29.09.1944
Neðri deild: 58. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í C-deild Alþingistíðinda. (2824)

145. mál, iðnaðarnám

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. — Þetta frv., sem fyrir liggur á þskj. 363, er flutt af mér ásamt hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. Ak. Í sjálfu sér er óþarft að hafa um það langt mál hér. Rökstuðningur fyrir því er prentaður í grg. þess. — Í frv. er farið fram á tvær breyt. á l., fyrst á l. nr. 100 frá 1938, um iðnaðarnám, og í öðru lagi á l. nr. 43 frá 1940, um breyt. á fyrrnefndum l. um iðnaðarnám. Miða þessar breyt., sem í frv. er farið fram á, að því að nema burt þær skorður, sem við flm. frv. teljum óeðlilegar nú a. m. k., sem í löggjöfinni eru fyrir því, að ungir menn geti komizt að iðnaðarnámi. Við lítum svo á, að þessar skorður séu allt of ríkar og frjálsræði í þessum efnum eigi að ríkja, en ekki ófrelsi og afturhald. Það er sannarlega enginn verr settur í lífinu, þó að hann læri eitthvert handverk, jafnvel þótt hann hafi ekki alltaf aðstæður til þess að notfæra sér þá mennt sína, en fyrir því þarf raunar varla að gera ráð hér á landi, því að það er svo mikill skortur á iðnfaglærðum mönnum í öllum greinum, að það virðist óhætt að taka burt þær skorður, sem af því opinbera hafa verið settar fyrir því, að ungum mönnum gefist kostur á að stunda iðnaðarnám.

Skal ég svo ekki, nema tilefni gefist, fara urn þetta fleiri orðum, en æski þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn., þegar þessari umr. er lokið.