25.01.1945
Efri deild: 110. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (2885)

153. mál, hafnarbótasjóður

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. — Frsm. minni hl. sjútvn., hv. 9. landsk. þm., hefur nú að vísu tekið af mér ómak með sinni skýru ræðu, sem hann flutti hér síðast og ég get tekið undir að langsamlega flestu leyti. En mér þykir hins vegar hlýða, vegna þeirrar fyrirspurnar, sem frsm. meiri hl. sjútvn., hv. þm. Barð., bar hér fram til mín, að segja um málið nokkur orð. Enn fremur skal ég gera það ljóst þegar í upphafi, að frv., í þeirri mynd, sem það nú er, er samið að miklu leyti í samráði við mig og með minni vitund og samþykki. Álít ég þess vegna, að mér beri að standa til svars um þau atriði, sem að hefur verið fundið.

Ég skal ekki fara að rekja tilganginn með l. um hafnarbótasjóð frekar en gert hefur verið, það er sjálfsagt ekki hægt að komast nær því, hvað vakað hefur fyrir hæstv. Alþ. í einstökum atriðum, þegar það setti l. um hafnarbótasjóð, heldur en það, að í stórum dráttum og á breiðum grundvelli má segja, að það hafi vakað fyrir hæstv. Alþ. að styrkja í einhverju formi þá, sem áttu erfitt um að koma sínum hafnarbótaframkvæmdum á veg. Því var aldrei slegið föstu og þess vegna er ekki endanlega hægt að segja um, hvernig þetta yrði gert, sérstaklega hvort það yrði gert eins og tillögumenn hugsuðu það í upphafi og kom fram í fyrsta frv. um hafnarbótasjóð, að leggja fram viðbótarframlög, eða þetta yrði gert á einhvern annan hátt. Hins vegar smeygði hæstv. Alþ. fram af sér að taka ákvarðanir um, hvernig fé skyldi veita úr hafnarbótasjóði. Nú kom fram á þessu þingi fyrsta frv., sem komið hefur fram um notkun á fé sjóðsins. Það var frá hv. þm. Borgf., og fór fram á 1 millj. kr. úr sjóðnum, sem skyldi varið til hafnargerðar á Akranesi. Það er alveg augljóst mál, að hefði verið farið inn á þá braut, sem það frv. markaði, þá hefði saga þessa hafnarbótasjóðs ekki orðið löng, því að hann hefði orðið uppurinn, ef til vill ekki á þessu þ., en hann hefði ekki enzt mörg þ., ef féð hefði verið notað eins og það frv. gerði í upphafi ráð fyrir. En því var breytt, og eftir ýmsar bollaleggingar endaði það í því formi, sem hér hefur verið lýst og nú liggur hér fyrir og ég átti nokkurn hlut í, eins og ég hef áður tekið fram.

Ég skal þá í stuttu máli reyna að gera grein fyrir því, hvernig á því stóð, að ég fylgi þeirri stefnu, sem frv. kveður á um, eins og það er nú. Það hagar nú svo til um flestar hafnargerðir hér á landi, að þær eru á okkar mælikvarða það stór mannvirki, að erfitt er að vinna að þeim í einu lagi eða ljúka þeim á einu sumri, en venjulegur vinnutími við hafnargerðir er ekki nema sumartíminn, og þess vegna er ekki hægt að ljúka þeim, þar sem um nokkuð stór mannvirki er að ræða. Hins vegar er það afar æskilegt oft á tíðum, að unnt sé að vinna ákveðinn hluta af framkvæmdunum á einu sumri, og þess vegna miklu ódýrara að geta unnið verkið á stuttum tíma en að draga það í langan tíma. Verða framkvæmdirnar beinlínis dýrari við að dragast á langinn, þar sem ýmis kostnaður verður af að hefja starf og ljúka því. Einnig verður óbeint tjón af því, að framkvæmd verksins dregst, vegna þess að þá er ekki hægt að taka mannvirkið til afnota. Þetta hefur valdið því, að ýmis verk hafa verið unnin hér miklu örara en fjárveitingar hafa verið veittar til þeirra af hæstv. Alþ., og þegar fjárveitingar hafa verið veittar til þessara framkvæmda, hefur það beinlínis verið vitandi vits, að þær mundu ekki duga. Það eru dæmi um það, að liðið hafa 10 ár, sem ýmsir staðir hafa orðið að bíða með að fá fjárframlög sín til þess að ljúka hafnargerð sinni, og enn þá er einn staður á landinu, þar sem gert er ráð fyrir, að fjárveiting til verks, sem unnið var 1941, verði ekki greidd að fullu fyrr en árið 1950. Þetta var nokkuð algengt áður fyrr, en síðan fjárhagur ríkissjóðs rýmkaðist, hefur stórum dregið úr þessari aðferð, en samt er þetta til enn þá. Þetta kemur líka til af því, að ýmsir sækja nokkuð fast að fá styrk til hafnarmannvirkja, af því að þeir halda, að fjárhagur ríkissjóðs verði ekki eins góður á næsta ári og að ekki sé óhætt að láta dragast að fá fjárveitingu, og leggja því meira kapp á að fá hana en að framkvæma hafnargerðina. Þetta verkar svo þannig í heild, að ekki er hægt að veita til allra staða nægilega mikið fé til þess að ljúka verki, sem á að ljúka yfir sumarið. Var þetta m.a. ástæðan fyrir því, að hv. þm. Borgf. bar fram frv. sitt um að veita fé úr sjóðnum til hafnargerðar á Akranesi, og er eðlilegt, að ýmis óánægja skapist út af þessu.

Því hefur verið haldið fram af hv. þm. Barð., að með þessu séu bundnar hendur Alþingis og fjárveitingarvaldið fært í hendur ráðherra. Það er ekki svo nema að nokkru leyti, því að svo er ákveðið í frv., að ekki megi lána fé til annarra hafna en þeirra, sem hafnarlög hafa verið sett um. Nú hefur það oft tíðkazt, að á ári hverju hafi verið greiddur viss hluti af ákveðinni heildarupphæð: 1/2, 1/3, 1/4 og þar fram eftir götunum, eða svipað þessu virðist mér gert ráð fyrir í frv. þessu. Þó hefur verið gefin ráðherraheimild, ef með þyrfti. Ráðherra eru því skorður settar.

Hv. þm. Barð. beindi til mín fyrirspurnum, sem ég vil leitast við að svara. Hv. þm. spurði, hvort fé yrði veitt úr ríkissjóði í ár til Akraness. Því er þar til að svara, að ef frv. verður samþykkt, geri ég ráð fyrir, að svo verði. Ég geri ráð fyrir, að heimildin verði notuð, svo framarlega sem hún fæst samþ. og önnur nauðsynleg skilyrði verða fyrir hendi. En allt er í óvissu um, hvað hægt verður að vinna, og fer það mjög eftir því, hvernig gengur að útvega efni til framkvæmdanna.

Í öðru lagi spurði hv. þm., hvert annað yrði veitt lán. Því get ég ekki svarað á þessu stigi málsins, það fer mjög eftir því, hvernig þessum stöðum gengur að útvega efni. Hv. þm. spurði, hvort fé mundi verða veitt til Akureyrar, ef til kæmi, og virtist hann telja 1..gr. frv. því til hindrunar, vegna þess að sá staður, sem láns yrði aðnjótandi, þyrfti bæði að liggja vel við sjósókn og framleiðslu. En eins og hv. 9. landsk. (GÍG) tók fram, má deila um, hvort Akureyri uppfylli ekki þessi skilyrði. Ég tel, að veita megi lán úr sjóðnum, án þess að taka 1. gr. til fullra greina. Aftur er það sett fram í 4. gr., hvaða aðstæður þurfi að vera fyrir hendi til þess að lán megi veita. Það er þess vegna hægt, án þess að tekið sé tillit til aðstöðu til sjósóknar. Getur því Akureyri komið til álita til jafns við aðra staði.

Ef öllu, sem hv. þm. Barð. spurði um, er ekki fullsvarað með þessu, skal ég leitast við að svara því, eftir því sem ég get. Ég skal aðeins benda hv. þm. Barð. á, að umframgreiðslur hafa oft átt sér stað bæði til brúa- og vegagerða, og geta ýmsar ástæður legið til þess. En þótt þetta hafi verið venja, að minnsta kosti á síðari áratugum, getur hv. þm. séð, að ekki hefur miklu verið eytt í umframgreiðslur. Ég mun gera mitt til, að sama regla verði höfð í framtíðinni. En um það fé, sem varið hefur verið í umframgreiðslur vegna vega- og brúagerða, er það að segja, að þar hefur verið syndgað upp á náðina. Ég tel því heilbrigðara að hafa heimild til þess að inna slíkar greiðslur af hendi en að hafa hana enga og nota féð samt.

Hv. 9. landsk. tók ýmislegt fram og réttilega af því, sem ég vildi sagt hafa. Ég vil aðeins segja að lokum, að mér sýnist ekki, að ríkissjóði sé bundinn neinn óhóflegur baggi í framtíðinni, jafnvel þótt heimildin verði notuð upp í topp. Það er hér um 2 millj. kr. að ræða eða 2/3 úr millj., sem þyrfti að borga út til þess að fá þessa upphæð inn aftur. Margar slíkar greiðslur hafa átt sér stað á fjárlögum, og tel ég þessa upphæð, 2/3 úr millj., sízt hærri upphæð en oft áður hefur verið bundin á þennan hátt af Alþingi.