08.03.1944
Efri deild: 24. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

27. mál, skipun læknishéraða

Páll Hermannsson:

Herra forseti. — Ég er þakklátur hv. þm. Barð. fyrir góðar undirtektir hans um fyrirkomulag það, sem stungið var upp á viðvíkjandi Fljótsdalshéraði. En ég óttast, að Fljótsdalshérað verði fremur læknislaust, ef Borgarfjörður er látinn fylgja með. Það er um 100 km leið, og eru vetrarferðir mjög erfiðar. Ég játa, að svo lítið hérað sem Borgarfjörður ætti á hættu, að enginn læknir sækti um það. En það getur ekki orðið um viðunandi læknisþjónustu að ræða fyrir Borgfirðinga, nema læknirinn sitji þar, og er þess að vænta, að ríkið gefi íbúum þessa héraðs kost á að hafa lækni hjá sér, að ríkið inni af höndum gagnvart þeim þá skyldu, sem allir eiga rétt á.