25.01.1945
Efri deild: 110. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í B-deild Alþingistíðinda. (2895)

153. mál, hafnarbótasjóður

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Ég heyri nú, að hv. þm. Barð. vildi draga nokkuð í land stóru orðin, og er það vel. En hitt skil ég þó ekki, hvernig honum getur fundizt óþinglegt, að ég skuli minnast á það, sem hann sjálfur bar upp í sig. Ef ég hef upp eftir honum óþingleg orð, hvernig má ég skilja, að þau hafi ekki verið upphaflega óþingleg í hans munni? Annars ætla ég ekki að hafa mörg orð um málið sjálft, en nefna nokkur atriði.

Hv. þm. sagði, að ég hefði vikið mér undan því, sem er aðalatriðið, að hér með væri ekki hækkað fjármagn til hafnargerða. Og þess vegna lét hann liggja orð að því, að þá væru ekki heldur auknir möguleikar til þessara framkvæmda, þó að l. yrðu staðfest. Þetta held ég fram, að sé alveg rangt, og hef rökstutt nægilega, ef hann hefði viljað á það hlusta. Ég skýrði það fyrir honum, að það er viss, takmörkuð upphæð á hverju ári, sem hægt er að veita til hafnargerða. Nokkur hluti er nú veittur til staða, sem ekki er líklegt, að fullnoti upphæðina á árinu. Þó er ekki hægt að færa upphæðirnar milli staða, vegna þess að svo er til ætlazt, að það verði geymt og lagt í sérstakan sjóð, sem ekki er notaður á hverjum stað. Hins vegar veldur þetta því, að ekki er hægt að veita til nokkurra staða, sem vitað er um þegar, að mundu nota féð og þyrftu og ættu að fá það úr ríkissjóði. Slíkir staðir mundu ekki geta lokið þeim framkvæmdum á árinu, sem byrjað hefur verið á og ætti að ljúka. Í þessu efni á frv. að hjálpa og getur hjálpað. Þetta eru aðalrök málsins.