28.09.1944
Neðri deild: 57. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í C-deild Alþingistíðinda. (3078)

135. mál, loftferðir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Í sambandi við þetta frv. hefur aðallega verið rætt um tvö hlutafélög, sem fram að þessu hafa fengizt við flug á Íslandi. Ég held, þegar ríkið skiptir sér af þessu máli, sem er rétt að það geri, að vert sé að athuga það, að það kunna að vera fleiri Íslendingar en þeir, sem eiga hlutabréf í þessum fyrirtækjum, þeim tveim flugfélögum, sem nefnd hafa verið, sem vildu gjarnan vera með í slíku. Þegar Eimskipafélag Íslands var stofnað, voru almennt boðin út hlutabréf og þjóðin öll sem heild átti þetta fyrirtæki. Og menn hafa harmað það, að smátt og smátt hefur þetta breytzt og fáir menn hafa fengið þar völd, eins og nú hefur átt sér stað upp á síðkastið. Þegar byrja á að stofna eitt flugfélag, sem ríkið á að hafa mikil ráð í, þá er ekki nema eðlilegt, að almenningi sé boðið að taka þátt í því. Og þegar stofna á hlutafélag til þess að reka flugsamgöngur milli Íslands og útlanda, þá virðist ekki nein sérstök ástæða til þess, að það sé sérstakt flugfélag hér í Reykjavík, sem fyrst og fremst eigi að leggja í þetta. Það getur verið, að menn hér í Reykjavík aðrir en þeir, sem í flugfélagi eru, svo sem verkamenn og ýmsir aðrir, þ. á m. bændur úti um land, vilji leggja í þetta. Og það væri gott að fá menn um allt land til þess að vera með í þessu. Ég álít þess vegna, að þegar þingið tekur fyrir mál eins og þetta, þá sé rétt, að n. sú, sem fær það til athugunar, athugi, að ekki er ástæða til þess að löggilda sérstakt flugfélag, sem hefur verið í landinu, og gefa því einkaréttindi í þessu efni. Ég er viss um, að hér á landi eru mjög margir, sem vildu leggja í þetta. Og við þurfum vafalaust á því að halda, að margir leggi nokkuð fram, ef við ætlum að skapa okkur stór fyrirtæki, hvort sem er á sviði samgangna eða framleiðslu, og fá sem mesta þátttöku fjöldans í landinu í þessum fyrirtækjum. Og því er bezt að útiloka það frá byrjun, að nokkrir einstakir menn fái þarna einkaréttindi.

Hvað snertir þátttöku ríkisins í þessu, vil ég taka undir það, sem er meiningin með ákvæðum hæstv. ríkisstj. um hlutaféð, en mér virðist hæstv. atvmrh. vilja draga úr. Ég held, að það sé rétt, að ríkið hafi í þessu fyrirtæki raunverulegt meirihlutavald. Og ef það álízt bezt að hafa hlutafélagsform á þessu, þá álít ég rétt, að ríkinu sé tryggður samsvarandi atkvæðisréttur, því að það er rétt, að ríkið hafi aðalvaldið gagnvart flugsamgöngunum í landinu.

En gagnvart því, hvað leyfilegt sé að borga í arð, þá álít ég, að þegar tekið er fram í l., að eitthvert sérstakt félag skuli vera undanþegið tekju- og eignarskatti og greiðslu útsvars eftir efnum og ástæðum, þá er sjálfsagt að setja líka ákvæði um hámark þess arðs, sem má greiða hjá félaginu. Það er ekki ástæða til þess að slíkt félag megi greiða meira en 4% í arð af hlutafé. Og rétt er þá, að fólkið viti það frá upphafi og að útboð fari fram undir þeim forsendum. Það næði vitanlega ekki nokkurri átt, að ríkið færi að skapa einokunaraðstöðu fyrir ákveðið hlutafélag, þó að það sjálft eigi í því hlutabréf, sem gæti verið svo mikið gróðafélag, að það græddi kannske 25–30% af hlutafé á ári, og þar að auki væri stillt svo til, að það væru ekki nema ákveðnir menn, sem ættu kost á að vera í því. Þegar ríkið stofnar til slíkra fyrirtækja og gefur þeim skatt- og útsvarsfrelsi, þá hlýtur ríkið að segja um leið: Við gefum einstaklingum í því ekki aðstöðu til að græða meira en sem svarar vöxtum af því fé, sem þeir hafa lagt fram. Og 4% vextir virðast mér nægilega háir, sérstaklega þegar bankarnir borga nær enga vexti. — Vil ég, að hv. n. hafi hliðsjón af þessu við meðferð málsins.