08.03.1944
Efri deild: 24. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

27. mál, skipun læknishéraða

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. — Það voru fáein atriði í umr. um þetta mál í gær, sem ég taldi mig þurfa að benda á til leiðréttingar.

Hv. þm.. S.–Þ. hélt því fram, að hælið í Kumbaravogi kostaði 150 þús. kr. Ég held, að hann hafi bætt einu núlli aftan við, því að það kostar 15 þús. kr.

Ég sakna þess að hafa ekki getað fylgzt nógu vel með umr. hér, því að ég þurfti að vera í Nd. á sama tíma. Læt ég því nægja að benda á nokkur atriði.

Hv. 6. þm. Reykv. lagði nokkuð fasta áherzlu á það, hvernig landlæknir leysti störf sín af hendi. Hann taldi, að þar væri um misfellur að ræða og ónákvæmni og að honum bæri ekki saman við sjálfan sig. Þessu síðasta til sönnunar tók hann bréf landlæknis tvö, annað, sem hann skrifaði stjórn og þingi, og hitt, sem hann skrifaði heilbr.og félmn. En hv. þm. skýrði rangt ýmis atriði í bréfum þessum og fékk því út úr þeim tvær mismunandi skoðanir. Ég held, að hann hafi ekki lesið bréfin fullkomlega né önnur skjöl, sem hér að lúta. Þannig skil ég afstöðu hans. (BBen: Ég man alveg, hvað í þessum plöggum stendur.) Ég veit, að hv. 6. þm. Reykv. skortir ekki gáfur frekar en landlækni, og þess vegna held ég, að svona standi á þeim ummælum, sem hann hafði um þennan góða embættismann.

Hv. þm. sagði, að ég hefði ögrað sér með tugthúsvist. Þetta er ofmælt. Væri þetta rétt, hefði forseti tekið fyrir munn mér, utanþingsmannsins, sem hefði leyft sér að viðhafa þess háttar ummæli um alþm.

Í öðru lagi sagði þessi hv. þm., að ég hefði misfarið með virðingu þingsins. Var það ekki svo? Mér er það svo fjarri að misfara með virðingu Alþingis, að ég held, að hv. 6. þm. Reykv. hafi mælt þessi orð í gáleysi. En hann dregur þessa ályktun af þeim orðum mínum, að þm. hefðu þinghelgina sem skjólvegg. Landlæknir getur ekki kvatt hann til ábyrgðar fyrir ummæli, sem viðhöfð eru hér í þinginu. Þannig voru ummæli mín, sem hv. 6. þm. Reykv. dró þessar röngu ályktanir af. En ég var sannarlega ekki að ögra honum.

Annað, sem hv. 6. þm. Reykv. fetti fingur út í, var málfarið á bréfum landlæknis. Ég játa, að hann hefur annað málfar en við lögfræðingarnir. Við gefum ekkert fyrir skrúðmál, en ýmsir aðrir nota það gjarnan. Hv. þm. finnur að þessu, og skal ég ekki mæla með þessu málfari. — Annað hef ég ekki að segja.