29.01.1945
Neðri deild: 114. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1250 í B-deild Alþingistíðinda. (3007)

194. mál, eyðing á rottum

Frsm. minni hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. — Ég hef talið, að ekki bæri að samþ. þetta frv. óbreytt. Í fyrsta lagi tel ég vafaatriði, hvort þörf er á að fyrirskipa með l. allsherjareyðingu á rottum um allt landið, og í öðru lagi finnst mér engin sanngirni í því að láta menn, sem aldrei hafa rottu séð, borga hluta í kostnaðinum af eyðingu hjá hinum. Þess vegna finnst mér, að undir öllum kringumstæðum eigi að breyta frv. í það horf, að þau ákvæði, sem fyrirskipa, að þriðjungur kostnaðar skuli greiðast úr ríkissjóði, falli burtu og að viðkomandi bæjar- og sveitarfélög, sem þurfa að eyða rottum og gera ráðstafanir til þess, greiði kostnaðinn sjálf. Hins vegar skal ég ekki standa á móti því, að samþykkt sé gerð um þetta mál, til þess að styðja að því, að menn standi betur saman að eyðingunni. Þess vegna vil ég ekki leggja til, að frv. verði fellt, heldur breytt á þann hátt, að hvert sveitarfélag sé látið bera sinn kostnað.

Ég reyndi að afla mér upplýsinga um, hver kostnaðurinn mundi verða, en það var ekki hægt. Þessi bæjarfélög, sem hafa við rottur að stríða og telja mesta þörf á eyðingu þeirra, hafa aldrei lagt skipulega í að eyða rottum, eins og gert er ráð fyrir í þessum l., og geta ekki gefið upplýsingar um kostnaðinn. Þau geta sagt, hver útgjöldin hafi verið við eyðingu á rottum þetta og þetta ár, því að venjan hefur verið, að þeir, sem hafa orðið varir við rottur, gæfu sig fram við ákveðinn mann, sem þá kom og eitraði. Hvað þessar kákráðstafanir kosta, liggur fyrir, en hvað skipulögð útrýming mundi kosta, það getur enginn gefið upplýsingar um, og það hefur ekki heldur verið reynt að láta gefa upplýsingar um það. Það er ævinlega hægast að koma yfir á ríkissjóð útgjöldum, þegar ekki liggja fyrir upplýsingar um, hve mikil þau eru.

Ég legg þess vegna til, að gerðar séu á þessu frv. 3 breyt., tvær við 2. gr. og ein við 6. gr., sem sé, að felld séu burtu úr þeim þau ákvæði, að ríkið taki þátt í kostnaðinum. Fyrst og fremst geri ég það vegna þess, að ég tel ekki rétt að skylda þá menn, sem ekki þurfa að leggja í neinn kostnað til þess arna, af því að engar rottur eru í þeirra sýslu, til að taka þátt í kostnaðinum, — alveg eins og ég teldi ekki rétt að fara að skylda einhverja menn héðan úr Reykjavík til þess að taka þátt í einhverjum kostnaði, sem lægi einhvers staðar allt annars staðar hjá öðrum mönnum og ekki væri til sambærilegur kostnaðarliður og væri talað um, að þeir tækju þátt í að standa undir. Það er fyrir sig, þó að menn séu látnir standa undir sameiginlegum kostnaði, þegar allir þurfa að taka þátt í honum og þegar allir finna, að ástæða sé til þess að leggja í kostnaðinn, en þegar mikill hluti þjóðarinnar þekkir ekki það, sem á að fara að útrýma með þessum aðgerðum, þá er alveg ástæðulaust að leggja kostnaðinn af þessu á þá.