11.09.1944
Neðri deild: 47. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í C-deild Alþingistíðinda. (2949)

89. mál, ráðstafanir vegna dýrtíðar o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti, heiðruðu hlustendur. — Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er ekki neitt nýtt „bjargráð“ núv. ríkisstj. til lausnar á dýrtíðinni, bjargráð vegna hins óvenjulega ástands, sem nú er, eins og hæstv. fjmrh. vildi vera láta. Það er ljót og leið afturganga, ekki aðeins frá fyrstu tímum hennar, heldur og frá verstu tímum þeirra ríkisstj., er hér sátu 1939 og í ársbyrjun 1942. — Hvort sem atvinnuleysi hefur verið eða yfrin atvinna, hvort sem neyð hefur verið hjá almenningi eða sæmileg afkoma, hvort sem atvinnurekendur hafa verið á hausnum eða milljónamæringar, hvort sem vísitalan hefur verið 100 eins og í apríl 1939, 177 eins og í jan. 1942 eða 266 eins og nú, — sem sé, hvort sem dýrtíð hefur verið mikil eða engin, þá hefur „bjargráð“ afturhaldsins alltaf verið eitt og hið sama, að skera niður kaupið, lækka launin við verkafólkið, taka af þeim, sem minnst hafa, til að tryggja þá voldugu og auðugu.

Frv. þetta er því engan veginn fyrst og fremst frv. til lausnar á dýrtíðinni. Það er upphaf og liður í öðru, sem er enn þá afdrifaríkara og hættulegra fyrir þjóðina í allsherjarárás á lífskjör alþýðu og allsherjarbaráttu innan þjóðfélagsins. Þetta frv. er stríðsyfirlýsing af hálfu stj., stríðsyfirlýsing á hendur hinum vinnandi stéttum landsins. Það er stríðsyfirlýsing á hendur verkamönnum Íslands, sem nú fyrst um þriggja ára skeið hafa notið sæmilegrar lífsafkomu í nokkrum hluta landsins eftir áratuga atvinnuleysi og ótrygg kjör. Nú loks, er flestir þeirra hafa fengið viðunandi launakjör, t. d. hér í Reykjavík og víðar, á að skera niður launin við þá með lagaboði. En þar er stj. stórvirk, 10% launalækkun tafarlaust. Og þetta gerist á sama tíma sem allar aðrar þjóðir ræða um að bæta lífsafkomu fjöldans hjá sér og tryggja öllum atvinnu. En hér svarar stjórnarblaðið Vísir spurningum alþýðu þeirrar, sem áhyggjufull er um atvinnuástandið eftir stríð, þeim orðum einum, að það væri glæpur gagnvart þjóðfélaginu að kaupa hingað nýtízkuatvinnutæki, meðan ekki væri fyrir fram búið að tryggja atvinnurekendum gróða af þeim.

Þetta frv. er stríðsyfirlýsing á hendur starfsmönnum hins opinbera, sem ár eftir ár og áratug eftir áratug hafa búið við óþolandi launakjör. Þessum mönnum hefur verið lofað þing eftir þing, að launakjör þeirra skuli samræmd við aðrar launastéttir í landinu. Hvað eftir annað hefur þetta verið svikið. Og nú loks þegar mþn. hefur að fullu útbúið till. um launakjör þeirra og einhver von væri til þess, að þær næðu fram að ganga, eins og starfsmenn eiga siðferðislega kröfu á, þá kemur ríkisstj. sjálf með frv. um að skera niður laun þeirra um 10%. Öllu harðvítugra hnefahögg framan í eina launastétt, sem beðið hefur eftir réttlætingu á kjörum sínum árum saman, getur maðnr varla hugsað sér.

Þetta frv. er einnig árás á íslenzka bændur, því að hvað sem um uppbætur á landbúnaðarafurðum til stærri bænda má segja, þá er hitt staðreynd, að með þessu frv. væri skorið niður verð á framleiðsluvöru smærri bænda, t. d. einyrkjanna, jafnhliða því sem lækkað væri við þá kaup, þegar þeir reyna að vinna fyrir sér sem launþegar í vegavinnu o. fl., svo að það væri í senn níðzt á þeim sem launþegum og smáframleiðendum.

Hins vegar fer ekki í þessu frv. ríkisstj. mikið fyrir árás á lífskjör heildsala eða þeirra annarra, sem mest hafa grætt á stríðinu og þægilegast eiga með að koma gróðanum undan. Þessir herrar hafa þvert á móti undir stjórn núv. hæstv. viðskmrh. fengið eins konar löghelgaða einokun á vörum og getað skipulagt söluhringa í flestum viðskiptagreinum til þess í skjóli verðlagseftirlitsins að geta skattlagt neytendur sér til handa.

Manni veitist yfirleitt erfitt að taka tal ríkisstj. um vilja sinn til viðureignar við dýrtíðina alvarlega, þegar maður sér, hvernig hún veitir heildsölunum einokunaraðstöðu gagnvart fólkinu, lætur þá m. a. gefa út faktúrurnar handa sér sjálfum lengi vel, — eða hvernig hún lætur Eimskipafélaginu í té leiguskip ríkisins, til þess að þetta félag græði á þeim 23–28 millj. kr. á einu ári og auki þannig dýrtíðina í landinu um yfir 50 millj. kr. Manni verður ósjálfrátt hugsað til linleskju hennar gagnvart olíuhringunum, þegar maður sér í þessu frv. harðneskjuna, sem á að beita við verkalýð og bændur.

Það er auðséð, að í augum þessarar hæstv. ríkisstj. er það sitt hvað: heildsalar, Eimskip og olíuhringar eða Íslendingar, sem eru „bara“ verkamenn og bændur. — Hinum fyrri skal gefinn gróði og einokunarstaða til þess að græða á vinnu annarra, — við hina síðari skal skera niður þau þurftarlaun, sem þeir vinna sér inn í sveita síns andlitis.

Lausn dýrtíðarvandamálsins er í þessu tilfelli aðeins yfirvarp til þess að ráðast á launakjör launþeganna, átylla til þess að hefja þá allsherjarherferð, sem afturhaldið í landinu vill leggja í gegn verkalýðnum. Ríkisstj. hefur aldrei viljað sinna neinum öðrum till. um lækkun dýrtíðarinnar, svo sem t. d. tollalækkunum, þótt sannað væri, að þær yrðu ríkissjóði hentugri.

Þeir, sem ráða í ríkisstj., vilja stríð, stríð við vinnandi stéttir Íslands. Og með þessu frv. stj. er verið að efna til stéttastyrjaldar með þjóðinni, einmitt þegar henni ríður hvað mest á að standa saman, — verið að sundra þjóðinni, þegar öll afkoma hennar og framtíð er undir því komin, að hún sé einhuga og sterk.

Við sósíalistar lítum svo á, að samþykkt þessa frv. eða einhvers álíka væri ekki aðeins hið mesta óréttlæti og ögrun gagnvart vinnandi stéttum landsins, heldur og hin mesta ógæfa fyrir alla þjóðina vegna þeirrar sundrungar og harðvítugrar innanlandsbaráttu, sem af því mundi leiða, og þess ófyrirsjáanlega tjóns, sem þjóðin gæti beðið í slíkri baráttu.

Við sósíalistar álítum, að íslenzka þjóðin hafi nú tækifæri til að tryggja framtíð sína betur en hún gat nokkru sinni vonað, tækifæri, sem kemur ekki aftur, ef því er sleppt nú. Og þetta tækifæri verður að grípa nú þessa dagana hér á Alþingi, ef það á ekki að ganga þjóðinni úr greipum, oss öllum til óbætanlegs tjóns. Og þetta tækifæri er því aðeins hægt að nota, að saman standi að því framfaraöflin úr öllum höfuðstéttum landsins, verkalýð, bændum og atvinnurekendum, er myndi sterka stj. hér á Alþ. næstu dagana í því skyni.

Ég skal nú greina nánar, hvað ég á við.

Stríðið er brátt á enda, ef til vill verður því lokið fyrr en þessu þingi. Þá mæta oss algerlega ný viðhorf í stjórnmálum heimsins, í tækni, atvinnuháttum og fjárhagsmálum veraldarinnar. Í þessari styrjöld hefur tækni mannanna fleygt svo fram, að tala má um nýja tæknibyltingu í sögu mannkynsins. Við þurfum ekki nema hugsa til flugvélanna, sem nú fara daglega milli Íslands og Ameríku, til þess að sjá, hver risaskref mannkynið hefur stigið í tækninni síðan t. d. fyrir 5–10 árum. Ef hin nýja framleiðslu- og samgöngutækni veraldarinnar verður hagnýtt til þess að gera líf mannanna betra og auðveldara, þá verða slíkar framfarir á jörðunni á næstu árum, að aldrei hafa sézt þvílíkar. Og það verður gerð stórfelld tilraun til þess að gera þetta, tilraun að skapa stórfelldan iðnað með öllum þjóðum, bæta lífsafkomu og kaupgetu hverrar einustu þjóðar og leggja þannig öruggan grundvöll að alhliða framförum og friði í heiminum. Þessi tilraun verður gerð vegna þess, að stjórnendum og forystumönnum hinna sameinuðu þjóða er ljóst, að ef ekki tekst samstarf milli þjóðanna um framleiðslu- og verzlunarmálin í heiminum, ef nú hefst vægðarlaus barátta út á við um markaði, tollverndun, einkaréttindi, og nýlendur ásamt þeim árásum á lífskjör almennings inn á við, sem slíkri samkeppni fylgir í hverju landi, — þá dynur stríð og fasismi yfir þjóðirnar innan 10–20 ára í kjölfar nýrrar kreppu og atvinnuleysisfaraldurs. Þessi tilraun til alþjóðlegs samstarfs þjóðanna um atvinnumálin verður gerð, og undir því, hvort hún tekst, er framtíð og friður mannkynsins kominn.

Það liggur nú fyrir oss á næstunni að taka þátt í þeirri umskipulagningu atvinnulífsins í heiminum, sem óhjákvæmilega fer fram. Við eigum í öllu þessu umróti að tryggja pólitískt og fjárhagslegt sjálfstæði litla lýðveldisins okkar, skapa grundvöll að stórkostlegum atvinnulegum framförum þjóðarinnar og sjá um, að fámennasta þjóð veraldarinnar geti lifað áfram við beztu lífsafkomu, sem nokkur þjóð í Evrópu býr nú við. Það verða þrjú höfuðsvið, þar sem reynir á okkur, hvort við erum því hlutverki vaxnir, sem saga og þróun þjóðarinnar krefst, að við leysum af hendi á þessum tímamótum mannkynssögunnar.

Í fyrsta lagi: verndun sjálfstæðis þjóðarinnar.

Landið okkar er ekki lengur afskekkt ey langt frá öðrum þjóðum. Við erum nú staddir á alfaraleið. Það er orðið bara bæjarleið að bregða sér til Ameríku. Og með afnámi fjarlægðarinnar er öryggi einangrunarinnar horfið. Við vitum, að land okkar er hernaðarlega orðið einn af þýðingarmestu deplum á yfirborði jarðarinnar, ef ógæfa styrjaldanna á enn að fylgja mannkyninu í nánustu framtíð. Við heyrum af erlendum blöðum, hvernig talað er um land okkar og hernaðargildi þess. Og í amerískum stórblöðum er jafnvel ekkert utan af því skorið, að Bandaríkin verði að ráða yfir Íslandi eftir stríð, hafa hér hervernd á hendi og bækistöðvar fyrir flugher og flota. Það, sem áður hét Grímsey, nefnist nú Keflavík og Hvalfjörður. Og það eru ekki aðeins amerísku blöðin, sem heimta þetta. Ábyrgir amerískir stjórnmálaleiðtogar gera hið sama. Ég skal rétt geta þess út af afneitunum Connallys, form. utanríkismálan. öldungadeildar Bandaríkjaþings, sem nýlega var gert allmikið úr hér í blöðunum, — að í síðasta tölublaði White Falcon (Hvíta fálkans), blaði Bandaríkjahers hér á Íslandi, upplýsir ritstjórinn að gefnu tilefni, að „öldungaráðsmennirnir Connally, Reynolds og McKellar hafi komið fram með uppástungur um, að Bandaríkin fengju hernaðarbækistöðvar á Íslandi eftir stríð“. — Við vitum því, að hætta vofir yfir. Við vitum líka, að hvað sem stórþjóðirnar kunna að hugsa sér viðvíkjandi Íslandi, þá hafa þær þó eitt sameiginlegt: Þær kæra sig ekki um það hver um sig, að hinar fái hér drottnunaraðstöðu. Og það er þetta, sem við eigum að nota okkur til þess að tryggja raunverulegt sjálfstæði landsins, með því að ljá engri einstakri þeirra fangstaðar á oss, en hafa vináttu við þær allar. Slíku jafnvægi fáum við því aðeins haldið í utanríkispólitík okkar, að öflugt samstarf sé með sterkustu stéttunum í landinu í þessu skyni. Ef harðvítug innbyrðisstyrjöld geisar hér milli stéttanna, þá er að vonum auðveldara fyrir erlend yfirdrottnunaröfl að hagnýta sér sundrungu þjóðarinnar og flokkadrætti, líkt og gert var á Sturlungaöld. Sjálfstæði þjóðarinnar getur því oltið á því, að samstarf takist milli verkamanna, bænda og annarra millistétta og atvinnurekenda um markvísa utanríkispólitík til að tryggja sjálfstæðið, eigi aðeins í orði, heldur og á borði.

Í öðru lagi: Við þurfum að tryggja atvinnulega aðstöðu íslenzku þjóðarinnar í heiminum.

Við Íslendingar höfum síðasta aldarfjórðunginn átt meira undir heimsmarkaðinum hlutfallslega en nokkur önnur þjóð. Við höfum flutt meira út á hvert mannsbarn en nokkrir aðrir. Við verðum að selja á heimsmarkaðinum helminginn af allri okkar framleiðslu. Og nú er verið að skipuleggja að meira eða minna leyti þennan heimsmarkað með samningum milli þjóðanna. Atvinnuleg afkoma okkar og framtíð veltur á því, að þegar þessi verkaskipting þjóðanna í framleiðslunni er ákveðin, þá fáum við fyrst og fremst tryggðan réttinn til hagnýtingar íslenzku fiskimiðanna með stækkaðri landhelgi og að það falli í okkar hlut framar öðrum að fá að birgja Evrópu að fiski og fiskafurðum héðan svo sem við frekast megnum. Við vitum Íslendingar, hvað það þýðir, ef aðrar þjóðir, svo sem t. d. Englendingar, fara að margfalda útgerð sína hingað til Íslands, í stað þess að hafa þá eðlilegu verkaskiptingu, að þeir framleiði vélarnar og skipin, sem bezt eru til þess búnir, en við, sem fyrst og fremst verðum að treysta á sjóinn til að veita okkur grundvöll að góðri lífsafkomu, fáum að einbeita kröftum okkar á að hagnýta auðlindir lands okkar og sjávar.

Við skulum gera okkur það ljóst, að ef hagsmunir okkar Íslendinga verða fyrir borð bornir við þær ráðstafanir, sem nú verða gerðar í alþjóðlegum atvinnumálum, þá getur svo farið, að erfitt verði síðar að bæta úr þeirri villu og framtíð sjávarútvegs og fiskiðnaðar á Íslandi yrði máske eyðilögð þess vegna. Ákveði meginlandsþjóðir Evrópu t. d., að þær skuli sjálfar framleiða allan þann fisk, er þær þurfa, þá sjáum við, hvernig komið er atvinnumálum Íslendinga, því að á sjávarútveginum byggjast í rauninni allir aðrir atvinnuvegir okkar og hrynja eins og spilaborg, ef sjávarútveginum, grundvellinum, er undan þeim kippt.

Það verður áreiðanlega enginn hægðarleikur að tryggja Íslendingum rétt sinn við þessa alþjóðlegu samninga um atvinnumál. Við þurfum áreiðanlega á því að halda að beita öllum þeim færustu mönnum, sem þjóðin á til, hvar í flokki og stétt, sem þeir standa, til þess samhentir að standa fyrir máli hennar og hafa með höndum þá samninga, sem afkoma hvers einasta manns í landinu byggist á, máske um áratugi. Við höfum hins vegar vafalaust tækifæri til þess að koma ár okkar vel fyrir borð, ef við kunnum að hagnýta okkur allar aðstæður. Við höfum ef til vill möguleika til að leggja grundvöll að því, að Ísland fái ótakmarkaðan markað fyrir fisk sinn og fiskafurðir á meginlandi Evrópu og víðar, ef við látum ekkert tækifæri ónotað nú þegar.

En ef við höfum hér ríkisstj., sem engu sinnir á þessu sviði, — eða ef allt atvinnulíf okkar er í öngþveiti og þjóðin innbyrðis sundruð og sú ríkisstj., sem með völd fer, svo veik, að hún ræður í rauninni engu í atvinnulífinu, — þá gengur þetta tækifæri úr greipum okkar, og afleiðingin er óhjákvæmileg afturför í öllu atvinnulífi Íslands með öllum þess fylgifiskum: atvinnuleysi, hruni og fátækt þjóðarinnar.

Þriðja höfuðsviðið, sem krefst samstarfs með höfuðöflum þjóðarinnar, er ef til vill allra veigamest. Það er: Alger nýsköpun atvinnuveganna á Íslandi með öflun fullkomnustu tækja, er við eiga, til atvinnurekstrarins.

Íslenzka þjóðin á nú yfir 500 millj. kr. í innistæðum erlendis. Ef við notum þetta fé rétt, getum við með því gerbreytt atvinnuvegum okkar og lagt öruggan grundvöll að blómlegasta atvinnulífi, sem hér hefur þekkzt. Ef allt þetta fé væri notað á næstu 4–5 árum til þess einvörðungu að kaupa fyrir það framleiðslutæki og efni til varanlegra bygginga og mannvirkja, allt samkv. fyrir fram gerðri áætlun um þjóðarbúskap okkar, þá getum við tryggt hverjum einasta Íslending vinnu með tækjum, sem hann afkastar margfalt meira með en nokkru sinni fyrr, og getur því um leið tryggt sér miklu betri og öruggari lífsafkomu en áður. Fyrir þessar 500 millj. kr. getum við keypt 20–30 nýja dieseltogara af beztu gerð, 200–300 nýtízkuvélbáta, tvöfaldað fiskiskipaflota Íslendinga með nýjum, glæsilegum skipastól, verðugum þeim hraustu sjómönnum okkar, sem í fimm ár hafa lagt lífið í hættu til að afla þess fjár, sem nú skapar velmegun þjóðarinnar. — Fyrir þessar 500 millj. kr. getum við á næstu 4–5 árum keypt hentug millilandaskip til flutninga á afurðum okkar, þ. á m. næg kæliskip til að flytja fisk og kjöt í því ástandi til neytendanna erlendis, sem þeir óska. — Fyrir þessar 500 millj. kr. getum við komið upp 4–5 stórvirkum síldarverksmiðjum í viðbót við þær, sem nú eru, svo að sjómenn þurfi ekki framar að kasta síldinni, sem þeir veiða, í sjóinn. Og við getum reist nýtízkuhraðfrystihús og niðursuðuverksmiðjur til þess að vinna úr fiski, síld og kjöti, svo að við getum sjálfir farið að flytja vörur okkar fullunnar út í stað þess að selja útlendingum þær sem hráefni. — Fyrir þessar 500 millj. kr. getum við keypt vélar til þess að umbylta landbúnaðinum, svo að hægt verði með þeim að slétta meira landflæmi á Íslandi á næstu 4–5 árum en sléttað hefur verið, síðan land byggðist, og láta íslenzkum bændum í té svo stórvirk landbúnaðarverkfæri, að afköst hvers manns, sem með þeim vinnur, ætti að verða 5–10 sinnum meiri en þegar vinna verður með orfi og hrífu í kargaþýfi. — Fyrir þessar 500 millj. kr. má kaupa vélar og efni til rafvirkjunar, stórfelldari en Sogsvirkjunin og Laxárvirkjunin til samans, sem, eins og menn muna, kostuðu um 20 millj. kr., þegar öll íslenzk vinna við virkjanirnar sjálfar er reiknuð með. — Fyrir þessar 500 millj. kr. getum við keypt vélar og efni til að reisa áburðar- og sementsverksmiðjur og aðrar þær verksmiðjur, sem okkur eru nauðsynlegastar fyrir eðlilega atvinnuvegi vora. — Fyrir þessar 500 millj. kr. getum við keypt vélar til innanhússtarfa til þess að létta lífið fyrir þeim Íslendingum, sem oft verða að þræla mest, íslenzku húsmæðrunum. — Fyrir þessar 500 millj. kr. má fá vélar og efni til íbúðarhúsbygginga í bæ og sveit, til hafnarmannvirkja, til hagnýtra vegagerða, — og þannig mætti lengi telja.

Og þó er það trú mín, að frekar yrði afgangur af þeim 580 millj., sem þjóðin á nú inni erlendis, einmitt hjá þeim þjóðum, sem framleiða efnið og vélarnar, sem við þurfum, — heldur en okkur skorti fé. Hitt yrði frekar, að við yrðum að hafa okkur alla við til þess að geta haft nægan vinnukraft til að reisa öll þessi mannvirki og manna skip vor og atvinnutæki. Og eitt er víst, að við yrðum að hagnýta vinnuafl landsmanna vel og skynsamlega, því að vel gæti svo farið, að sumt af þeim vélum, er okkur vantaði, gætum við ekki fengið strax og yrðum máske fyrst að einbeita vinnukraftinum á einhverja ákveðna atvinnugrein, t. d. byggingar, rafvirkjanir, hafnarmannvirki, til þess að geta síðan einbeitt honum að hinum greinunum, jafnóðum og vélar og efni fengjust.

Ef við Íslendingar bærum gæfu til þess að standa saman um að framkvæma þessar fyrirætlanir á næstu 4–5 árum, gerum við þrennt í senn:

1) Við hindrum, að atvinnuleysið komi aftur, og setjum hvern vinnufæran Íslending til hagnýtrar vinnu. Og við búum þannig í haginn fyrir framtíðina með því að koma á svo stórvirkri tækni í atvinnuvegunum, að það ætti aldrei framar að þurfa að verða atvinnuleysi á Íslandi, ef rétt væri á haldið, — og ekki heldur sá þrotlausi þrældómur til lands og sjávar, sem vinnandi stéttirnar áður urðu að þola, þegar atvinnuleysið þjáði þær ekki.

2) Við aukum afköst hvers manns og margföldum framleiðslu þjóðarinnar, en við lækkum að sama skapi kostnaðinn við að framleiða hvert kíló af fiski, kjöti, mjólk og öðrum afurðum, af því að við framleiðum þetta með fullkomnari tækjum og aðferðum. Og slík lækkun framleiðslukostnaðarins er ásamt eðlilegum leiðum, svo sem lækkun tolla, minnkun verzlunarálagningar o. fl., höfuðaðferðin, sem við getum beitt í þessu þjóðfélagi til þess að geta í senn haldið uppi núverandi lífsafkomu þjóðarinnar og gert vörur hennar samkeppnisfærar erlendis, ef hún þyrfti að lækka þær til muna. Þetta er sem sé um leið ein af þeim lausnum dýrtíðarmálsins, sem samrýmist hagsmunum allrar þjóðarinnar.

3) Við tryggjum þjóðinni þá lífsafkomu, sem hún býr við nú, og leggjum grundvöll að því að bæta hana í framtíðinni. En þetta getum við því aðeins unnið, að allar höfuðstéttir þjóðarinnar leggist á eitt, að framfaraöflin meðal launþega, bænda og atvinnurekenda sameinist um að framkvæma þetta, að stjórnmálaflokkarnir taki nú þegar höndum saman um að mynda stj. til að framkvæma þessar fyrirætlanir og tryggja með því lífsafkomu þjóðarinnar.

Það verður erfitt átak að framkvæma þessa nýsköpun atvinnuveganna á fáum árum. Þjóðin getur þurft að leggja þó nokkuð að sér, ef hún ætlar að lifa af því einu, sem hún framleiðir og flytur út, en nota innstæðurnar erlendis einvörðungu til nýsköpunar atvinnulífsins. Það þarf meiri samstillingu kraftanna en við höfum nokkurn tíma fyrr þekkt hér á Íslandi. En eftir framkvæmd einnar slíkrar fjögurra eða fimm ára áætlunar um nýsköpun sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar væri Ísland eins og annað land, hvað tækni snerti, og afkastamöguleikar framleiðslugreinanna væru margfaldaðir. Og hver er sá, sem vill sleppa tækifærinu til að búa þannig í haginn fyrir samtíð og framtíð?

En ef við hins vegar förum nú að berjast af öllum mætti innbyrðis, ef allt á að loga í deilum milli verkamanna og atvinnurekenda, ef úlfúð og barátta á að verða milli sveita og kaupstaða, ef mánaðalangar vinnustöðvanir og árlangt atvinnuleysi á nú að taka við, ef valdhafar landsins ætla að einbeita sér að því einu að kúga launþegana til kauplækkunar með svipu atvinnuleysis og öngþveitis yfir höfði þeirra, — þá verður lítið sem ekkert af þessu framkvæmt nú á næstunni, þá kaupum við matinn handa okkur erlendis frá fyrir innstæðurnar, á meðan við rífumst hér heima um, hverjir eigi að tapa. Og glæsilegasta tækifæri, sem Ísland hefur haft til að verða atvinnulega sjálfstætt og velmegandi þjóðfélag, væri glatað.

Þjóð okkar hefur alla sína ævi verið fátæk. Kynslóð fram af kynslóð hefur hún þjáðst undir oki örbirgðarinnar. Nú hefur hún möguleika til þess að tryggja núlifandi og komandi kynslóðum betri afkomuskilyrði en okkur hafði órað fyrir, að hægt væri að fá svo fljótt. Á nú að glata þessum möguleikum sakir innbyrðis sundrungar?

Þjóð okkar hefur lengst af verið eftirbátur annarra þjóða í tækni. Við höfum lengst af orðið að kaupa framleiðslutækin gömul, þegar aðrar þjóðir voru að leggja þau niður. Nú hefðum við tækifæri til að komast í röð fremstu þjóða, hvað tækniútbúnað allra atvinnuvega okkar snertir. Eigum við að sleppa því tækifæri?

Land okkar hefur lengst af verið nýlenda og þjóðin orðið að framleiða hráefni handa iðnaðarþjóðum, sem þær síðan vinna til fulls úr hjá sér. Nú hefðum við möguleika til að verða iðnaðarþjóð, að svo miklu leyti sem framleiðslu okkar hentar iðnaður, og selja niðursoðnar vörur til þeirra markaða, sem milliliðir lokuðu fyrir okkur áður. Eigum við að láta okkur lynda atvinnulegt hlutskipti nýlenduþjóðarinnar?

Ég hef nú orðið svo langorður um þessa framtíðarmöguleika þjóðarinnar vegna þess, að ég álít, að sjálfstæði okkar, markaðir fyrir framleiðslu okkar, nýsköpun atvinnulífsins og afkoma almennings í landinu verði mestmegnis undir því komin næstu árin, hvaða ákvarðanir verða teknar nú þegar um þessi mál, — hvort mynduð verður sterk stj. í landinu með samstarfi þingflokkanna til þess að inna þetta hlutverk af hendi eða hvort hér á að verða sundrung og flokkadrættir, atvinnuleysi og öngþveiti, öll beztu tækifærin látin ganga þjóðinni úr greipum.

Til lítils kunna þá þm. okkar sumir Sturlungu sína utan bókar, ef við getum ekkert af henni lært. Tíl lítils höfum við þá þolað nýlendukúgun í sjö aldir sakir sundrungar okkar fyrrum og háð fórnfreka sjálfstæðisbaráttu öldum saman, ef við kunnum ekki fótum okkar forráð nú, þegar stjórnfrelsið er að fullu fengið.

Og það er annaðhvort að hrökkva eða stökkva í þessum málum næstu dagana.

Sósfl. er fyrir sitt leyti reiðubúinn til þess að taka nú þegar þátt í myndun ríkisstj. til að framkvæma þær fyrirætlanir, sem ég hef lýst. Sósfl. er reiðubúinn til þess jafnframt í sambandi við slíka stjórnarmyndun að beita áhrifum sínum til þess, að frjálsir samningar takist milli verkamanna og atvinnurekenda um grunnkaup, t. d. til næstu tveggja ára, og milli neytenda og bænda, að svo miklu leyti sem ríkisvaldið leyfir, um grundvöll afurðaverðs á sama tíma, — allt miðað við að láta dýrtíðina ekki aukast frá því, sem nú er, og að tryggja afkomu vinnandi stéttanna svipaða og verið hefur og bæta hana, strax og skilyrði til þess batna. Á grundvelli þess innanlandsfriðar, sem þar með væri tryggður, og þeirrar sameiningar beztu og sterkustu krafta þjóðarinnar um þingræðislega ríkisstj. væri hægt að framkvæma það mesta stórvirki, sem unnið hefði verið í atvinnulífi Íslendinga, og leggja öruggari grundvöll að afnámi alls atvinnuleysis og að batnandi lífsafkomu hjá þjóðinni. — Og ef þetta er ekki gert, — ef tækifærið, sem nú er í þessari viku til stjórnarmyndunar um þetta mál, er ekki notað, hvað tekur þá við?

Það er eitt af tvennu: Annar möguleikinn er sá, að þau öfl, sem ráða í atvinnurekenda- og bændastétt og vilja ekki samstarf við verkamenn, taki höndum saman til árásar á verkalýðinn og alla launþega til þess að leysa dýrtíðarvandamálið á þeirra kostnað með launalækkunum. Það þýðir, að Framsókn og Sjálfstfl. myndi stj. eða geri þessa stj. að sinni og taki t. d. upp gerðardómsþráðinn frá 1942 í einni eða annarri mynd til þess að framkvæma hann nú „röggsamlega“ og „renna ekki frá honum“, eins og Tíminn mundi orða það, og brjóta verklýðshreyfinguna á bak aftur „í eitt skipti fyrir öll“, eins og Vísir mundi segja.

Við vitum, að það eru til svo harðsvíraðir atvinnurekendur, að þeir vilja fyrst og fremst nota þann mikla gróða, sem þjóðin og þá fyrst og fremst sjómennirnir hafa veitt þeim á undanförnum árum, til þess að láta sverfa til stáls við verklýðshreyfinguna, sem þeim finnst orðin of voldug í landinu. Ef slíkir atvinnurekendur, sem sækjast eftir einræði peningavaldsins í atvinnulífi Íslendinga, skyldu verða ofan á í atvinnurekendastétt, mundi það verða íslenzku þjóðinni í heild og atvinnurekendum ekki sízt til óbætanlegs tjóns.

Við vitum einnig, að rekinn hefur verið harður áróður í bændastétt fyrir því, að bændur tækju höndum saman við stríðsgróðavaldið í kaupstöðunum til þess að leggja verklýðshreyfinguna að velli. Ef þau öfl, sem slíka stefnu framkvæma, — undir hvað yfirskini sem það svo er, ráða fyrir bændum nú, þá væri þar með gengið í berhögg við vilja og hagsmuni sveitaalþýðunnar á Íslandi. Það er trú mín, að jafnvel þótt afturhaldsöflin yrðu ofan á í báðum þessum stéttum, þá mundu þau í fyrsta lagi ekki vera nógu sterk til þess að geta framkvæmt kúgunarpólitík sína, og í öðru lagi, þá mundi einvörðungu hljótast af því bölvun fyrir þjóðina, ef þau megnuðu nú að framkvæma það, sem þeim mistókst 1942. Afleiðingin af því, að þessi leið yrði reynd í alvöru, mundi því verða langvinn og dýr hjaðningavíg, sem enginn okkar veit nú, hvernig lyki.

Hinn möguleikinn, ef eigi tækist eining um athafnasama framfarastjórn nú, væri það, að alþýðan í landinu og öll þau öfl, hvar í flokkum sem þau standa, sem vilja til hins ýtrasta reyna að tryggja núverandi lífsafkomu almennings, nái þeim pólitísku völdum í kosningum í haust, sem til þyrfti til að framkvæma slíka framfarastefnuskrá. Það er ekki á mínu færi að segja, hvort slíkt væri hægt nú í haust, það er á valdi kjósendanna að ákveða það. Og svo mikið er víst, — þau öfl, sem ekki vilja einingu nú, mundu vafalaust geta gert alla slíka framkvæmd mjög erfiða, þótt það tækist að ná pólitískum meiri hluta á þingi, er framkvæma vildi þessa stefnu. En hitt liggur í augum uppi, að takist engin eining nú þessa dagana um slíka stjórnarmyndun, er ég hef lýst, þá mun Sósfl. beita öllum áhrifum sínum til þess að knýja fram kosningar nú strax og treysta á þjóðina að leysa með sköpun nýs þingmeirihluta þau vandamál, sem þetta þing hefði gefizt upp við eða ætlað að leysa til hins verra. Sósfl. mun þá heita á öll verklýðssamtökin í landinu, öll samtök launþega og alþýðu manna, öll framfaraöfl í bænda- og atvinnurekendastétt að fylkja sér saman til þess að reyna að ná þeim þingstyrk, er þyrfti til að geta framkvæmt hana í baráttu við þau öfl, sem hefðu hindrað einingu nú.

Þriðji möguleikinn: að láta núverandi stjórn sitja og ekkert gerast á neinu sviði, er ekki til. Mun allt í senn þrotið: þolinmæði þingsins að sitja með svona stjórn, þolinmæði stj. að fást við slíkt þing — og þolinmæði þjóðarinnar gagnvart slíkri stjórn og slíku þingi.

Það var hægt að una þessu ófremdarástandi, meðan sameina þurfti þjóðina um lýðveldisstofnunina og við sósíalistar, — en okkur hefur þessi stjórn verið fjandsamlegust, — létum okkur setu hennar lynda, unz það mál var komið í höfn. — En nú munum við næstu daga leggja fram vantraust á hana til þess að fá úr því skorið, hvaða flokkar vilji taka ábyrgð á þessu ástandi lengur, ef þá stj. segir ekki sjálf af sér, er hún sér undirtektir þær, er þetta frv. hennar nú vonandi fær.

Það verður ekki ráðið fram úr dýrtíðarmálinu nema til stórtjóns fyrir þjóðina, ef það á að höggva á hnútinn með sverði nýrra þrælalaga í stað þess að leysa hann með allsherjarsamstarfi. Þrátt fyrir það kapp, sem nú einkennir höfuðstéttir þjóðfélagsins í afstöðu þeirra hver til annarrar, þá er það sannfæring okkar, að þjóðarheildinni yrði það fagnaðarefni, ef Alþ. gæti nú komið sér saman um að leysa málin með samstarfi. Eigi kappið ekki að leiða til nýrra hjaðningavíga, þá verður forsjáin að koma frá Alþ.

Við sósíalistar erum reiðubúnir til að berjast, nú sem fyrr, — berjast af kappi, ef þess gerist þörf, og draga hvergi af okkur. En okkur er ljóst, að aldrei hefur íslenzka þjóðin sem heild átt eins mikið undir því, að eining og samstarf gæti komizt á, — aldrei hefur innanlandsfriður verið henni jafndýrmætur og nú. Og þess vegna vonum við, að þetta þing beri gæfu til þess næstu daga að skapa það jákvæða samstarf um djarfa framfarapólitík, sem þjóðin áreiðanlega þráir.