23.10.1944
Neðri deild: 69. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í C-deild Alþingistíðinda. (2923)

87. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. — Ég vil verða við þeim tilmælum frá form. fjhn. að taka till. mína aftur til 3. umr., þannig að n. geti tekið hana til athugunar að lokinni þessari umr. Ég sé ekki ástæðu til að gera mál hv. 2. þm. N.-M. að umræðuefni, en ég vil þó benda honum á, að það er misskilningur hjá honum, að þessi till. mín beri vott um, að ég telji íþróttir ekki til menningarmála. Ég færði áður í ræðu minni rök fyrir því, að íþróttastarfsemi væri menningarmál. En till. mín er borin fram vegna þeirrar yfirlýsingar, sem formaður n. gaf, nefnilega þeirrar yfirlýsingar, að til þess væri síður ætlazt, að það væri tilgangur n., að íþróttastarfsemi kæmi undir þetta frv. Það er vegna þessa, að ég vil fá úr því skorið, hvort íþróttastarfsemi falli undir menningarmál. Í mínum huga skolast það ekki neitt, að íþróttastarfsemin er eitt mesta menningarmál okkar þjóðar á þessum tímum.

Hitt sýnir dálítið einkennilegt hugarfar hjá hv. 2. þm. N.-M. um það, hvað menning er, þegar hann talar um það, að meginkjarni þessa frv. sé að gera menningarmálin að skálkaskjóli skattsvikaranna. Það er nú meira skálkaskjólið, ef menn gefa 10 þús. kr. til menningarstarfsemi í landinu, svo að æskan geti iðkað íþróttir. Sér er nú hver glæpurinn, sem menn þá drýgja. Þannig er mat hv. 2. þm. N.-M. á því, hvað til menningarmála heyrir.

Ég læt svo útrætt um þetta mál, en vænti þess, að fjhn. sjái sér fært að koma til móts við þá brtt., sem ég hef flutt og lýtur að því, að heimild sú, sem frv. fer fram á, nái einnig til gjafa til eflingar íþróttalífinu í landinu.