23.10.1944
Neðri deild: 69. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (2912)

87. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. — Ég vil leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til fjhn., hvort n. lítur svo á, að sú undanþága, sem hér um ræðir, nái til íþróttastarfsemi. Það er að vísu tiltekið „líknar- og menningarmál“, en ég hygg, að engum blandist hugur um, að íþróttastarfsemi er menningarmál. Ef n. lítur hins vegar svo á, að íþróttastarfsemi og íþróttamannvirki heyri ekki hér undir, þá mun ég leggja til, að það sé fram tekið.

Ég ætla, að ekki þurfi að rökstyðja það, hverja þýðingu þessi mál hafa, og því eðlilegt, að framlag til þeirra sé skattfrjálst.