð við Búnaðarfélag Íslands og einnig við nýbyggingarráð. Ég get þó bætt við, að ég geri ráð fyrir, að nýbyggingarráð hafi ekki aðstöðu til þess að kynna sér þetta mál í einstökum atriðum neitt svipað því á þann veg jafnvel eins og Búnaðarfélag Íslands. Það verður að sjálfsögðu að vænta þess, að miklu meiri kunnugleiki sé á þessum málum hjá Búnaðarfélagi Íslands. Hins vegar hygg ég, að um meginatriði málsins megi vænta þess, að nýbyggingarráð hafi aðstöðu til að skapa sér ákveðna skoðun, einmitt með tilliti til þess, að það, sem ákveðið verður í þessu efni, sé gert með hliðsjón af því, sem ráðið hugsar sér að gera til stuðnings atvinnuvegum í landinu, sem jafnmikla þýðingu hafa, ekki einasta fyrir þá einstaklinga, sem þennan atvinnuveg rækja, heldur fyrir þjóðina alla í heild.

Um brtt. hv. 2. þm. Árn. á ég bágt með að ræða ýtarlega í einstökum atriðum. Ég hef aðeins heyrt hana lesna upp, að vísu vel og skörulega, en hún er svo löng, að ég festi mér hana ekki fullkomlega í minni. Mér fannst hún nálgast að vera eins konar drápa í óbundnu máli, en ég skal þó játa, að ég fæ ekki séð, að hún sé neitt verulega til bóta frá því, sem lagt er til af okkur tvímenningunum á þskj. 1194, og mér finnst ég því ekki geta, nema aðrar ástæður komi til, horfið frá þeirri dagskrá og stutt brtt. hans. Annars virtist mér í ræðu hans allri, að í raun og veru væri hann samþykkur dagskrártill. eins og hún er hér, þó að hann hafi ýmislegt við rökstuðning hennar í nál. að athuga, sem ég vissi fyrir og furða mig ekki heldur neitt á.

Till. okkar tvímenninganna er sem sagt, að málið verði afgreitt á þann hátt, sem í dagskrártill. felst, í trausti þess, að ríkisstjórnin hafi undirbúið málið svo fyrir næsta reglulegt Alþ., sem ekki verður síðar en 1. okt. í haust, að það geti þá fengið fulla afgreiðslu þ., og þá sé ég ekki, að nein töf þurfi að verða á því, að framkvæmdir geti hafizt samkv. því skipulagi, sem þá verður ákveðið.