25.01.1945
Efri deild: 110. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (2884)

153. mál, hafnarbótasjóður

Frsm. minni hl. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. — Hafnarbótasjóður er stofnaður með l. árið 1943. Eins og kemur fram í 1. gr. sjóðslaganna, hefur tilgangur sjóðsins verið sá að stuðla að bættum lendingarskilyrðum á þeim stöðum, sem hafa góð skilyrði til sjósóknar og framleiðslu sjávarafurða. Stofnfé sjóðsins var ákveðið 3 millj. kr. úr ríkissjóði, og síðan skyldu lagðar í sjóðinn 300 þús. kr., sem veittar hafa verið af fjárl. síðan l. voru sett. Þegar þetta frv. til l. um hafnarbótasjóð var til meðferðar á sínum tíma hér á Alþ., gerðu menn sér mjög ólíkar hugmyndir um það, hvernig fé úr sjóðnum skyldi varið, einn vildi þetta og annar hitt, og bar mjög á milli. Þessi ágreiningur varð til þess, að þeir, sem sérstaklega börðust fyrir því að fá l. um hafnarbótasjóð samþ., treystu sér ekki til þess að láta taka upp í þau l. nánari ákvæði um það, á hvern hátt fé úr sjóðnum skyldi varið. Þeim var það ljóst, að ef inn á þær brautir hefði verið farið að taka upp í l. fastar reglur um þetta atriði, hefði vel getað farið svo, að frv. hefði aldrei komizt gegnum þ. og ekki orðið að l. Þess vegna var það ráð upp tekið, að 4. gr. kveður á um, að ekki megi greiða fé úr sjóðnum, fyrr en hv. Alþ. hefði sett nánari ákvæði um fjárveitingu úr sjóðnum. Með þessu skaut hv. Alþ. því fram af sér á sínum tíma að taka ákvarðanir um þetta, og var ástæðan fyrir þessu sú, að önnur ákvæði hefðu sennilega leitt til þess, að frv. hefði aldrei komizt gegnum þingið. Þegar nú meiri hl. sjútvn. er að reyna að draga fram og gera grein fyrir því, hver tilgangur Alþ. hafi verið, þegar l. um hafnarbótasjóð voru sett, þá er meiri hl. n. sannarlega að leggja út í óvinnandi verk, vegna þess að hann hefur enga hugmynd um, hver var vilji hv. Alþ. í þessu, og allar fullyrðingar í sambandi við þessa hluti af hálfu meiri hl. sjútvn. eru því ekki á neinum rökum reistar.

Frv. um breyt. á l. um hafnarbótasjóð er borið fram af hv. þm. Borgf. í Nd. Var frv. í þeirri mynd, er það kom fram, að það var eingöngu miðað við eitt byggðarlag á landinu, en í meðförum hv. sjútvn. Nd. tók frv. þeim breyt., að það hefur að geyma ákveðnar, almennar reglur um það, með hvaða hætti megi verja fé úr hafnarbótasjóði. Eins og frv. er nú komið hingað til d., lítur það þannig út, að það heimilar hæstv. ríkisstj. að verja fé úr hafnarbótasjóði til þess að flýta fyrir aðkallandi hafnarbótum á þeim stöðum, þar sem hafizt hefur verið handa um hafnarframkvæmdir og hafnarmál og þar sem sett hafa verið sérstök hafnarlög og fjárveiting veitt til hafnarmannvirkja. — Sjútvn. þessarar hv. d., sem hefur fengið þetta frv. til athugunar, hefur ekki getað orðið á einu máli um það, hvernig málið skuli leyst. Hv. meiri hl. sjútvn. hefur lagt til, að frv. verði samþ. með breyt., og vill láta afgreiða það þannig, að það sé heimilt með sérstökum l. í hvert skipti að veita fé úr hafnarbótasjóði, enda sé í þeim l. ákveðið, hvernig endurgreiðslu úr ríkissjóði skuli hagað í hafnarbótasjóð. Ef menn athuga þessa breyt. og bera hana saman við l. um hafnarbótasjóð og við frv. eins og það kemur frá hv. Nd., sjá menn, að till. hv. meiri hl. sjútvn. er ekkert annað en grímuklædd till. um það að fella frv. eins og það liggur fyrir. L. um hafnarbótasjóð kveða svo á um, að ekki megi greiða fé úr sjóðnum nema samkv. sérstökum l., en þetta frv., sem hér liggur fyrir, miðar að því að setja almennar reglur um þetta, en brtt. meiri hl. sjútvn. ganga út á að færa frv. úr þeirri mynd, sem það er nú í, og í nákvæmlega sama farið eins og l. um hafnarbótasjóð voru í eða verra. Mér hefði fundizt það miklu hreinlegri framkoma af meiri hl. n. að segja það hreint út, að hún legði til, að frv. yrði fellt, heldur en að vera að grímuklæða till. sína með þeim hætti, sem hér hefur verið gert.

Minni hl. sjútvn. er á allt öðru máli um afgreiðslu þessa máls en meiri hl. nefndarinnar. Við erum þeirrar skoðunar, að hér sé um það nauðsynjamál að ræða, að sjálfsagt sé að afgr. frv. í því formi, sem það liggur hér fyrir í, og skal ég nú gera grein fyrir þessari niðurstöðu okkar.

Eins og kunnugt er, hefur það iðulega komið fyrir, að fjárveitingar þær, sem veittar eru til hafnarbóta á ýmsum stöðum í landinu, hrökkva ekki til þeirra framkvæmda, sem þær hafa verið ætlaðar til, og valda þessu ýmsar ástæður, er ég þarf ekki að rekja, þar sem þær eru vel kunnar. Oft er það t.d., að áætlanir, sem gerðar hafa verið, standast ekki, þegar til framkvæmdanna kemur, og að ráðast þarf í ýmislegt fleira en upphaflega hefur verið tekið með í áætluninni, til þess að verkið komi að fullum notum. Þannig er oft ráðizt í hafnarmannvirki með ákveðna fjárveitingu í höndum, sem síðan reynist ófullnægjandi, og verður afleiðingin sú, að það verk, sem byrjað hefur verið á, kemur oft að sáralitlum notum, og hafa þá verið lagðir fram fjármunir og erfiði, án þess að þeim tilgangi hafi verið náð, sem upphaflega hefur verið ætlazt til. Og oft er það, að ekki vantar mikið til viðbótar til þess að ljúka verki, sem byrjað hefur verið á, þannig að það hefði fullkomlega getað náð tilgangi sínum. — Þeim mönnum, sem með þessi mál hafa farið, hefur verið vel ljós nauðsyn þess, að ráðin verði bót á þessu. Það mun og æðioft hafa komið fyrir, að farið hefur verið fram á fjárveitingu við hæstv. Alþ., sem veitt hefur verið, og hefur orðið að gera þetta í trausti þess, að hæstv. Alþ. mundi síðar veita meira fé til framkvæmdanna, sem byrjað hefur verið á. Þetta er auðvitað neyðarráðstöfun bæði fyrir þá, sem framkvæmdarvaldið hafa yfir þessum fjárhæðum, hæstv. fjmrh. og vitamálastjóra, og einnig fyrir þá, sem þurfa að þiggja. Þetta er í fyrsta lagi ekki í samræmi við gildandi reglur, þótt oft sé nauðsynlegt að brjóta l., auk þess sem oft eru erfiðleikar á að koma þessu fram, þó að um mestu nauðsyn sé að ræða. Þess vegna hafa þeir, sem um þessi mál hafa hugsað og hafa orðið við þetta að búa, verið að leita eftir einhverri leið til þess að bæta úr þessu, þannig að hægt væri að hlaupa undir bagga. Hefur þá fyrst orðið fyrir að leita til hafnarbótasjóðs, sjóðsins, sem einmitt var stofnaður í þeim tilgangi að hlaupa undir bagga, þegar um er að ræða nauðsynlegar umbætur á hafnarmannvirkjum, sem ekki er næg fjárveiting fyrir. Minni hl. sjútvn. telur sjálfsagt, að fara beri inn á þessa braut, og telur sig hafa fyrir því fullgild rök.

Mér virðist þau andmæli, sem hér hafa komið fram af hálfu hv. meiri hl. n., vera mjög úr lausu lofti gripin og hafa ekki við nein rök að styðjast. Aðalröksemdin, sem hv. meiri hl. ber hér fyrir sig, er sem sé sú, að það sé í ósamræmi við l. og vilja hæstv. Alþ., ef þetta frv. verður samþ. Ég hef hér áður bent á, að þessar fullyrðingar ná ekki nokkurri átt, vegna þess að hvorki hv. meiri hl. né nokkur annar getur sagt um vilja hæstv. Alþ. á þessum tíma, þar sem það tók ekki ákvarðanir um, hvernig fé úr hafnarbótasjóði skyldi varið. Enn þá fráleitari virðist mér sú mótbára hv. meiri hl., að verið sé að brjóta 1. gr. hafnarbótasjóðsl., ef 4. gr. verður breytt eins og hér er lagt til. Þessar fullyrðingar eru í mínum augum það fráleitar, að ég held, að hv. meiri hl. n. hafi ekki athugað málið nægilega vel, þegar hann sló þessari fullyrðingu fram, því að ein grein í l. getur að sjálfsögðu ekki verið brot á annarri.

Þá er þriðja atriðið, sem hv. meiri hl. leggur mikla áherzlu á. Hann heldur því fram, að ef frv. verður samþ. óbreytt, hafi ríkisstj. fengið í sínar hendur frá Alþ. mikið ótakmarkað fjárveitingarvald í sambandi við hafnargerðir, þannig að hún hefði bundið hendur Alþ. um ófyrirsjáanlegan tíma í sambandi við önnur hafnarmannvirki í landinu. Ég verð að segja það, að ég á ekki gott með að skilja þessar röksemdir, og virðast mér þær algerlega úr lausu lofti gripnar, vegna þess að það er síður en svo, að ríkisstj. fái með þessu vald á nokkurn þann hátt, eins og hv. meiri hl. sjútvn. vill halda fram. Það er einmitt tekið greinilega fram í sjálfu frv., sem hér liggur fyrir, að ríkisstj. hafi því aðeins vald til þess að verja fé úr hafnarbótasjóði til hafnargerða, í fyrsta lagi, að sett hafi verið hafnarlög fyrir viðkomandi stað, í öðru lagi, að fjárveiting hafi verið veitt í fjárl. til þessara hafnargerða, en að sú fjárveiting hafi ekki hrokkið til. M.ö.o., ríkisstj. getur ekki veitt fé úr hafnarbótasjóði samkv. frv. nema hæstv. Alþ. hafi lýst því yfir, að það vilji, að ákveðin höfn sé byggð og að úr ríkissj. verði veitt fé til þess að byggja þessa höfn. Ég fæ ekki betur séð en að með þessu grundvallarskilyrði séu hendur ríkisstj. svo bundnar, að hennar vald í þessum efnum sé það eitt að sjá um, að sá vilji, sem Alþ. hefur látið í ljós með hafnarl. og fjárveitingum, komist til framkvæmda, og með því frv., sem hér liggur fyrir, er í raun og veru verið að fela ríkisstj. að sjá um, að ekki þurfi að stöðva hafnargerðir, sem hæstv. Alþ. hefur ákveðið að gera skuli, ef þessar fjárveitingar hrökkva ekki til. Hér er því ekki verið að gera annað en að skapa ríkisstj. möguleika til þess að sjá um að framkvæma vilja Alþ., og fæ ég ekki séð, að verið sé að gefa ríkisstj. annað vald en hún nauðsynlega verður að hafa.

Hv. meiri hl. sjútvn. hefur tekið upp í nál. sínu stóra töflu og mikla útreikninga í sambandi við þetta mál, sem eiga að sýna yfirlit yfir inn- og útgreiðslur sjóðsins næstu ár, ef þetta frv. verður samþ. Ég nenni ekki að vera að eltast við þessa töflu og tel það óþarfa, vegna þess að allir þessir útreikningar eru byggðir á svo þröngum grundvelli, að þeir ná ekki nokkurri átt. Hv. meiri hl. sjútvn. miðar útreikninga sína við það, að ríkisstj. þurfi endilega á hverjum tíma að nota til fullnustu alla þá heimild, sem hún hefði samkv. frv. til þess að verja fé úr hafnarbótasjóði. En hver er kominn til þess að segja, að ríkisstj. þurfi að nota þessa heimild til fullnustu? L. gera ekki ráð fyrir slíku. L. gera ráð fyrir því, að þegar fjárveitingar hrökkva ekki til ákveðinnar hafnargerðar, hafi ríkisstj. heimild til þess að hlaupa undir bagga. Ég geri ráð fyrir því, að það sé fráleitt að láta sér til hugar koma, að það þurfi endilega að vanta þar svona mikið upp á fjárveitingar, að þetta verði alltaf notað út í yztu æsar. Að minnsta kosti hefur hæstv. Alþ. óbundnar hendur til þess að ráða þessum málum og sjá um, að ekki þurfi að nota meira en Alþ. sýnist af þessu hafnarbótafé með sínum fjárveitingum. Hæstv. Alþ. getur séð um þetta í sambandi við fjárveitingar og ætti því að sjálfsögðu að geta haft hönd í bagga með þessum málum.

Það var minnzt á það af frsm. meiri hl. sjútvn., hv. þm. Barð., að það væru ýmsar hafnir, sem hér kæmu til greina, og óskað eftir yfirlýsingu um það frá hæstv. samgmrh., hvað hann mundi gera í sambandi við fjárveitingar um þessa hluti. Ég ætla ekki að fara að ræða sérstaklega þá hluti, en hef heyrt tilnefnda ýmsa staði í sambandi við þetta, sem gætu komið til athugunar, t.d. Keflavík, Akranes, Vestmannaeyjar, Höfn í Hornafirði, Akureyri, Húsavík, Norðfjörð og ýmsa aðra staði, en geri ekki ráð fyrir því, að neinar upplýsingar liggi fyrir um það, hve mikið fé þarf að nota í sambandi við þessa hluti. En einn stað langar mig þó til að minnast sérstaklega á út af því, sem hv. frsm. sagði, og er það Akureyri. Hv. frsm. virðist standa í þeirri trú, að verði þetta frv. samþ., geti Akureyri ekki komizt undir l., þannig að Akureyri gæti út af fyrir sig ekki átt rétt á að fá styrk úr hafnarbótasjóði, ef bærinn þyrfti á að halda. Hann byggir þessa skoðun sína á því, að 1. gr. l. útiloki Akureyri. Ég verð að segja það, að mér er þessi niðurstaða hans alveg óskiljanleg. Mér er óskiljanlegt, að hv. frsm. meiri hl. skuli halda því fram í alvöru, að höfuðstaður Norðurlands liggi þannig að sjó, að hann geti ekki talizt góður til sjósóknar og framleiðslu sjávarafurða, og er þetta allt önnur hugmynd en menn hafa almennt gert sér um legu Akureyrarkaupstaðar. Ég hef einmitt talið, að Akureyri væri ein af aðalhöfnum landsins, og gæti sú höfn, mörgum öðrum höfnum fremur, talizt ágæt til sjósóknar og framleiðslu sjávarafurða, þannig að af þeirri ástæðu er mér það alveg óskiljanlegt, ef Akureyri er útilokuð frá að njóta hlunninda samkv. frv. Hitt er svo annað mál, hvort Akureyri þarf á þessu að halda, það er mér ókunnugt um, en vegna þess að hv. frsm. meiri hl. sjútvn. fór sérstaklega að minnast á Akureyri, vildi ég ekki láta þeim ummælum hans ómótmælt.

Ég held, að það sé ekki ýkjamargt fleira, sem ég þarf að taka fram í sambandi við þetta frv. Við, sem erum í minni hl. sjútvn., teljum, að hér sé um það mikið nauðsynjamál að ræða, að sjálfsagt sé að afgreiða þetta frv. eins og það liggur fyrir, og það sem fyrst, til þess að gefa hæstv. ríkisstj. möguleika til þess að sjá um, að vilji hæstv. Alþ. verði framkvæmdur í sambandi við hafnarbætur. Við getum ekki fallizt á þær mótbárur, sem fram hafa komið gegn frv. af hálfu hv. meiri hl. sjútvn., og leggjum sérstaka áherzlu á, að samþykkt brtt. hv. meiri hl. sjútvn. er í raun og veru ekkert annað en að fella það frv., sem hér liggur fyrir.