29.01.1945
Neðri deild: 114. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í B-deild Alþingistíðinda. (3006)

194. mál, eyðing á rottum

Frsm. meiri hl. (Sigurður E. Hlíðar):

Um þetta frv. gat n. ekki orðið að öllu sammála, en meiri hluti n., 4 þm. að tölu, hefur skilað áliti, sem er á þskj. 937, þar sem þessi meiri hluti leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt. Einn nm., hv. 2. þm. N.-M., gat því miður ekki orðið sammála að öllu leyti og skilar því öðru áliti fyrir sig á þskj. 929.

Þetta frv., sem fram er komið að tilstuðlan bæjarstjórnar Reykjavíkur og heilbrigðisstjórnar bæjarfélagsins, hefur fyrst og fremst það nýmæli að geyma, að gert er að skyldu, að rottueyðing skuli fara fram um land allt, og í öðru lagi, að ríkissjóði beri að leggja fram 1/3 kostnaðar af eiturlyfjum. Hér er um algert nýmæli að ræða hér á landi, þó að þetta þekkist í öðrum löndum, því að bæjar- og sveitarfélögin hafa undanfarið orðið að bera allan kostnað af því, og hitt er enn þá merkilegra, sem ég fyrir mína parta legg mest upp úr, og það er, að hér er í fyrsta skipti lagt til, að eitthvert skipulag verði á eyðingu rottu. Það er ekki nóg, að eitt og eitt bæjar- og sveitarfélag leggi í kostnaðarsamt útrýmingu á þessu óþarfa dýri, ef sveitarfélagið við hliðina á skirrist við því, því að þótt það heppnist í bili, þá ber það lítinn árangur, þar sem rotturnar í hinu ósnerta héraði við hliðina á geta strax hlaupið yfir í hið eydda svæði aftur. Ef menn hugsa á annað borð til þess að útrýma þessu skaðlega dýri, er ekki um annað að gera en koma einhverju skipulagi á, og ég hygg, að mér sé óhætt að segja fyrir hönd meiri hluta d., að hann sé sammála um, að mikið sé upp úr því leggjandi, að rottueyðing skuli fara fram um allt land.

Ég sé, að hv. minni hluti leggur alveg á móti þessu og gerir eiginlega það að ástæðu, að ekki muni vera rottur hér á landi nema á sem svari helming af byggðu landi. Ég hygg, að hann hafi litla tryggingu fyrir því, að þessi staðhæfing sé rétt. Sönnu nær er, að rottugangur sé í öllum kaupstöðum hringinn í kringum landið, og út frá kauptúnunum hefur rottugangur þessi teygt sig upp í sveitirnar, kannske ekki upp í alla dali, en þó veit ég, að þar, sem ég þekki bezt til, á Norðurlandi og sérstaklega í Eyjafirði, að þar koma rotturnar meira og minna upp um alla dali, þó að þær séu að vísu ekki komnar á öll heimili. Enn fremur segir minni hlutinn, að sums staðar geri rottur lítinn óskunda. Það tel ég mjög hæpið, því að rottur gera víst alls staðar óskunda, þar sem þær eru á annað borð, t.d. á sveitaheimilum, þar sem torfbæir eru eða hús byggð úr torfi, eru rottur einhver versti óþarfagestur, sem hugsazt getur, þær grafa alla veggi í sundur, og eru ósköp að sjá hamaganginn í þessum skepnum. Rottur eru sennilega víðast hvar um landið, og þar, sem þær eru ekki komnar, munu þær sennilega koma á næstunni, því að þær eru þeim eiginleika gæddar, að þær hafa ákaflega öra tímgun og fjölgunarhæfileikar þeirra eru framúrskarandi. Af einum rottuhjónum geta á 3 árum komið milljón afkvæmi, svo að þá getur maður nokkurn veginn gizkað á, hvað verður, ef ekkert er gert til útrýmingar.

Ég þarf ekki drepa á yfirlýsingu meiri hlutans frekar, en við leggjum sem sé til, að frv. verði samþ. óbreytt.