08.03.1944
Efri deild: 24. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

27. mál, skipun læknishéraða

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. — Ég ætla litlu við það að bæta, sem ég ræddi í gær um þetta mál. Þó vildi ég taka fram fyrst og fremst það, sem fram kemur á brtt. 93. Það er sem eðlileg afleiðing af þeirri breyt., er ég vil, að gerð verði á frv., að breyta um tölu á aðstoðarlæknum úr átta í sjö, þar sem svo er ráð fyrir gert, að einn af þessum átta aðstoðarlæknum yrði skipaður til aðstoðar í væntanlegu Selfosshéraði. En þar sem till. mín nú gengur út á það, að þessi héruð verði tvö, þá kemur að svo vöxnu máli aðstoðarlæknirinn þar ekki til greina.

Hitt atriðið, sem mér við nánari athugun fannst rétt að láta getið, kom fram við umr. í hv. Nd. Þar var farið fram á það líka, þótt hv. Nd. samþ. það ekki, að kljúfa Eyrarbakkalæknishérað í tvennt, Eyrarbakkalæknishérað og Selfosslæknishérað, en með annarri hreppaflokkun en á sér stað í þessari brtt., sem hér liggur fyrir á þskj. 93. Sú till., sem þar kom fram, miðaðist við, að Eyrarbakkahérað yrði ekki aðeins Eyrarbakkahreppur og Stokkeyrarhreppur, heldur líka Gaulverjabæjarhreppur og Selvogshreppur. Selvogshreppur má kallast heimur fyrir sig. Var þá miðað við í þeirri till., að hann ætti læknissókn til Eyrarbakka. En í trausti þess, að samgöngur á landi við Selvoginn batni, og þegar það er athugað, að oft er það, að ekki gefur á sjóinn, þó að líf liggi við, þá er það vilji og óskir Selvogsmanna, ef héraðinu væri skipt, að Selvogurinn yrði látinn fylgja Selfosslæknishéraði. — Alveg á sama hátt er það um Gaulverjabæjarhrepp að segja, að ég sá mér ekki annað fært en bera fram brtt. um, að hann fylgdi Selfosshéraði, þó að þarna sé að vísu vegalengdarmunur, annars vegar þaðan til Eyrarbakka og hins vegar til Selfoss. En óskir Gaulverjabæjarhreppsmanna um, að hreppurinn falli undir Selfosslæknishérað, byggjast á því, að viðskiptaleið þeirra er upp að Selfossi. Og ég staðhæfi, að í þessum hreppum er enginn ágreiningur um það, til hvors læknishéraðsins hvor þessara sveita um sig eigi að heyra. Um það er fullt samkomulag í þessum hreppum.

Mér þykir ákaflega einkennilegt, að um það skuli vera ágreiningur hér á hæstv. Alþ. og það skuli gert að vafamáli, hvort læknir eigi að vera á Selfossi og annar á Eyrarbakka eða tveir héraðslæknar í Eyrarbakkahéraði óskiptu. Ég er alveg viss um það, ef þróunin gengur sinn eðlilega gang, að eftir 5–8 ár verður ekki um það að ræða, hvort á þessu svæði verði hafðir tveir læknar, heldur hvort þeir eigi að vera þrír eða fleiri. — Það er nú eitt þorp í Selfosshéraði, Selfoss, og fer vaxandi. Það er partur úr .Sandvíkurhreppi. Það eina þorp út af fyrir sig fer smám saman að verða eins fjölmennt og fámennustu læknishéruðin á landinu. Og líkt má kannske segja um annað þorp þarna, Hveragerði í Ölfusi, sem líka á sérstakan hátt fær mannfjölda til sín til viðbótar á sumrin vegna sumarbústaðanna. Getur það aukið þörf á lækni þar þann tímann.

Ég vil undirstrika það, að það er allveruleg útgerð á þessum brimstöðum, Eyrarbakka og Stokkseyri, þar sem löng reynsla er fyrir því, því miður, að oft hafa orðið sjóslys, sem vitanlega gerir mennina, sem þar eru, miklu næmari fyrir þörfinni á að hafa lækni hjá sér, sem þeir hafa haft um áratugi. — Þá hefur einnig verið rætt um hælin, sem eru þarna niður frá hjá, kauptúnunum og þurfa sína þjónustu. Vex þá réttmæti óska þeirra að hafa lækni þar, sem hefur þar fasta setu. Það er í raun og veru hálfleiðinlegt, en ég segi það samt eins og það liggur fyrir, að einn af aðalhvatamönnum þess, að breytt væri þarna um læknaskipun, er einmitt hinn ágæti héraðslæknir Eyrarbakkahéraðs, kostgæfinn og prýðilegur læknir, sem er ekki verður neins annars en alls hins bezta, Lúðvík Norðdal. Hann er farinn að lýjast af miklu og ónæðissömu starfi, sem hann hefur gegnt með mestu prýði.

Það er líka svo, að Selfosshérað, sem er nú þegar allstórt eftir þessari till. minni, með þessum hraðvaxandi kauptúnum innan endimarka sinna, getur, áður en við er litið, verið orðið eitt af allra fjölmennustu læknishéruðum landsins. Til Laugaráslæknisins næst oft ekki handan yfir ána, vegna þess að Hvítá er ófær, og þá væri gott fyrir þá, sem í þeim kringumstæðum eru og eiga að stríða við þann farartálma, að leita niður til Ölfusárbrúar, til þess að sjúkir menn verði ekki þjónustulausir.

Ég hygg, að læknir á Selfossi hefði yfrið nóg að starfa. En héraðið vantar sjúkraskýli, sem þyrfti að reisa sem fyrst að Selfossi. Og af þeirri ástæðu mun sá héraðslæknir, sem ég nefndi áðan, hafa verið með því að flytja læknissetrið að Selfossi frá Eyrarbakka, að hann vill, að á Selfossi verði reist sjúkraskýli. Og það var þá von manna, að byrjað yrði á því næsta sumar og það nú undirbúið með löggjöf.

Ég sé ekki annað en öllum mætti í léttu rúmi liggja, þó að héraðið yrði á. þennan hátt klofið, enda þótt hv. þm. Barð. (GJ) hafi talað hér eins og væri hann gamall húslæknir og fjölkunnugur maður, — og er það ekki í neinni galdramerkingu mælt, heldur skiljist það: fjölfróður, — þó að hann haldi því fram, að það væri bezt að hafa héruðin stór, en skipa aðstoðarlækna í þau með aðallækninum. Og það er engin trygging í því fólgin fyrir fámenn útkjálkahéruð, þó að læknishéruðum sem þessu sé neitað um sanngjarna skiptingu og fjölgun lækna á þann hátt. Mér finnst þá fremur, að tryggja mætti þessum útkjálkahéruðum læknishjálp með því að setja ungum læknum að einhverju leyti stólinn fyrir dyr um það, hvað þeir eigi að gera við starfskrafta sína, þegar þeir hafa lokið námi. — Það er tekið fram af landlækni, að það muni engum vandkvæðum verða bundið að fá lækni í þetta nýja hérað austan fjalls, ef þessi skipting fer þar fram.

Ég hef heyrt kunnuga menn halda því fram, að það séu 60 starfandi læknar í Reykjavík, og fólksfjöldinn mun vera í Reykjavík um 40 þúsundir manna. Þá koma tæp 700 manns á hvern lækni hér, eins og í heldur fámennu héraði úti á landi. Ég held því, að betra væri að gera ráðstafanir til þess, að ungir kandídatar færu í útkjálkahéruðin, eins og oft hefur verið um rætt, heldur en neita Eyrbekkingum um svo sjálfsagðan hlut sem að fá að hafa sinn eigin lækni hjá sér á þann hátt, sem ég hef haldið fram. Og til hvers yrði sú frestun á þessu máli, sem sumir vilja, undir því yfirskini að athuga málið? Ég er ekki í neinum vafa um það, að að því er Eyrarbakkalæknishérað snertir, yrði sú frestun ekki til neins annars en nýrra vafninga og leiðinda. Það þarf enginn að láta sér detta það í hug, að fólkið þar mundi hverfa frá óskum sínum um, að læknishéraðinu verði skipt. Og því lengra sem liði þangað til og því harðara sem haldið væri í á móti kröfum fólksins í þessu efni, því ákveðnara yrði það í kröfum sínum. En sá dráttur yrði til nýrra skaprauna, en ekki til þess að upplýsa neitt nýtt í málinu, það mega menn reiða sig á. Það er örugg sannfæring fólksins þarna á Eyrarbakka, að það þurfi að hafa þar sinn lækni, og það hefur haft hann þar í 50 ár.

Hitt er stórvægilegt atriði í málinu, að hinu væntanlega Selfosslæknishéraði ríður mjög á því að fá þessa ákvörðun um skiptingu héraðanna samþ. nú, því að það var föst fyrirætlun íbúanna að reisa sjúkraskýli og læknisbústað á næsta sumri í krafti nýrrar lagasetningar þar um. Þess vegna kæmi þeim það mjög meinlega, ef þessari skiptingu yrði frestað. Og því meiri þrjózka sem kemst í málið, því minni líkur eru til þess, að hægt sé að sannfæra menn í þessu máli, heldur hitar það aðeins blóðið. Ég hygg, að sá frestur mundi ekki verða til annars en sá ágreiningur harðnaði, sem er í þessu máli á milli heilbrigðisstjórnarinnar og fólksins þarna eystra, þegar menn hafa hver sína skapgerð og komin er stífni í málið. Og þó að héraðslæknirinn á Eyrarbakka, Lúðvík Norðdal, verðskuldi allt hið bezta, þá má persónuleg afstaða hans ekki segja allt of mikið, heldur á heilbrigðisstjórnin að láta hans hlut verða sem beztan eftir hans verðskuldun alveg án tillits til þessa skiptingarmáls. Höfuðatriðið er að mæta réttmætum kröfum fólksins. — Nú annar einn læknir því ekki að þjóna Eyrarbakkalæknishéraði vegna fjölmennis þess, og samkv. því, sem ég að öðru leyti hef sagt, er réttast einnig þess vegna að kljúfa þetta læknishérað. En þó að hv. þm. Barð., sem er náttúrlega læknir,— en að vísu ekki lærður læknir, — haldi því fram, að það eigi ekki að kljúfa læknishéruðin, heldur skipa aðstoðarlækna, þá er því til að svara, að á sumum stöðum hentar það fyrirkomulag að skipa þannig aðstoðarlækna, en á öðrum stöðum hentar betur að kljúfa héruðin.

Ég skal ekki lengja umr. frekar, en vænti þess, að brtt. mín nái samþykki að athuguðu máli. Ég býst við, að einhvern hv. þm. vanti. Ég vil því fara þess á leit, að atkvgr. verði frestað.