23.10.1944
Neðri deild: 69. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í C-deild Alþingistíðinda. (2919)

87. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. — Ég vil fyrir hönd fjhn. mælast til þess, að sú skriflega brtt., sem hér hefur verið lögð fram, verði tekin aftur til 3. umr., svo að n. fái tækifæri til þess að athuga það, sem hún fjallar um. Að öðru leyti vil ég geta þess, að það kann að vera eðlilegt, að menn tali um málið á svo breiðum grundvelli sem þeir gera. En það, sem fyrir fjhn. vakir, er að láta þetta ekki ná til annarrar starfsemi en líknar- og menningarmála þeirra, sem ekki njóta opinberra styrkja, og þess vegna kemur mál eins og íþróttastarfsemi og mál, sem eru á opinberum styrkjum, síður til greina. (PZ: Það er ekki talað um það neins staðar.) Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða meira um þetta mál.

Ég geri ráð fyrir, að menn séu því ekki mótfallnir, að málið gangi til 3. umr., en það þarf að bæta inn í frv. greinilegu ákvæði um það, að ekki sé til þess ætlazt, að þarna heyri undir önnur starfsemi en sú, sem ekki nýtur opinbers fjárstuðnings, t. d. ef öll skólastarfsemi kæmi þarna undir, þá væri þetta of víðtækt.