02.12.1944
Neðri deild: 85. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í C-deild Alþingistíðinda. (2844)

145. mál, iðnaðarnám

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Ég sé það á þskj. 548, sem og var staðfest í ræðu hv. frsm. minni hl. iðnn., að lagt er til, að málinu verði vísað til ríkisstj. Að vísu er drepið á það í þessu nál., að endurskoðun iðnaðarnámslöggjafarinnar þurfi að fara fram, en þó er þar ekki neitt ákveðið um afgreiðslu þessa máls innan hæfilegs tíma, og þar tel ég mjög á skorta, því að málið er vissulega þess eðlis, að það er ekki heppilegt, að því sé blátt áfram vísað til ríkisstj., án þess að Alþ. áskilji neitt um frekari afgreiðslu þess, því að það er vitað mál, að einfaldasta leiðin til að koma málum fyrir kattarnef er að vísa þeim til ríkisstj. Hv. frsm. varaði við þeirri hættu, er af því gæti stafað, að þau ákvæði, sem eru í l. um aðgang að iðnaði, væru numin úr gildi. Ég skal ekki véfengja það, að frsm. þykist sjálfur sannfærður um, að af þessu geti eitthvað hlotizt, og hann bendir sérstaklega á það, að það gæti bakað ríkissjóði byrðar að því er iðnaðarfræðslu snertir. Ég hef ekki heyrt, að hætta geti stafað af kröfum fólks um aukna menntun, þótt kostnaður bæjarfélaga og ríkissjóðs verði meiri en annars. Hitt hefur verið stefnan, að ýta undir aukna menntun, en ekki það, að menn setji kostnaðinn svo fyrir sig, að ekki megi hverfa að því ráði að auka menntun í landinu, og þegar verið er að tala um menntun og menningu, á ekki hvað sízt við að minnast á verklega menntun, svo að það út af fyrir sig virðist mér ekki eins fráfælandi eins og hv. frsm. vildi vera láta.

Ég veit vel, að því mun haldið fram, að húsrými fyrir iðnnemendur sé ekki nægilegt eins og stendur, en það eru fleiri nefndir en þeir, sem búa við skarðan hlut í þeim efnum.

Hv. minni hl. hefur gert meiri hl. þann greiða að birta með nál. sínu þau bréf, sem iðnn. hefur borizt, til meðmæla eða mótmæla. Eitt af þessum bréfum er frá Iðnnemasambandi Íslands. Ég geri ráð fyrir, að þetta sé nýtt félag og meðlimir þess séu aðeins þeir, sem iðnnám stunda. En svo kynlega bregður við, að í löngu erindi, sem félag þetta sendir Alþ., mótmælir það því af öllum kröftum, að aðrir unglingar fái aðgang að iðnnámi. Þykir mér tæplega vera hægt að skoða þetta heilbrigða hugsun hjá uppvaxandi æskulýð, ef tileinka á þetta bréf þeim, sem hafa skrifað undir það. Ég hef tilhneigingu til þess að ætla, að um þessi mótmæli, sem beint er til Alþ. frá þessum unglingum, sem eru í Iðnnemasambandinu, megi eitthvað svipað segja og þegar Jakob, að ráði Rebekku, blekkti Ísak föður sinn og villti á sér heimildir með því að vefja skinni um hendur sér, til þess að Ísak, sem vissi að hendur Esaús voru loðnar, skyldi trúa, að Esaú væri kominn. Má segja, að Alþ. geti sagt, þegar unglingarnir eru að mótmæla því, að aðrir komist til iðnaðarnáms, að höndin sé Esaús, en röddin Jakobs.

Ef við lítum á kæruskjal það frá félagi járniðnaðarmanna til sakadómara, gegn þeim fyrirtækjum hér í Reykjavík, sem hafi of marga nemendur í samanburði við sveina, þá er fróðlegt að bera þetta saman við það, hve erfitt er að fá nokkuð gert hér á þessu sviði.

Enn fremur er fróðlegt að heyra niðurstöðurnar, ef þessu væri sinnt og fylgt fram.

Eftir þessu yrði að víkja frá fyrirtæki no. 1, sem hefur 3 nemendur, en einungis 1 fullgildan járnsmið, 2 nemendum. Frá fyrirtæki no. 2, sem hefur 3 nemendur, en bara 2 fullgilda járnsmiði, yrði 1 nemandi að víkja.

Frá fyrirtæki no. 3, sem hefur 4 nemendur, en 1 fullgildan járnsmið, yrðu 3 nemendur að víkja. Frá fyrirtæki no. 4, sem hefur 5–6 nemendur, en aðeins 3 fullgilda járnsmiði, yrðu 3 nemendur að víkja. Frá fyrirtæki no. 5, sem hefur 9 nemendur, en aðeins 1–2 fullgilda járnsmiði, yrðu 6 eða 7 nemendur að víkja. Frá fyrirtæki no. 6, sem hefur 7 nemendur, en aðeins 1 fullgildan járnsmið, yrðu 6 nemendur að víkja. Frá fyrirtæki no. 7, sem hefur 10 nemendur, en aðeins 1 fullgildan járnsmið, yrðu 9 nemendur að víkja. Frá fyrirtæki no. 8, sem hefur 12 nemendur, en aðeins 2 fullgilda járnsmiði, yrðu 10 nemendur að víkja. Frá fyrirtæki no. 9, sem hefur 14 nemendur, en aðeins 5 fullgilda járnsmiði, yrðu 9 að þoka. Frá fyrirtæki no. 10, sem hefur 22 nemendur, en aðeins 4 eða 5 fullgilda járnsmiði, yrðu 17 nemendur að þoka. Frá fyrirtæki no. 11, sem hefur 30 nemendur, en aðeins 4 fullgilda járnsmiði, yrðu 26 nemendur að víkja. Ég fer hér í öllu eftir því kæruskjali, sem birt hefur verið. Hugsum okkur, ef allir þeir nemendur, sem hér eru taldir, á milli 90 og 100, yrðu að hverfa frá námi, hvaða þýðingu það hefði fyrir fyrirtækin, því að margir þeirra eru að nálgast það að verða fullgildir.

Og samkvæmt löggjöfinni eru svo þessi fyrirtæki, sem yrðu að vísa nemendunum á bug eftir lögunum, skuldbundin til þess að halda þeim við nám með öllum sínum fríðindum. En þetta sýnir, hvernig lífið sjálft tekur á þessu, þróunin gengur í aðra átt en l. ætluðu, og þegar á þetta er litið, þá sé ég ekki, hve hættulegt það er að nema burtu svo óhæf ákvæði. Mér er sagt, að þeim, er kærðu, hafi eigi litizt á blikuna, þegar til kom, að reka á milli 90 og 100 nemendur frá járniðnaðarfyrirtækjum, þar sem eftirspurnin er engu minni. Í raftækjaiðnaðinum er mér sagt, að ríki hið mesta öngþveiti. Nú er svo komið, að ómögulegt er að fá fullkominn svein í vinnu, hvað sem við liggur. Það er leyfilegt að hafa 1 nemanda á móti 1 sveini. Fyrirtæki, sem hefur 10 sveina, má hafa 10 nemendur, en fyrirtækið getur ekki hindrað það, að þessir 10 sveinar fari úr vinnu og stofni fyrirtæki, og þá stendur fyrirtækið uppi með sína 10 nemendur og engan svein, og ef til vill er það þannig með þau fyrirtæki, sem ég las upp áðan. Ég hygg, að þótt hv. minni hl. hafi eitthvað til síns máls viðvíkjandi því, að skólarúmið sé lítið, þá séu þó hinir örðugleikarnir miklu hættulegri fyrir atvinnulíf landsins. En þetta er ekki eina atriði þessa máls.

Nýlega hefur því verið hreyft af einum hagfræðingi ríkisins í Kaupsýslutíðindum, og þar segir m. a.: „Löggjafinn hefur ekki einungis látið það afskiptalaust, að félög sveina og meistara ákveði tölu nemenda og þar með tölu starfandi iðnaðarmanna í grein sinni, heldur hefur hann beinlínis heimilað, að slíkt samkomulag sé gert. Samkv. iðnaðarnámslögunum frá 1938 eiga iðnaðarfulltrúarnir, sem skipaðir eru af atvinnumálaráðherra, að setja reglur um slíka samninga og staðfesta þá, að fengnu áliti sveina- og meistarafélags staðarins eða landssambands iðnaðarmanna um þörfina fyrir fjölgun í iðninni. En jafnframt segir í lögunum, að hafi félög sveina og meistara í einhverri iðngrein komið sér saman um tölu iðnnema, kaup og kjör, skuli því samkomulagi ekki raskað af iðnaðarfulltrúunum. Í viðauka við lögin, sem samþykkt voru 1940, var svo enn fremur ákveðið, að meistari megi aldrei hafa fleiri nemendur að vinnu en fullgilda iðnaðarmenn.“ Og enn fremur segir þar:

„Mundi nokkur mæla því bót, ef stungið væri upp á því, að félagsskapur íslenzkra lækna ætti að ráða því, hversu margir fengju inngöngu í læknadeild Háskólans á ári hverju?

Það er þó þýðingarmikið fyrir læknana, að þeim fjölgi ekki um of, og það er raunar ekki einungis þýðingarmikið fyrir þá, heldur þjóðfélagið allt, þar eð því getur verið samfara nokkur hætta, að mjög margir læknar gangi atvinnulausir. Eða hvað yrði sagt við því, ef stýrimenn vildu fá að ráða því, hversu margir fengju inngöngu í stýrimannaskólann og verða skipstjórar?“

Og enn segir hann:

„Nú um þessar mundir er mikið talað um rétt manna til atvinnu og menntunar og ákveðinna lágmarkstekna, og er hér jafnvel talað um að lögfesta slíkan rétt í stjórnarskránni. Væri það vissulega mikið framfaraspor og æskilegt í alla staði. En það er hins vegar engan veginn í samræmi við þessar hugsjónir, að löggjafinn heimili eða láti afskiptalaust, að ungum mönnum sé meinað að læra það verk, sem hugur þeirra girnist, og síðan stunda þá atvinnu, sem þeir hafa tilskilda kunnáttu til. Slíkt er í rauninni skerðing á frumstæðum mannréttindum, auk þess sem að því er þjóðfélagslegt tjón, að mönnum, sem vilja sérmennta sig, sé meinað það. Þjóðin þarf auðvitað á sem flestum faglærðum mönnum að halda. Eins og allar aðrar stéttir þjóðfélagsins, ættu iðnaðarmenn að eiga rétt til nokkurn veginn stöðugrar atvinnu við sómasamlegum launum, er þeir eiga ekki rétt til sérstakra tryggingarákvæða af hálfu löggjafarvaldsins umfram aðrar stéttir, sérstaklega ekki, ef af þeim er þjóðfélagslegt tjón að öðru leyti, og að þau valda því, að skertur er réttur ungra manna til þess að stunda það nám og velja sér það ævistarf, sem þeir kjósa sér.“

Mér þykir mjög vænt um orð þessa ágæta hagfræðings, sem mun vera talinn gilt vitni hjá þeim, sem hér mæla gegn því, að hliðið sé opnað fyrir ungu mönnunum. Það helzt ekki vel í hendur að vilja framkvæma meiri tæknilegar framkvæmdir en áður hefur þekkzt, en viðhalda jafnframt úreltum lögum, sem orsaka skort á mönnum, sem hafa þekkingu á að framkvæma verkið. En á þessu hefur ætíð verið klifað að gera varnargirðingu, til þess að tryggja fáeinum mönnum afrakstur af vinnunni. Það hefur einnig verið haldið fram í nafni réttlætis og mannúðar svo miklum kröfum til handa nemendunum, að meistararnir hika við að taka þá. T. d. fríðindi, svo sem ókeypis skólaáhöld og kaup fyrir þann tíma, sem þeir eru í skólanum. Þótt þetta sé náttúrlega gott fyrir nemendurna, þá getur það fælt meistarana frá því að taka þá og kenna þeim. Ég vil þó endurtaka það, að það verður að tryggja nemendunum góð skilyrði, en þó má ekki ganga of langt. Þegar þess er t. d. krafizt, að nemandinn hafi kaup þann eina klukkutíma, frá því hann yfirgefur verkstæðið og mætir í skólanum kl. 5, sem hann býr sig undir tímana á, og þetta verður svo til þess að þrengja, að nemendurnir verði teknir. Ég hygg, að þetta verði skammgóður vermir, því að námstíminn er undirbúningur undir starfið, og það fer eftir því, hvernig sá undirbúningur verður, hversu nemendurnir reynast í lífinu, og skiptir því meira en hitt, hvort þeir fá þennan klukkutíma borgaðan eða eigi. Ég legg aðaláherzluna á þau mannréttindi, að unga kynslóðin fái að velja sér sitt eigið starf. Menn hafa ótakmarkaðan aðgang að lækna- og prestaskólanum, en í iðnskólanum eru settar þessar hindranir, sem eru ólög gagnvart þeim, sem hann vilja sækja, að við viljum afnema þennan lagastaf, þótt það kosti aukningu iðnskóla. Það á að hætta að búa svo að þessum greinum, að þær kyrkist, svo að nauðsynlegt sé að flytja inn útlenda fagmenn, eins og það, er sækja þurfti sjómenn og vinnukonur til Færeyja. Það má segja, að hér sé um „princip“mál að ræða: Vilja menn hafa réttindin jöfn eða að sumir fái að velja sér ævistarf, en aðrir ekki? Að svo mæltu vil ég fyrir mitt leyti mælast til, að þessu verði ekki vísað til ríkisstj., því að það væri sama og að leggja málið á hilluna, og er ég þar af leiðandi á móti till. hv. minni hl.