06.09.1944
Neðri deild: 45. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í C-deild Alþingistíðinda. (2909)

87. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. — Frv. þetta lá fyrir síðasta Alþ., en náði þá ekki fram að ganga, enda þótt hv. þm. muni yfirleitt hafa verið því samþykkir, að þetta ákvæði kæmist inn í skattalögin.

Það er sanngjarnt, að menn fái að ráðstafa einhverju af tekjum sínum til líknar- og menningarmála, án þess að þeir þurfi að greiða af því skatta. Þetta getur einnig komið í veg fyrir ýmsar undanþágur, sem geta farið út í öfgar, eins og nærtæk dæmi sýna. Ákvæði svipuð þessum tíðkast mjög meðal erlendra þjóða, en ekkert tilsvarandi er til í íslenzkum skattalögum.

Ég mun ekki ræða meira um þetta að sinni, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og fjhn.