22.09.1944
Neðri deild: 54. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í C-deild Alþingistíðinda. (3068)

135. mál, loftferðir

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Öllum er kunnugt og allir eru sammála um það, að flugið mun skipta miklu máli fyrir okkur í þessu landi, ekki síður en annars staðar í veröldinni, enda hefur það sýnt sig nú á yfirstandandi tímum, að mikill áhugi er fyrir flugi hér. Fyrir skömmu var lagt fram af ríkisstj. frv. um flugvallabyggingu og um framkvæmdir til undirbúnings því, að flug geti orðið almenn samgöngubót í landinu.

Ég tel engan vafa á, eftir þeim undirtektum, sem það mál hefur fengið á Alþingi bæði fyrr og nú fyrir nokkrum dögum, að það Alþ., sem nú situr, muni afgreiða þetta mál í einhverju formi frá sér. Það er einnig tímabært að taka til yfirvegunar og ákvörðunar, á hvern hátt bezt megi koma fyrir flugsamgöngum í landinu.

Það háttar nú svo til, að hér eru tvö íslenzk flugfélög starfandi, annað Flugfélag Íslands, sem er nokkuð gamalt, og annað ungt félag, sem er nýlega byrjað. Það er varla mikill ágreiningur um, að það sé óheppilegt, að kraftar okkar í þessu sameiginlega þarfamáli séu tvískiptir eða kannske margklofnir, og er það með þann sannleika fyrir augum, að ríkisstj. ber fram þetta frv. hér, sem felur í sér till. um það, að gerð sé svipuð skipun um flug hér á landi eins og reynzt hefur bezt a. m. k. á öllum Norðurlöndum og víðar í Evrópu. En þar var sá háttur á fyrir stríð, að einu félagi var veittur einkaréttur til flugferða í landinu. Það getur að vísu verið gott á mörgum sviðum að hafa samkeppni, en hefur reynzt svo á þessu sviði, a. m. k. á Norðurlöndum og víðar, að það hefur þótt æskilegt og nauðsynlegt að útiloka að kljúfa kraftana og með opinberum aðgerðum stuðlað að því að sameina kraftana til að hafa fullt gagn af þeim.

Þetta frv., sem hér er lagt fram, felur í sér að gera till. um, að ríkissjóði sé heimilt að gerast hluthafi í Flugfélagi Íslands með helming af hlutafjárhæð félagsins og ríkissjóði sé heimilt, ef þörf gerist, að taka fé að láni til þessa. Og enn fremur, eins og ég sagði áðan, að þegar Flugfélag Íslands hefur breytt samþykkt sinni á þennan hátt og ríkissjóður lagt fram fé og orðið eigandi félagsins að hálfu leyti, þá sé atvmrh. heimilt að gefa félaginu einkarétt til flugferða hér á landi og til útlanda með farþega, póst og farangur.

Við álítum sjálfsagt að gefa þessu íslenzka félagi einkarétt á ferðum frá Íslandi, og loks er gert ráð fyrir, þegar búið er að ganga frá þessu, eins og hér er lýst, að þá sé þessu félagi veitt algert skattfrelsi á svipaðan hátt og Eimskipafélag Íslands nýtur nú. Það hefur reynzt svo með flugfélög í nágrannalöndunum, að það hefur þótt nauðsynlegt að hlúa að þeim og styrkja með beinum styrkjum, og sennilega verður ekki komizt hjá því á einn eða annan hátt að gera svipað hér, og þótti því sjálfsagt að taka það fram með l., að félagið yrði skattfrjálst með öllu.

Ég vil geta þess, að það hefur verið rætt um þetta við menn úr stjórn Flugfélags Íslands, og að vísu er það svo, að þetta frv. er ekki gert í samráði við þá, eða þó að a. m. k. meiri hluti stj. muni vera hlynntur því, að frv. svipað þessu sé gert að l., þá kann að vera einhver ágreiningur um, hvort hlutaféð eigi að vera 50 prósent eða eitthvað svolítið minna. Slíkt má að sjálfsögðu meta, en ráðuneytið taldi eðlilegt að leggja frv. fram á þann hátt, sem hér er gert.

Með þessum orðum vil ég mæla með frv. við hv. þd. og leggja til, að að lokinni 1. umræðu verði málinu vísað til hv. samgmn.