23.02.1945
Efri deild: 135. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í C-deild Alþingistíðinda. (2783)

129. mál, jarðræktarlög

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. — Ég vildi aðeins bæta örfáum orðum við það, sem ég sagði áður í sambandi við það, sem til mín var mælt af hv. síðari ræðumanni.

Hv. 3. landsk. gerði orð mín að nokkru umtalsefni. Það var eitt atriði, sem hann reyndi að gera sér mat úr, sem sé það, að ég legði á það höfuðáherzlu, að jarðeignirnar yrðu dýrar, hækkuðu í verði. Þetta er alveg rétt hjá honum. En ég sá ekki betur en að hann teldi þetta að einhverju leyti háskalegt, þar sem hann amaðist við því, að jarðeignirnar hækkuðu í verði. Ég fæ nú ekki betur séð en að þetta sé það sama og að amast við því, að jarðeignirnar batni, en það er takmark, sem allir keppa að í öllum landsbyggðum, að jarðirnar batni. Til þess er nú allur róðurinn fyrst og fremst með jarðræktarlögunum að gera ábýlisjarðir í landinu að verðmætri eign. Ég sé nú ekki betur en að kostirnir, sem fylgja þessu, séu svo mjög ósambærilegir við vankantana, að maður geri sig broslegan að vera að ræða það, og ég held, að sé alveg ástæðulaus sá ótti, sem fram kom hjá hv. þm., að hætta væri á, að jarðirnar lentu í braski, ef þær væru gerðar verðmeiri, og því yrði að dreifa því víðar.

Ég veit ekki, hvað sagt yrði, ef þeirri kenningu væri fylgt í nýtízku húsagerð í bæ, t. d. Reykjavík, að ekki væri vert að vera að keppa að því takmarki að byggja húsin þannig, að þau séu laus við raka, ljósaútbúnaður sem beztur, herbergjum hagað þannig, að húsin séu sem heilsusamlegust og bezt til íbúðar o. s. frv. Því betur sem þessu er framfylgt, þeim mun dýrmætari er eignin. Ég býst við, að fáir yrðu til þess að halda fram þessari fáránlegu kenningu. Það segir sig sjálft, að öllum eignum eykst verðgildi með auknum umbótum.

Ég skal svo ekki hafa þetta lengra.