28.09.1944
Neðri deild: 57. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í C-deild Alþingistíðinda. (3076)

135. mál, loftferðir

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. — Aðeins örfá orð. Hæstv. atvmrh. lætur líta svo út eins og hér sé verið að deila um það, hvort hér eigi að hafa flugferðir á einni hendi eða hvort þær eigi að vera á mörgum höndum, þannig að mörg flugfélög annist þær. En það er fjarri því, að um það atriði hafi verið deilt, heldur hefur verið fundið að hinu, hve óframbærilegar till. hæstv. ríkisstj. í þessu efni eru gagnvart öðrum aðila, sem er starfandi flugfélag í landinu. Og ég sagði, að ég ætlaði ekki að leggja úrskurð á það, hvort heppilegra væri að hafa hér eitt flugfélag eða fleiri starfandi. Ég álít, að það geti verið heppilegt að hafa þau fleiri en eitt, en hef ekki viljað halda neinu fram skilyrðislaust um það. — Nei, það er allt annað, sem ég hef deilt á. Það er þessi einræðisandi í frv., sem snertir fleiri en mig illa, að setja til hliðar, eins og það sé ekki til, starfandi fyrirtæki í einni grein, en lyfta öðru upp eins og verða má með löggjöf. Það er það, sem deilan hér hefur snúizt um, en alls ekki það, hvort hér á landi eigi að starfa eitt flugfélag eða tvö eða kannske þrjú.

Ég skal svo ekki tefja tímann lengi til þess að tala um þetta. En ég hef það skriflegt frá félaginu h/f Loftleiðum, að hæstv. atvmrh. hafi neitað að gefa meðmæli með því, að h/f Loftleiðir fengi vélina keypta frá Ameríku, meðmæli, sem sendiherra Íslands í Washington óskaði eftir og taldi rétt að fá. Hæstv. atvmrh. segir, að hann hafi ekki neitað um þessi meðmæli, en hann hafi gefið umsækjanda meðmælanna frá félaginu leiðbeiningar, en svo hafi hann aldrei komið aftur. Svo getur hver og einn um það dæmt, hvernig þær leiðbeiningar muni hafa verið. Því að svo mikið er víst, að það gefur ekki beinlínis ástæðu til að ætla, að formaður flugfélagsins h/f Loftleiða hafi álitið, að mikils stuðnings væri að vænta frá hæstv. atvmrh., úr því að hann taldi ekki ómaksins vert að fara til hæstv. ráðh. aftur, eftir að hann var búinn að fá þessar leiðbeiningar. — Annars býst ég við, að þeir í h/f Loftleiðum hafi fengið leiðbeiningar annars staðar að en frá ríkisstj., því að leiðbeiningar til þess að fá áhöld eins og flugvélar er víst ekki hægt að fá hér. — Nei, hæstv. ráðh. véfengdi, að h/f Loftleiðir hefði fé til þess að eignast þessa flugvél. Og það virðast vera þær leiðbeiningar, sem hæstv. ráðh. gaf. En formaður félagsins h/f Loftleiðir taldi það ekki ómaksins vert að tala við hæstv. atvmrh., eftir að hafa fengið þessi svör hjá honum, eftir að hafa talað við hæstv. viðskmrh., sem gaf leyfi fyrir kaupum á vélinni fyrir sitt leyti, og sendiherra Íslands í Washington.