09.03.1944
Efri deild: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

27. mál, skipun læknishéraða

Frsm. minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. — Eins og ég tók fram við 2. umr. þessa máls, sé ég mér ekki annað fært en koma með brtt. þá, sem prentuð er á þskj. 191, fyrst ekki varð sú niðurstaða hér í hv. d. að hverfa frá fjölgun læknishéraða að sinni. En brtt. á þskj. 191 er þess efnis, að stofnuð verði ný læknishéruð í viðbót með því að skipta læknishéruðum.

Fyrri till. er um, að stofnað verði nýtt hérað, sem nefnist Suðureyrarhérað og í verði Suðureyrarhreppur, og verði þar læknissetur á Suðureyri við Súgandafjörð. — Íbúarnir þarna eiga yfir mjög erfiðan fjallgarð að fara til læknis, ef ekki er hægt að vitja læknis á sjó, en sjóleiðin er oft lokuð vegna óveðra. Ég verð því að telja, að það sé sízt minni, heldur ríkari ástæða til þess að hafa þarna sérstakt læknishérað og sérstakan lækni en á ýmsum öðrum stöðum, sem ástæða hefur þótt til að hafa sérstakan lækni á. Það hafa þrásinnis legið fyrir till. um stofnun læknishéraðs á Suðureyri, en ekki hefur þótt tiltækilegt að sinna þeim. En um það verður öðru máli að gegna, þegar horfið er inn á þá braut, sem hér er gert í meðferð þess máls, er hér liggur fyrir. Það hefur þótt ástæða til þess að hafa þarna á Suðureyri læknisfróða manneskju, þar sem greidd hafa verið laun hjúkrunarkonu, er þarna hefur setið, einmitt með tilliti til þess, hve erfitt er þarna að ná til læknis.

Þá legg ég til á sama þskj., að stofnað verði nýtt hérað, Raufarhafnarhérað, sem skuli ná yfir þær sveitir, er þar greinir, en Öxarfjarðarhérað minnka sem því svarar. — Þetta er eitthvert víðlendasta hérað landsins nú og eitt þeirra fáu héraða, sem engar bifreiðaferðir geta verið um. Mjög er langt að sækja lækni til Þórshafnar, og þar er enginn bílvegur á milli. Að vísu er hægt að komast til Kópaskers á bíl miðpartinn úr sumrinu með geysilega miklum kostnaði. Þessi staður, Raufarhöfn, er eitthvert mesta athafnasvæði landsins á sumrin. Þar er síldarverksmiðja, sem getur brætt 5000 mál á hverjum degi. Er þar mannmargt í landi auk þess mikla fjölda manna, sem er á þeim síldveiðiskipum, er sækja þangað inn á hverju sumri. Ég hygg því, að fáir staðir séu á landinu, þar sem fremur er ástæða til að setja nýjan héraðslækni, og fyrst farið er að gera stórar breyt. á læknaskipun, er óhæfilegt að fella þetta hérað undan.

Ég vil láta þess getið, að samkomulag varð um að leggja til að afgr. þetta mál ekki nú, heldur láta fara fram heildarrannsókn til að byggja læknaskipunina á. En þar sem málið hefur fengið þá afgreiðslu í d., sem orðið hefur, þá tel ég ekki annað fært en gera þær breyt., sem felast í till. mínum, ef frv. á að ná fram að ganga.

Ég mun greiða brtt. hv. þm. Str. á þskj. 187 atkv. Þar mun vera um að ræða eitt þeirra héraða, sem eru allra erfiðust til læknisvitjunar. — Brtt. á þskj. 186 um Eyrarbakkahérað get ég verið meðmæltur. Tel ég sjálfsagt, að sama sé látið gilda þar og á að gilda um Egilsstaðahérað.