02.12.1944
Neðri deild: 85. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í C-deild Alþingistíðinda. (2850)

145. mál, iðnaðarnám

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. — Ég vil segja það viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það er í sjálfu sér gott að tryggja þessi tvö atriði, sem hann minntist á, að veita sem flestum ungum mönnum aðgang að því að læra það, sem þeirra hugur stendur til, og hitt, að þeir geti stundað sína iðn, þegar þeir eru búnir að læra hana, og ekki verði frá þeim tekið tækifærið til þess að vinna áfram í henni. En í þessu máli er a og b, og undir a vil ég færa það, að áður en hægt er að tala um að tryggja ungum mönnum atvinnu við það, sem þeir hafa lært, verður að opna þeim aðgang að því að læra þetta, sem þeir eiga að lifa á. Hins vegar vil ég taka undir það með hv. 2. þm. Reykv., að um leið og maður hefur sagt a, verður maður líka að segja b í þessu máli og reyna að halda svo í horfi, að iðnaðarmenn geti haft framhaldandi atvinnu, þegar þeir eru búnir að læra. En við hvort tveggja þetta verður frelsið langbezta úrræðið, vegna þess að menn sækjast ekki eftir því til lengdar, sem enga framtíðaratvinnu veitir, heldur sækja menn í þær iðnir, sem hafa not fyrir þeirra vinnukraft framvegis. Frelsið verður í þessu efni langfarsælast úrræði.

Mér virðist hv. 2. þm. Reykv. vera fyllilega samdóma stefnu þeirri, sem kemur fram í frv.

Að því er aths. hæstv. samgmrh. snertir, þá vil ég taka það fram, að þar sem hæstv. ráðh. hefur lýst yfir, að hann vilji vinna að því eftir getu og leggja sitt lið til þess, að endurskoðun á þessari löggjöf fari fram svo tímanlega, að nýtt frv. um þau atriði, sem hér er um að ræða, og fleira viðkomandi þeirri löggjöf verði lagt fyrir næsta Alþ., þá vil ég tilkynna hæstv. ráðh. það, að meðflm. mínir að þessu frv. og ég höldum ekki þessu máli svo til streitu nú, að við viljum ekki gefa hæstv. ríkisstj. tækifæri til þess að koma með nýtt frv. um þetta mál fyrir næsta þing, og munum við ekki mótmæla því, að gefnu þessu fyrirheiti hæstv. samgmrh., að málið gangi nú til hæstv. ríkisstj., eins og lagt er til af minni hl. n. — Get ég svo látið hér staðar numið fyrir hönd meiri hl. n. og vil þá vænta þess, að árangurinn verði sá af flutningi þessa máls, að ný og betri löggjöf um þetta efni verði samþ. á næsta þingi.