25.01.1945
Efri deild: 110. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (2889)

153. mál, hafnarbótasjóður

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Með þessu frv. eru ráðh. gefnar frjálsar hendur um fjárveitingar úr hafnarbótasjóði og tekið alveg fram fyrir hendur Alþ. Ég vil benda á, að þessi ráðstöfun getur verið mjög varhugaverð. Ég veit ekki um þann hring, sem skapaður hefur verið um þetta mál, en hitt veit ég, að hv. þm. Borgf., sem flytur frv. á þskj. 380, hefði ekki gert sér að góðu að láta það frv. bíða eða falla, nema hann gæti á þennan hátt fengið þá upphæð, sem hann fer fram á þar, að veitt verði úr ríkissjóði til framkvæmda í kjördæmi hans.

Hæstv. ráðh. sagðist geta undirstrikað það, sem hv. 9. landsk. sagði í ræðu sinni áðan, og vil ég því fara dálítið inn á þau rök, sem hann bar á borð. En ég veit ekki, hvaðan hv. þm. grípur þau rök, sem hann kemur hér með. Hv. 9. landsk. á sæti í sjútvn. Ed. Þar var ekkert rætt um þetta atriði. Þar hefur ekkert verið um það sagt, að sameiginlegt álit sé fengið. Hv. 9. landsk. getur af þessu séð, að þessi rök eru bókstaflega tekin úr lausu lofti gegn betri vitund í trausti þess, að þessi skjöl liggi ekki hér fyrir sem sönnunargögn, og ef öll sönnunargögn hv. 9. landsk. eru byggð á sama grundvelli, þá undrar mig, að hæstv. ráðh. vilji undirstrika þau og gleypa þau eins og nýja beitu í þessu máli.

Hann segir, að meiri hl. sé að leggja út í óvinnandi verk, þegar hann ætli að sanna, að verið sé að leggja byrðar á ríkissjóð í framtíðinni með fjárveitingum úr sjóðnum. Ég held, að hv. 9. landsk. hafi ekki lesið þá töflu, sem hann minntist á, en treysti sér ekki á nokkurrar handar máta til að hrekja, því að hún sýnir glöggt, að ef heimildin er notuð til fulls, þá er stefnt út í það, sem skýrt er í þeirri töflu. Það má halda því fram, að ekki eigi að nota heimildina til fulls, en hvað á þá að gera við sjóðinn? Á þá að semja einhverjar aðrar reglur um það, sem eftir er? Ég get fullvissað hæstv. ráðh. um, að þetta fé verður notað til fulls, ef ekki í hans tíð, þá í tíð einhvers annars ráðh., sem þá tekur við. Og þó að hæstv. ráðh. geti fært rök fyrir því, að á undanförnum árum hafi ekki farið fram neinar aukagreiðslur, þá sýnir það aðeins, hversu vel hann persónulega fer með þetta fé, og ég hefði getað fullkomlega treyst á hann að gera það hér, að svo miklu leyti sem hann megnar, en það þarf ekki lítið afl til að standa á móti, þó að það sé veikari hringur en hér hefur verið sleginn. Ég er ekki viss um, að það varnarvirki, sem hann hefur hlaðið um sig, standist þá stórskotahríð, sem á hann verður hafin af hv. 9. landsk. og hv. þm. Borgf. til að fá það, sem þeir þykjast hafa fulla heimtingu á. Hv. 9. landsk. segir, að till. okkar séu aðeins grímuklædd tilraun til að fella frv. Þær eru tilraun til að opna augun á þeim, sem vilja ekki sjá, hvert hér er stefnt. Mig undrar ekkert, þegar hv. 9. landsk. er búinn að fá sinn hlut, að þá snúi hann við blaðinu og segi: Nú er ekkert vit í að halda þessu áfram, því að nú er ég búinn að fá mitt. — Þetta er að vera umboðsmaður fyrir sína kjósendur, en það er ekki að vera umboðsmaður fyrir þjóðina í mikilvægum landsmálum.

Ég vil spyrja: Hvað segði hæstv. ráðh. og Alþ. um það, ef ætti að fara eins með raforkusjóð, ef farið væri að koma með frv. um að skipta honum á líkan hátt og hér á að gera? Ekki er þörfin minni þar og ekki ólíklegt, að hægt væri að fara eins með þann sjóð. Næst kæmu svo framlög til vega og brúa á sama hátt, allt ætti að fara í sama farveginn, m.ö.o. allt fjárveitingarvaldið yrði tekið úr höndum þingsins og sett í hendur stj., því að hér er verið að skapa fordæmi, sem ekki er hægt að benda á með neinum rökum, að ekki megi fylgja í öðrum greinum.

Þá vil ég einnig spyrja hæstv. ráðh.: Hvernig er það með tekjuöflunarmöguleika þeirra hafna, sem hér um ræðir? Ég vil benda á, að í hverjum einustu l. um lendingarbætur, sem aðeins snerta mjög fátæka hreppa, sem hafa sáralitla tekjuöflun, þar er sett skilyrði fyrir framlagi og ábyrgð ríkissjóðs að greiða 6% af afla inn í hafnarsjóð eða lendingarbótasjóð. Mér er kunnugt um, að á Akranesi er þetta gjald ekki nema 1–2% og sama í Keflavík, og á Akranesi er þetta ekki einu sinni tekið. Er ekki ástæða til, ef veita á sérstaklega til þessara hafna, að rannsaka, hvort tekið sé að fullu það gjald, sem heimilt er, og ef það er tekið, hvort hafnirnar geti staðið undir þessum framkvæmdum? Og þó að 1–2% á Akranesi þyki þungur skattur, þá er hann samt léttari en 6% hjá þeim, sem eru að byggja austur á Borgarfirði og viða annars staðar, því að 6% geta ekki verið þyngri hjá þeim, sem veiða vel, en hjá þeim, sem veiða illa. Ég væri til með að setja inn það ákvæði, að ekkert væri veitt úr þessum sjóði nema viðkomandi höfn fengi heimild til að taka 6% og notaði hana að fullu, því að mér skilst, að það sé réttlátt, að sömu menn í sama landi verði að búa við sömu l., en hér er ekki ætlazt til þess.

Hæstv. ráðh. leggur sig svo fram að andmæla því, sem við höfum sýnt fram á með rökum, hvernig fari með þetta fé, að þau rök, sem hann greip til, voru með öllu ranglát og gripin úr lausu lofti. Það er hægt að segja slíkt fyrir héraðsdómara, þar sem menn hafa tekið að sér að verja mál, hvort sem það er rétt eða rangt, en það er ekki hægt að taka slíkt til greina sem rétt rök í svona máli. (BBen: Eru héraðsdómarar allra manna ómerkilegastir?) Nei, en þar hefur það stundum verið borið fram, sem af dómara hefur ekki verið tekið gilt, og ég hef oft verið staddur í rétti, þar sem svona lagað hefur verið borið fram, og ég sé vel, úr hvaða skóla þessi hv. þm., 9. landsk., kemur. Hann sagði, og það var endurtekið af hæstv. samgmrh., að samkv. l. sé ekki heimilt að veita fé úr sjóðnum til hafnargerða, fyrr en búið sé að veita fé til þeirra úr ríkissjóði. En hvað ætli þessar millj. entust lengi, ef ætti að fara að veita fé úr sjóðnum til allra hafnargerða, sem ekki hafa fengið allt uppfyllt? Ég gæti trúað, að það yrðu nokkuð margar millj., ef ætti að uppfylla allar þær kröfur. Þetta eru því engin takmörk á því, sem veita megi úr sjóðnum, því að það er sýnilegt, að sjóðurinn er ekki nema brot af því, sem af honum verður krafizt, því að nú er búið að ákveða margar nýjar hafnir og lendingarbætur, svo að skiptir millj. kr., en þar er sagt, að þær framkvæmdir skuli gerðar eftir því, sem fé er veitt í fjárl., en hér eru engin takmörk fyrir, hvað ráðh. getur greitt úr sjóðnum, meðan þar er nokkur eyrir eftir. Og ég veit það, að ef þessi lagasetning verður gerð, þá mun hæstv. ráðh. sjá, hvort ekki koma alls staðar fram, hvarvetna af landinu, kröfur um að fá fé úr þessum sjóði til hafnarbóta.

Hv. 9. landsk. segir, að með þessu væri verið að fela hæstv. stj. að framkvæma þann vilja, sem kemur fram í frv. Þetta er alveg rangt. Það getur ekki verið, að verið sé að framkvæma vilja Alþ., þegar verið er að fyrirbyggja, að Alþ. geti staðið undir nauðsynlegum fjárgreiðslum til nauðsynlegra framkvæmda í framtíðinni, en það er það, sem verið er að hefta með þessu frv., ef að l. verður.

Þá var rætt dálítið um Akureyri í sambandi við þetta mál. Ég vil segja, að skýring hæstv. ráðh. kann vel að standast, mér þykir það ekki ólíklegt. En það sýnir, hvernig farið er enn þá fjær frá upphaflegu hugmyndinni, ef þetta er samþ., því að þá er að engu gerð 1. gr. frv. með skýringu hæstv. ráðh. á henni, sem ég raunverulega tek alveg gilda. Það má vera, að hann hafi rétt fyrir sér, að ef þetta er samþ., þá megi veita fénu í allar hafnir, sem ekki er hægt að róa frá, þó að ég þekki ekki þær hafnir. Hér er því alveg kippt burt þeim grundvelli, sem lá fyrir, þegar sjóðurinn var stofnaður, og þá mætti alveg eins veita fénu til búnaðarframkvæmda, því að það er ekki neitt meiri munur á því og því, sem hér er gert. Og ef Akureyri uppfyllir þessi skilyrði, þá gera allar hafnir það, því að það er engin höfn, sem lengra er að sækja sjó frá. (BSt: Það er veiddur fiskur þar inni í höfninni.) Það er alls staðar hægt að veiða, það er hægt að veiða á Þingvallavatni. En þegar um það er að ræða að sækja á mið, þá er engin höfn, sem síður getur fallið undir þetta en Akureyri.

Ég ætla þá að láta þetta nægja viðvíkjandi hv. 9. landsk., en skal þá aðeins fara inn á það, sem hæstv. ráðh. sagði. Hann sagði, að ekki hefði þurft að gera ráð fyrir, að sjóðurinn hefði orðið langlífur, ef frv. hv. þm. Borgf. hefði verið samþ. Það er ómögulegt um það að segja, en ég er þeirrar skoðunar, að það hafi fyrst og fremst vakað fyrir Alþ., að það fé, sem yrði til ráðstöfunar úr sjóðnum á sínum tíma, ætti ekki að grafast í jörð, heldur að vera notað til að hjálpa fram yfir það, sem veitt væri beint úr ríkissjóði. Hitt var ósamið um, hvernig ætti að styrkja þessar hafnir, hvort ætti að gera það með lánum, og það teldi ég ekki óeðlilegt, að þessar hafnir fengju féð sem vaxtalaust lán, sem sjóðurinn fengi endurgreitt aftur. Þá veit ég, að sjóðurinn mundi vaxa og yrði að lokum lífvænlegur. Hér er aftur á móti sköpuð kyrrstaða með fé sjóðsins og ríkissjóði íþyngt svo, að hann getur ekki staðið undir öðrum nauðsynlegum framkvæmdum.

Hæstv. ráðh. skýrði greinilega, að æskilegt væri, að hægt væri að vinna sama verkið á einu og sama ári. Það er rétt, en það á að vera á valdi Alþ., hvort og hvar það er gert. Í sambandi við það vil ég leyfa mér að spyrja, hvernig muni verða hægt að framkvæma það í framtíðinni, þegar ríkissjóður getur ekkert lagt til þessara mála annað en það lögboðna iðgjald í hafnarbótasjóð. Þá verður ekkert til nema það, sem greitt er úr sjóðnum, og þá verður allt komið undir velvilja hæstv. ráðh. á hverjum tíma, og líklega verður það strax á næsta ári, að ríkissjóður verður að endurgreiða þetta fé, og tel ég það út af fyrir sig miklu skynsamlegra.

Við þurfum ekki að halda, að möguleikar til að styðja góðar hafnarframkvæmdir vaxi, þó að ríkið láti fé úr þessari skúffu í aðra skúffu og taki það síðan úr henni og láti í framkvæmdirnar. Munurinn er aðeins sá, að ef það er tekið úr þessari skúffu, þá ræður Alþ. ráðstöfuninni, en ef það er tekið úr hinni, þá ræður ráðh. því. Ég veit, að hæstv. ráðh. er svo mikill reikningsmaður, að hann sér, að það eru engin rök í málinu og að þetta bætir ekki að neinu leyti úr þörfinni, enda viðurkenndi hæstv. ráðh., að þetta væri rétt og að veitingarvaldið væri að nokkru leyti tekið úr höndum Alþ., og það er sannleikurinn, að veitingarvaldið er tekið af Alþ., allt, ef ríkissjóður getur ekki látið nema framlagið til sjóðsins, en takmarkað, ef hann getur látið meira, eins og hæstv. ráðh. viðurkenndi, og það eitt er nægilegt til umhugsunar um, hvort ekki ætti að fella þetta mál.

Hæstv. ráðh. svaraði fyrirspurn minni þannig, að hann vissi ekki sjálfur, hvernig þessu fé yrði varið, því yrði varið, eftir því sem þörf væri á og um væri beðið til þeirra staða, sem þyrftu þess með. Þetta er nægileg upplýsing um það, að þetta fé verður allt notað að yztu mörkum. Við vitum það, sem eigum mikið ógert í þessum málum. Ég tel það skjóta skökku við, þegar hæstv. stj. hefur sett sér það mark að láta vinna mjög takmarkað að vegagerð, af því að það sé svo dýrt, og telur betra að geyma féð, þar til tímar kynnu að verða betri, en í þessu máli á að fara inn á þá stefnu að taka víxil til þriggja ára út á óvissar og óþekktar tekjur ríkissjóðs á þeim tíma til að flýta fyrir hafnargerðum, og vita þó allir, að þar er kostnaðurinn margfalt meiri. Það veit enginn, hvað við fáum fyrir 800 þús. kr. árið 1948, en þær 800 þús. kr., sem við fáum lánaðar á þessu ári, verða að greiðast aftur árið 1948 með 800 þús. kr., og þá er það kannske tvö- eða þrefalt, og kannske verður þá breyttur gjaldmiðill og kannske komnar nýjar aðferðir við hafnargerðir með nýjum vélum. Hvernig sem þessu er velt fyrir sér, þá er það hreinasta glapræði að fara þannig með hafnarbótasjóð.

Ég sé svo ekki ástæðu til að svara hæstv. ráðh. fleiru. Ég þakka honum fyrir skýr svör. Ég vil aðeins benda á, að meiri hl. leggur til, að 4. gr. l. verði orðuð um, því að þá verður það þó ákveðið, hvað mikið á að láta úr sjóðnum og hvernig endurgreiðslurnar eiga að fara fram, því að ég tel óheimilt og óviðunandi að fara að eyðileggja tilgang 1. gr. l. með annarri gr. Það er svo mikil fjarstæða, að ég er hissa á, að hæstv. ráðh. skuli leggja til, að það verði gert, sérstaklega eftir þann nýja skilning, sem hann hefur öðlazt á greininni. Verði frv. samþ. óbreytt, mun ég að sjálfsögðu bera fram brtt. við 3. umr. um að fella alveg niður endurgreiðsluskylduna. Ef það á að vera á valdi ráðh. að veita þessar viðbótargreiðslur til hafnargerða, þá er ekkert um það að segja, en að það sé á valdi ráðh., hvenær á að greiða féð til baka til að fyrirbyggja aðrar nauðsynlegar framkvæmdir, það er gersamlega óviðunandi.