08.03.1944
Efri deild: 24. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

27. mál, skipun læknishéraða

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Í umr. um þetta mál finnst mér ekki hafa verið sem skyldi komið að kjarna þess. Og í raun og veru finnst mér enginn hafa rætt það eins og vænta mætti, að slíkt mál væri rætt, nema hv. 3. landsk. þm.

Meginatriðið í þessu máli er það, hvort það sé yfirleitt rétt stefna að kljúfa læknishéruð niður í ný og ný læknishéruð eða halda þeim eins og þau eru nú og veita héraðslæknunum aðstoðarlækna eftir þörfum, eftir því sem héruðin verða umfangsmeiri. Ég fyrir mitt leyti er fullkomlega á þeirri skoðun, að það sé sú rétta stefna í málinu að kljúfa héruðin ekki niður. Það er ekki hægt að bera þessa embættismenn saman við aðra embættismenn landsins, t.d. sýslumenn, sem hægt er að flytja úr lélegu embætti upp í stærra og betra embætti með það eitt fyrir augum að launa þeim langa og góða þjónustu úti á landsbyggðinni, vegna þess að læknisembættið er ekki eins og önnur embætti og því ekki sams konar rekstur á þeim og öðrum embættum. Til þess að læknir geti haldið við kunnáttu sinni og áhuga, þarf hann að hafa eitthvert verkefni og það strax frá þeim tíma, er hann byrjar að starfa, þegar hann kemur frá skólanum. Og þess vegna er það sem þessi fámennu héruð á landinu eru læknislaus, að enginn læknir fæst í þau til þess að starfa þar, bókstaflega vegna þess, að þar mundu þeir týna náminu niður á mjög skömmum tíma vegna æfingarskorts. Og þó að þeir ættu það víst að verða fluttir þaðan eftir 4–6 ár, þá er það orðið of seint, því að þeir mundu jafnvel á svo skömmum tíma vera búnir að tapa svo miklu af læknisfræðikunnáttu sinni vegna æfingarleysis, að það mundi veitast þeim erfitt að starfa sem læknar í fjölmennari héruðum, þar sem þeir m.a. yrðu oft og tíðum að keppa við þaulæfða atvinnulækna. Mörg héruð á landinu eru þannig, að læknirinn hefur þar ekki mikið annað að starfa en vera í eins konar varðstöð, þegar slys ber að höndum. Og þegar þeir eru sóttir til sjúklinga, verða þeir venjulega að senda þá frá sér á sjúkrahús annars staðar, ef um einhver veruleg veikindi er að ræða, vegna þess að þeir hafa þá ekki næga æfingu eða tækni til þess að geta annazt sjúklinginn heima í héraði. Þess vegna mun ég greiða atkv. á móti brtt. meiri hl. n. um skiptingu héraðanna. Og ég mun ekki heldur fylgja frv. ríkisstj. nema til 3. umr., en bera þá fram brtt. við það, vegna þess að með því er farið inn á þá braut að stofna lítil læknishéruð, sem yrðu að etja við nákvæmlega sömu erfiðu skilyrðin og önnur lítil læknishéruð á landinu. Fáist ekki samkomulag um þá brtt. að hafa eitt læknishérað á Fljótsdalshéraði, þ.e.a.s. steypa saman þessum tveimur læknishéruðum, eins og ætlazt var til í upphafi, án þess að kljúfa út úr því lítið hérað, og veita lækninum þar aðstoð, þá mun ég ekki heldur sjá mér fært að greiða atkv. með frv. eins og ríkisstj. hefur látið það frá sér fara.

Ég er alveg viss um, að reynslan yrði sú, ef frv. verður samþ. eins og meiri hl. n. leggur til, að fjöldinn af þeim læknum, sem nú eru úti á landsbyggðinni, mundi sækja um þessi litlu héruð hér í kringum Reykjavík. Og ég álít, að sú stefna sé algerlega röng að hópa læknum utan af landi í smáhéruðin hér umhverfis höfuðborgina, þar sem miklu betri skilyrði eru til þess bæði að koma sjúklingum á sjúkrahús og sækja læknishjálp en úti á landsbyggðinni. Reynslan er sú, að hópur manna sækir um hvert einasta hérað, sem losnar hér í kringum höfuðstaðinn. Og ef frv. verður samþ. með brtt. meiri hl. n., þá munu mörg héruð, sem nú hafa lækni, verða læknislaus.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að undir venjulegum kringumstæðum væri nóg af læknum til í landinu og það svo mikið, að læknadeild háskólans vildi torvelda aðgang að skólanum. Þessi ummæli hans sanna, að það eru ekki launakjör læknanna yfirleitt eða aðbúnaður að þeim, sem gerir það að verkum, að þeir fást ekki út á landið, heldur hitt, að þeir hafa þar ekki nægilegt verksvið, eftir að þeir koma úr skóla að loknu námi.

Hvert hérað, sem klofið er, skapar ekki aðeins aukinn kostnað fyrir ríkissjóð vegna beinna launa læknanna, heldur skapar það ríkissjóði líka skyldur til þess að byggja læknisbústaði. Og meðan ríkissjóður getur ekki uppfyllt skyldur, sem á honum hvíla um að byggja læknisbústaði á landinu, þar sem beðið hefur verið árum saman eftir því, að lagt væri fram fé til þeirra, þá sé ég ekki, hvaða sanngirni er í því að skapa ríkissjóði nýjar skyldur, áður en hann er fær um að uppfylla þær, sem þegar eru fyrir og mjög aðkallandi er, að uppfylltar verði hið fyrsta.

Ef þetta frv. og brtt. meiri hl. yrði samþ., þá væru líka lagðar mjög miklar skyldur á herðar þessum héruðum, þar sem þau þá eiga að standa undir 2/3 kostnaðar við sjúkrahúsin. Margir hreppar eru ekki færir um þetta. Og hreppar, sem hafa aðeins 300–500 íbúa, standa ekki undir því á venjulegum tímum, hvað þá á þessum tímum, að reisa og reka læknisbústaði og sjúkraskýli þannig, að það sé gert með nokkrum myndarskap. — Ég held, að þessir agnúar hafi ekki verið athugaðir nógu vel af þeim mönnum, sem berjast fyrir því, að till. meiri hl. n. við frv. nái fram að ganga.