02.12.1944
Neðri deild: 85. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í C-deild Alþingistíðinda. (2848)

145. mál, iðnaðarnám

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. — Ég skal ekki fara út í það, sem hv. þm. Vestm. sagði nú um tilraunir sínar 1930 eða þar um kring til þess að koma mönnum í iðnaðarnám. En ég vil benda honum á það, að hlutfallið um einn nemanda á móti einum sveini er nýtt ákvæði, — það, sem hér er lagt til að fella úr, — sem var ekki komið þá í lög.

Kæran, sem hann minntist á og var lögð til hliðar, mun fyrst og fremst hafa verið lögð til hliðar vegna þess, að heildartala nemenda í járniðnaðinum var eins og sveinanna, svo að tekið undir eitt mundi þetta standast.

Um hvatir hv. flm. í þessu sambandi hef ég ekkert sagt nokkurn tíma. Ég las aðeins það upp, sem hér er í fylgiskjali. En þau orð verða að standa fyrir ábyrgð þeirra manna, sem þau hafa skrifað.

Út af fyrirspurn hv. þm. Vestm. um það, hvort ég gæti lofað því, að frv. um breyt. á iðnlöggjöfinni, sem væntanlega yrði þá niðurstaða n., sem athugaði málið á milli þinga, yrði lagt fyrir næsta þing, get ég ekki sagt annað en það, að ég mun leggja áherzlu á það og gera það, sem í mínu valdi stendur, til þess að svo geti orðið.