09.03.1944
Efri deild: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

27. mál, skipun læknishéraða

Frsm. minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. — Hv. síðasti ræðumaður lét falla orð í þá átt, að hann teldi sjálfsagt að halda sér við till. þessa um breyt. á læknishéruðunum. Veit ég ekki betur en það sé sama meining, sem kom fram í ræðu hv. 5. þm. Reykv. og hans alkunna samherja hv. þm. S.-Þ. Mér skildist á hv. 5. þm. Reykv., að hann væri að berjast fyrir fólkið í landinu móti hrokafullum embættismanni, sem sé landlækni. Þetta notar hann til að punta upp á, en ég veit, að hann meinar ekkert með því.

Þessi till. gerir enga breyt. á læknaskipuninni í landinu. (BrB: Kannske ekki, á meðan við höfum þessa heilbrigðisstjórn.) Ég hygg, að hv. þm. mundi ekki skipa n. í málinu og ekki bera gæfu til að breyta ástandinu til batnaðar, þótt hann hefði aðstöðu til þess. Ég hygg, að um tvennt sé að ræða: að ákveða fjölda læknanna þannig, að þeir geti fullnægt aðkallandi þörf, og búa þannig að þeim, að þeir geti stundað starf sitt og öðlast vaxandi tækni.

Hv. þm. telur þessa till. ekki nægilega undirbúna og því sé rétt, að hún bíði til hausts. Ég geri nú ekki ráð fyrir, að það gæti valdið miklum skaða, þótt hún biði til haustsins, en þó eru meiri líkur til þess en hins gagnstæða.

Að því er snertir Raufarhöfn, þá hefur sá staður sérstöðu í þessu sambandi. Þaðan er langt að vitja læknis. Þar er enginn bíll og svo til vegarsambandslaust. Á þessum stað safnast saman yfir þúsund manns á sumrin, bæði fólk, sem starfar á skipum, er þar leggja upp, og landmenn. Ég held því, að till. þessi til lagfæringar á þessum stað sé ekki ófyrirsynju fram komin, og vona ég, að hún fái góðar undirtektir, ekki sízt þar sem fram hafa komið kröfur úr héraði um sama efni, bæði frá Suðureyri, sem býr við mjög erfið samgönguskilyrði, og Raufarhöfn.