09.03.1944
Efri deild: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

27. mál, skipun læknishéraða

Brynjólfur Bjarnason:

Ég býst við, að hv. þm. séu sammála um, að það, sem sé langmest aðkallandi í þessu máli, sé 2. gr. frv., um skipun læknismálanna, og þá sérstaklega myndun Egilsstaðahéraðs. Ég býst einnig við, að allir hv. þm. séu sammála um, að nauðsyn beri til, að þetta frv. nái fram að ganga, einkum vegna þessarar gr. Fyrir mér er þetta höfuðatriði þessa frv. Ég geri einnig ráð fyrir, að þetta sé breyt til bóta. og fylgi því þess vegna.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að 3. gr. frv., sem fjallar um að gera Eyrarbakka og Stokkseyri að sérstöku læknishéraði. Fyrir því lágu svo sterk rök, að erfitt var að mæla þar á móti, enda án fordæmis, að læknir væri fluttur frá svo fjölmennum kaupstað sem Eyrarbakka og Stokkseyri. Þar sem nú á annað borð liggur fyrir till. um, að læknisbústaður verði fluttur til Selfoss, verður ekki komizt hjá að taka afstöðu til þessa máls.

Annað, sem er bein afleiðing af þessari till., er till. um, að sérstakt læknishérað verði myndað á Snæfellsnesi. — Það hefur ekki heldur verið neinn ágreiningur um, að nauðsyn sé að sjá þessu fólki fyrir læknishjálp. Þetta mál hefur verið lengi á döfinni, og hafa verið uppi rökstuddar kröfur frá íbúum þessara hreppa. Af þeim ástæðum teldi ég líka sjálfsagt, að nú væri þessi breyt. gerð. Hins vegar dettur mér ekki í hug, að nóg sé að gert. Þetta eru ekki nema smávægilegar breyt., í stað þess, að þörf er á gagngerðri endurskoðun á skipun heilbrigðismálanna. En þær marka stefnu, og þess vegna eru þær merkilegar. Þær marka stefnu af þinginu fram yfir það, sem er hjá heilbrigðisstjórn. Hún er andstæða þess, sem ég vildi kalla úrræðaleysis- og uppgjafarstefnu landlæknis.

Ég ætla ekki að fara út í það nánar að þessu sinni, því að ég vil ekki tefja málið. En hér er aðeins hafið verk, sem á að vinna. Það verk þarf mikinn undirbúning og allt annan en kostur er á, að gerður verði á þessu þingi. Því hefur heilbr.- og félmn. borið fram þál. í Sþ., þess efnis, að skipuð sé n. manna til að gera till. um, hvernig hægt sé að tryggja dreifbýlinu viðunandi læknishjálp, og væri æskilegt, að því starfi yrði lokið fyrir haustið. Hygg ég, ef því er lokið svo snemma, að ekki þurfi að sinni að samþ. margar fleiri brtt. En nú liggja hér fyrir nýjar brtt. í sömu átt frá hv. þm. Str. og hv. 3. landsk.

Hvað viðkemur till. hv. þm. Str., þá má jafna aðstöðunni þar við þá, sem íbúar á utanverðu Snæfellsnesi eiga við að búa. Rökin eru rétt. Málið er vel undirbúið í héraði. Ég treysti mér ekki til annars en greiða atkv. með henni.

Um till. hv. 3. landsk. gildir annað. Það þarf að vísu að bæta úr læknisleysi á þeim stöðum, sem þar greinir, en mér er ekki kunnugt um, hvaða undirbúning málið hefur fengið í héruðum, og brestur nægilega þekkingu til að geta greitt atkv. um þessa brtt.

Ég hef heyrt, að líkur séu til, að þessi þál. nái samþykki og að því verki, sem hún fer fram á, verði lokið fyrir næstkomandi haustþing. Það verk á að vinna undir yfirumsjón beztu manna og í samráði við fólk í héruðum landsins. Að þessu athuguðu held ég, að ekki sé ástæða til að óttast, að málið bíði tjón við þessa meðferð. Þvert á móti ætti það að fá vandaðri undirbúning.