05.12.1944
Neðri deild: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í B-deild Alþingistíðinda. (2843)

153. mál, hafnarbótasjóður

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. — Ég verð að telja það frekar aumlega farið, þegar rætt er um ekki minna mál en þetta, að þá skuli aðeins einn nm. sjútvn. láta svo lítið að láta sjá sig hér í deildinni. Þetta er ekki síður aumlegt fyrir það, að n. er klofin um afgreiðslu þessa máls.

Ég benti á það við 1. umr., hve mjög það gengi á snið við upprunalegan tilgang hafnarbótasjóðs. Ég benti á, að upphaflega var gert ráð fyrir því, að verkefni þessa sjóðs væri tvíþætt; í fyrsta lagi að leggja fyrir fé til svokallaðra fiskihafna, hafna, sem hafa sérstaka almenna þýðingu fyrir útgerðina, þar sem saman koma skip frá ýmsum landshlutum á vertíðinni. Í öðru lagi að veita stuðning hafnarlitlum stöðum, sem liggja sérstaklega vel við fiskimiðunum. Ég taldi, að frv. það, sem hv. þm. Borgf. flytur, um það að greiða mætti fé úr þessum sjóði samkv. sérstökum l. í hvert sinn, bryti mjög í bága við 4. gr. l., þar sem segir, að ekki megi greiða fé úr sjóðnum, fyrr en Alþ. hefði sett nánari ákvæði um fjárveitingar úr honum. Með þessu ákvæði var til þess ætlazt, að sett yrðu heildarfyrirmæli um, hversu fé skyldi varið úr þessum sjóði, en ekki hitt, að með einstökum l. mætti ákveða, hvernig nota ætti féð í hvert skipti.

Jafnframt því frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 379, flytur hv. þm. Borgf. annað frv. varðandi hafnargerð á Akranesi. Hv. sjútvn. hefur skilað áliti um málið. N. klofnaði um málið, meiri hl. n. vildi samþ. frv. með allverulegum breyt. Breyt. n. miða í aðalatriðum að þessu: Í fyrsta lagi, að samkv. brtt. n. er gert ráð fyrir því, að hafnarbótasjóði verði breytt í lánsstofnun, og eru nefndar í nál. hv. n. nokkrar ákveðnar verstöðvar, sem njóta eiga góðs af. Í ræðu hv. frsm. n., hv. þm. Vestm., kom það fram, að fleiri verstöðvar mundu væntanlegar á sjóðinn.

Í þessum breyt. hv. sjútvn. er gert ráð fyrir því, að það fé, sem hafnarbótasjóður þannig láni einstökum verstöðvum, sé endurgreitt á 3 árum. Í þessum ákvæðum er engin trygging fyrir því, að þetta verði gert í raun réttri. Það er hægt að breyta þessu þannig, að skuldir séu gefnar upp. Það segir heldur ekkert um það í breyt. n., að það sé nokkurt hámark sett um það, hve mikið megi lána úr sjóðnum. Það er hvergi tekið fram, að ekki megi lána sjóðinn allan, jafnvel nú þegar. Þá er ekkert minnzt á, að greiða eigi nokkra vexti af þessu fé, sem þannig á að næla úr hafnarbótasjóði. Það er, sem sagt, algerlega á valdi ráðh., hversu mikið er lánað, og það hlýtur einnig að vera á valdi ráðh., með hvaða kjörum lánin verða veitt, hvort greiða á nokkra vexti eða ekki. Ég verð að segja, að mig furðar gersamlega, hvernig hv. meiri hl. sjútvn. leyfir sér að breyta í þessu máli. Mig furðar, að áður en mþn. í sjávarútvegsmálum hefur gert minnstu tilraun til þess að semja heildarreglur fyrir hafnarbótasjóðinn um, hvernig fé hans skuli ráðstafað, skuli 3 sjútvnm. treysta sér til þess að koma fram með aðra eins till. um, hvernig ráðstafa skuli fénu úr sjóðnum.

Ég benti í upphafi ræðu minnar á það, hver hafi verið tilgangurinn með hafnarbótasjóði. Ég fæ ekki séð, að með brtt. hv. n. við þetta frv. sé nokkur tilraun gerð til þess að tryggja það, að með útlánum úr sjóðnum verði fylgt hinum upphaflega tilgangi hans. Ég skal lýsa því yfir, að ég vantreysti ekki þeim hæstv. ráðh., sem þetta mál heyrir undir, en ég sé naumast, hvernig hann á að gera upp á milli þeirra mörgu, sem koma og biðja um styrki úr sjóðnum. Ég veit ekki, hvaða reglum hann telur sig geta starfað eftir. Nei, hér er vissulega farið út á mjög hættulega braut með þennan sjóð, sem Alþ. stofnaði ekki í þeim tilgangi, að hann ætti að gera að eyðslueyri á stríðsárunum til algerlega skipulagslausra framkvæmda, heldur til þess að vera vísir að sjóði með markvissu skipulagi til bættra hafnarskilyrða. Um þetta hygg ég, að allir hv. þm. hafi verið sammála á sínum tíma. Nú hefur verulegur hluti þessara hv. þm, horfið inn á þá braut að fara að hrifsa úr sjóðnum, eftir því sem hver hefur tök á, án þess að nokkurt ákveðið skipulag liggi fyrir um, hvernig eigi að verja fénu.

Ég vil láta í ljós óánægju mína yfir því, að mþn. í sjávarútvegsmálum skuli ekki hafa samið neinar. reglur um hafnarbótasj6ð enn þá. Ef hún hefði gert það, hefði meðferð sjóðsins ekki orðið sú að gera hann að eyðslueyri, eins og nú virðist stefna að.

Enginn skilji orð mín svo, að ég sé að mæla á móti því, sem hv. þm. Borgf. hefur bent á, að ríka nauðsyn beri til þess að ráðast í hafnargerð á Akranesi og Keflavík og víðar, en það er allt annað mál en hér um ræðir, það er sitthvað að byggja hafnir í Keflavík og á Akranesi eða að veita fé úr sjóði, sem stofnaður er í sérstökum tilgangi.

Það má vera, að þetta sé eina leiðin til þess að ráðizt verði í hafnarframkvæmdir. Mér er ekki kunnugt um fjárhagsaðstæður þessara staða, en hitt er vitað mál, að verstöðvarnar hér við Faxaflóa eru auðugastar, Og látum svo vera, að þær fái lán úr þessum sjóði, ef hér skulu vera þær tvær hafnir, sem rætt hefur verið um þessi síðustu ár. Því er og til svarað, að hafnarbótasjóði verði endurgreitt þetta fé og megi því vel við una. En ef það er þannig, eins og hv. 2. þm. S.-M. sagði hér í gær, að ríkissjóður getur eigi nú, í þessu góðæri, staðið straum af þessu fjárframlagi, þá er hann ekki fær um það síðar eða að endurgreiða lánið. Það er því meira en lítil bjartsýni hjá meiri hluta sjútvn. að álíta, að hann geti frekar greitt þetta síðar. Nei, þetta verður eyðslueyrir, sem er varið án nokkurs skipulags.

Ég veit svo ekki, hvort ástæða er til að ræða þetta frekar. Ég hef lýst andstöðu minni við till. n., en hygg till. hv. 2. þm. S.–M. vera nær sanni, því að samkvæmt till. n. skal einn af ~ráðh. hafa heimild til að veita fé úr sjóði þessum. Ég er og hræddur um, að það verði ekki ætíð friður um stól hæstv. ráðh., því að aðilarnir eru margir, sem hann verður að tala við, án þess að ég vantreysti nokkuð hæstv. ráðh. Það er einnig varasamt fordæmi að fela ráðh. að veita fé þetta. (JJós: Vill ekki hv. þm. lesa brtt. nefndarinnar?) Ég hef lesið hana og veit vel, hvað er á ferðinni. Þá vil ég benda á að lokum, hvílíkur öfughyggjuháttur það er hjá hv. nefnd, að ríkissjóður fari að taka lán til slíkra merkilegra verklegra framkvæmda, og annað virtist nú líklegra. Ég vil þá leyfa mér að bera fram rökstudda dagskrá í þessu máli, og er hún á þessa leið:

„Sökum þess, að Alþingi hefur ekki enn sett heildarreglur um starfsemi og rekstur hafnarbótasjóðs, svo sem ráð er fyrir gert í lögum sjóðsins, telur deildin ekki rétt að samþykkja frv. þetta eins og það liggur hér fyrir og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá:

Ég vona, að hv. d. sjái nauðsyn þess að vernda þennan sjóð gegn því rupli, sem hér beinist gegn honum, og því leyfi ég mér að skora á hv. þm. að samþykkja þessa rökstuddu dagskrá.